Beint í efni

Hvað fer í sílóið hjá þér?

19.05.2014

Það sem fer í kjarnfóðursílóið er í stóru samhengi við það sem kemur út úr mjólkurtanknum og verður innvigtað í samlagið.


 


Þarna erum við að tala um það sem skiptir öllu máli í dag, fituna í mjólkinni ásamt próteininu. Við kúabændur þurfum að gæta verulega að því hvaða kjarnfóðurtegund fer í sílóið, í samhengi við það gróffóður sem í boði er á hverju og einu búi. Aðstæður eru misjafnar til gróffóðuröflunar og því er eðlilegt að ein kjarnfóðurtegund henti mér, en önnur þér.  Mikilvægt er að ígrunda vel þennan þátt og hvet ég kúabændur til að leita sér aðstoðar við að finna hvað hentar hverjum og einum. Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins er okkur nærtækust og hefur fengið í samstarf við sig fóðurráðgjafa frá Noregi, en Norðmenn glímdu við þennan vanda sem við glímum við í dag, vöntun á fitu á markaði.


 


Í vetur höfum við notið þessarar aðstoðar og erum með puttann á púlsinum. Það þarf að endurskoða reglulega hvort fóðurbreytingarnar (ef breytingar hafa verið gerðar) skili árangri og til að mynda er hægt að panta örari efnamælingar á mjólkinni í skamman tíma. Taka svo ákvörðun út frá því hvort gera eigi einhverjar frekari breytingar eða ekki. Það að hækka efnahlutföllin í mjólkinni er fljótt að skila sér í pyngjuna.


 


En komum þá að þeim vanda sem of margir kúabændur hafa lent í. Kúabóndi ákveður að panta kjarnfóður frá fyrirtæki X, bíllinn kemur í hlaðið og dælir ákveðnu magni í sílóið. Ekki er skilinn eftir miði um hversu miklu hafi verið dælt og hvaða kjarnfóðurtegund og hvaða dag bíllinn kom! Kúabóndinn hefur ekkert í höndunum um hvað mikið sé í raun í sílóinu og ef tölvubúnaður fjóssins býður upp á skráningu á magni í sílói, er það s.s. ekki hægt. Þar af leiðir getur tölvubúnaðurinn ekki dregið frá það sem fer í kjarnfóðurbásinn og bóndinn ekki séð hvað mikið er eftir í sílóinu (þó er kannski gluggi neðst þegar nánast allt er búið).


 


Á meðan bóndinn bíður spenntur eftir hver áhrifin verða á fituprósentu í mjólk og próteinprósentu sendir fyrirtæki X óumbeðið annan bíl, með sömu kjarnfóðurtegund og dælir því í sílóið óséður og keyrir á brott án þess að skilja eftir sig nokkra kvittun! Svo kemur reikningurinn, en það stendur heldur ekki á honum. Kúabóndinn er grunlaus og skilur ekkert í því hvað kjarnfóðrið dugar lengi úr sílóinu þar til að fyrirtæki X sendir enn einu sinni bíl til að dæla í sílóið! Nú bregður svo við að bóndinn er heima og botnar ekkert í því að kjarnfóðurbíllinn er kominn óumbeðinn. Bóndinn bregst ókvæða við og rekur kjarnfóðurbílinn í burtu með skottið á milli lappanna og við nánari skoðun á áhrifum breytinga á kjarnfóðurgjöf, var breytingin ekki að skila tilætluðum árangri. Ástæða var s.s. til að breyta aftur um kjarnfóður.


 


Eftir yfirlegu með ráðgjöfum varð líka úr að fá kjarnfóður frá fyrirtæki Y, sem kom að vörmu spori og dældi kjarnfóðri í sílóið og skildi eftir miða með upplýsingum um magn og kjarnfóðurtegund. Þessi kúabóndi bíður nú spenntur eftir áhrifum fóðurbreytinganna. Fyrsta tilfinningin er sú að nytin hafi aukist í kúnum og bíður hann nú spenntur efnamælinga.


 


Með þessari litlu sögu vildi ég vekja ykkur ágætu kúabændur til umhugsunar um hvað það skiptir miklu máli að vera á tánum varðandi fóðrun mjólkurkúa, nú sem aldrei fyrr. Ekki hika við að skipta um kjarnfóðurtegund eða fyrirtæki sem verslað er við, ef ástæða er til.


 


Annars vegar vil ég líka vekja ykkur til umhugsunar um framkomu kjarnfóðursala, sem haga sér með slíkum hætti og fyrirtæki X gerir hér í þessari sögu. Svona framkoma er með öllu ólíðandi og í hæsta máta dónaleg. Það má líkja þessu við að ég, sem sel kálfakjöt beint frá búi, træði kjöti í frystikistuna hjá ykkur og sendi ykkur svo reikninginn! Með þessari framkomu kjarnfóðursala nær kúabóndinn aldrei, eða seint, að haga sinni fóðrun með þeim hætti að hægt sé að auka efnahlutföll í mjólkinni. Enginn græðir á því í dag.


 


Það brennur mér margt á hjarta nú þessa dagana.  Vorið hefur brostið á með hraði svo maður hefur vart undan. Sumarið verður komið áður en maður festir auga á og þá fara kýrnar út á beit og leika við hvern sinn fingur. Þá ríður á að kýrnar hafi góða beit og að samfella sé í beitarskipulagi búsins. Einnig getur verið mikilvægt að kýrnar fá gott fóður inni á sumrin, þær þurfa líka tíma til að komast yfir kjarnfóðurát sitt. Eitt það allra mikilvægasta er svo aðgangur að góðu vatni á beitinni. Það getur hreinlega borgað sig að leggja vatn í beitarhólfin eða þá keyra vatn í drykkjarkör í beitarhólfunum. Um leið og kýrnar hafa ekki nægt vatn minnkar nytin og það dregur úr áti hjá þeim.
 
Undanfarnar vikur hafa minnt okkur hér á bæ hressilega á mikilvægi vatnsins. Það er mjög ónotaleg tilfinning að vera vatnslaus með 53 mjólkandi kýr, að maður tali ekki um alla aðra gripi. Gott vatn er lífsnauðsyn.


 


Nú brettum við upp ermar og gerum betur á morgun en við gerðum í gær. Það getur verið ástæða til að kosta eilítið meira til mjólkurframleiðslunnar nú um þessar mundir en við höfum gert undanfarin misseri. Hver líter telur og hvert prósent í efnahlutföllum skiptir okkur sem heild miklu máli. Við getum ekki staðið með hendur í vösum og sagst ekki nenna að gera betur!


 


Laufey Bjarnadóttir, Stakkhamri
1. varamaður í stjórn LK starfsárið 2014-2015