Beint í efni

Hinn kuldalegi apríl!

04.05.2015

Hinn kuldalegi apríl er nú á enda runninn. Vorverkin fara nú að bresta á í öllum sínum algleymingi. Þau eru samt seinna á ferðinni en mörg undanfarin vor. Menn kepptust við hér í góðærinu að sá öllu sínu byggi fyrir mánaðarmótin apríl – maí, en í dag er annað upp á teningnum, vorverkin hafa verið sett á frost í eiginlegri merkingu. Það leiðir hugann að því að ýmislegt innan rammans sem okkur er sniðinn, er líka á frosti og búið að vera þannig um langa hríð. Þolinmæði okkar bænda er fyrir löngu þrotin og krefjumst við þess að menn fari að vinna vinnuna sína. Verðlagsnefnd hefur ekki verið starfandi um langa hríð, sem þýðir að engin leiðrétting hefur orðið á verðlagningu mjólkurafurða og mun svo ekki verða fyrr en verðlagsnefnd mun verða starfhæf að nýju.


 


Verðlagsgrundvöllur hefur ekki verið uppfærður um lengi og búvörusamingar eru að renna sitt skeið og hefur enn ekki sést til vinnu þeirrar nefndar sem á að setjast niður og semja um nýjan samning. Þetta ástand er með öllu óviðunandi. Hér erum við að tala um framtíð íslensks landbúnaðar, hvert hann muni stefna og hvaða umgjörð mun gilda um okkar starfsumhverfi næstu árin. Allar ákvarðanir um fjárfestingar og framkvæmdir þessi misserin eru algerlega byggðar á óskhyggju og engu öðru, við höfum ekkert fast í hendi um hvert framtíðin muni leiða okkur. Við bændur krefjumst þess að menn fari nú þegar að setjast að borðum og móta framtíðina, þolmörk okkar eru á þrotum komin.


 


Ofan á allt dynja nú verkföll yfir sem bitna á þeim sem síst skyldi, dýrunum okkar. Með þessu er brotið á velferð dýra. Ljóst er að við bændum blasir mikið fjárhagslegt tjón sem er grafalvarlegt þar sem það bitnar hvað harðast á ungum skuldsettum bændum sem eiga að taka við framtíðinni og ógnar jafnframt lífsafkomu heillar stéttar. Skilaboð okkar eru skýr: Semjið strax!!


 


Við á Stakkhamri erum ein af þeim fjölmörgu sem fara ótroðnar slóðir í sölu á kjöti beint frá býli. Með því erum við í beinum tengslum við kaupandann, sem lætur okkur vita hvort varan stenst væntingar eða ekki. Við seljum kálfakjöt þar sem nautkálfar eru aldir upp í sex til átta mánaða aldur og markmiðið er að ná u.þ.b. 100 kg fallþunga. Þessi vara fæst nánast hvergi í verslunum hér á Íslandi, en er algeng víða erlendis. Viðtökur hafa verið framar vonum og við seljum einnig til einstaka hótela og veitingahúsa – jafnt sem einstaklinga. Víða um land stunda bændur sölu beint frá býli sem er gríðarlega mikilvæg bæði fyrir bóndann og kaupandann, þar sem tengslin verða sterkari og persónulegri en ella. Það má alls ekki líta á þessa hliðargrein hornauga, heldur hlúa að og gera sýnilegri. Litlir sem stærri bændamarkaðir hafa sprottið upp sem efla þessi tengsl og skapa okkur jákvæða ímynd.


 


Við kúaændur höfum ekki farið varhluta af aukinni ferðamennsku og breyttum neysluvenjum landans. Kallað hefur verið eftir meiri mjólk, einkum fituhlutanum, undanfarin misseri og sér ekki fyrir endann á þeirri aukningu. Ótrúlega lítill hópur bænda hefur staðið undir þeirri framleiðsluaukningu hingað til, sem ber að þakka. En stór hópur bænda á enn mikil sóknarfæri í þeim efnum. Í vetur hafa menn kvartað undan þeim kvöðum sem á þá eru settar að framleiða meiri mjólk, þar sem greiðslumark hefur verið aukið verulega.  Fjósin séu fullsetin og ekki hægt að vera með fleiri gripi. En hvað þýðir það að vera með fullsetin fjós? Er það að vera með gripi á öllum básum? Er hægt að gefa gripunum kraftmeira fóður til að skila meiri mjólk? Ein ágæt ung kona hélt góða ræðu um það efni á nýafstöðnum aðalfundi Auðhumlu, menn eigi einfaldlega að gefa meira kjarnfóður því það skili sér beint í tankinn og svo budduna. Undir það tek ég heilshugar, því að á einu ári höfum við aukið meðalnytina um u.þ.b. 800 kg á kú í fjósinu með því að gefa kraftmeira fóður. Margir bændur hafa farið út í ýmsar æfingar til þess að auka verðefnin í mjólkinni, þá sérstaklega hvað varðar fituinnihald með góðum árangri. En betur má ef duga skal og hvet ég alla mjólkurframleiðendur að líta í eigin barm eða leita sér ráðgjafar til að auka megi mjólkurframleiðsluna, því ekki mun veita af miðað við spár um aukna neyslu á mjólkurafurðum á komandi tímum.


 


Með kveðjum inn í vorið


Laufey Bjarnadóttir, varamaður í stjórn Landssambands kúabænda


Stakkhamri