Beint í efni

Nýliðun í mjólkurframleiðslu

02.05.2011

Nokkur umræða hefur verið á undanförnu um skort á nýliðun í mjólkurframleiðslunni, ásamt fullyrðingum um að ógjörningur sé fyrir nýja aðila að hasla sér völl í greininni, því jarðir til mjólkurframleiðslu séu svo óheyrilega dýrar. Þessar fullyrðingar hafa verið settar fram án  nokkurs frekari rökstuðnings. Þá hefur það verið nefnt að engu sé líkara en að forsvarsmenn LK haldi að núverandi kúabændur séu eilífir og skortur sé á framtíðarsýn samtakanna í þessum efnum. Því er til að svara að það hefur ávallt verið stefna Landssambands kúabænda að nýliðun verði best tryggð, með því að afkoma greinarinnar sé með þeim hætti að hún sé samkeppnisfær við aðrar atvinnugreinar um fólk og fjármagn. Kannski er eini raunverulegi nýliðunarvandinn nú um stundir sá að enginn vill fara út úr greininni. Einn reyndasti fasteignasali landsins í þessum efnum tjáði mér að honum væri ekki kunnugt um neitt kúabú þar sem raunverulegur söluvilji væri til staðar. Þá bendir framboð á greiðslumarki sem boðið var til sölu á kvótamarkaði þann 1.apríl sl. einnig eindregið til hins sama. Ég trúi ekki öðru en allir geti sammælst um að hver og einn eigi að vera sjálfráða um eigin búskaparlok.
 

En er endurnýjun stéttarinnar eitthvað erfiðari nú um stundir en oft áður? Ég man reyndar ekki eftir öðru en hrakspármenn hvers tíma hafa ávallt talið algerlega vonlaust fyrir efnalítið ungt fólk að hasla sér völl í mjólkurframleiðslu. Í þessum efnum hafa ýmsir starfandi  bændur á hverjum tíma verið einhverjir ötulustu úrtölumennirnir. Það kveður því við nokkuð nýjan tón að nú séu það helst talsmenn ungbænda og ráðherra málaflokksins sem slíkan hræðsluáróður stunda. Það skal þó ekki dregið úr því að það hefur aldrei verið auðvelt að hefja búskap, en staðreyndin er sem betur fer samt sú að í langflestum tilfellum hafa hlutirnir gengið upp. Þetta er og hefur ávallt verið mikið átak sem getur vel gengið upp, ef fólk er reiðubúið að leggja á sig mikla vinnu.


 


Ég held að áður en slíkar fullyrðingar eru settar fram sé rétt að skoða þessa hluti í sögulegu samhengi. Nærtækast er að líta í eigin rann, en undirritaður kom efnalítill inní greinina á vordögum 1991 og keypti þá kúabú í fullum rekstri með 105 þúsund lítra greiðslumark af óskyldum aðila uppá 24 milljónir. Enn eru í fersku minni tölur úr rekstraráætlun þeirri sem lögð var til grundvallar kaupunum, en hún gerði ráð fyrir búgreinatekjum uppá 5.250 þús. krónur þannig að kaupverð jarðarinnar var ársveltan sinnum 4,6. Á þeirri jörð bjuggum við svo í níu ár þegar ákveðið var að flytja sig aðeins til og aftur var keypt kúabú í fullum rekstri með 140 þús.lítra greiðslumark, einnig af óskyldum aðila og í þetta sinn á 53 milljónir. Ársveltan á því búi líkast til verið í kring um 11 milljónir og kaupverðið því ársveltan x 4,8. Mín tilfinning er sú, eftir að hafa fylgst með þessum markaði um árabil að í gegnum tíðina hafi þetta hlutfall oftast legið á bilinu 4-5 sinnum ársveltan fyrir þokkalega uppbyggðar jarðir. Auðvitað eru til einhverjar undantekningar frá þessu svo sem þegar góðærið stóð sem hæst, þá fór jarðarverð líkt og annað fasteignaverð í hæstu hæðir. Það er hinsvegar ekkert sem bendir til annars en það muni aftur ná fyrrgreindu jafnvægi. Þrátt fyrir að það kunni að vera einhverjum torskilið, þá er fjárfesting í mjólkurframleiðslu ekkert öðrvísi en fjárfesting í öðrum atvinnurekstri. Þeir sem fjárfesta í slíkum rekstri gera það í þeirri trú að fjárfestingin renti sig og gildir þá einu hvort viðkomandi á fjármagn til kaupanna eða þarf að byggja á lánsfé. Yfirleitt hafa hinsvegar vel uppbyggðar jarðir oftast nær selst á verði sem er langt innan við þau áþreifanlegu verðmæti sem að baki liggja.


 


Að mínu mati er einn mikilvægasti þátturinn í sambandi við nýliðun gott aðgengi að lánsfé á hagstæðum kjörum, þar er verk að vinna. Það þarf að koma fjármálafyrirtækjum í skilning um að eitthvert albesta veð sem til er í veröldinni er land og því ætti að vera hægt að lána út á land sérstaklega, á mun betri kjörum en út á margt annað. Illa ígrundaðar stjórnvaldsákvarðanir um breytingar á starfsumhverfi sem og á þeim lagaramma sem um starfsemi af þessu tagi gilda geta því haft mjög neikvæð áhrif á nýliðun greinarinnar. Það verður til að mynda ekki betur séð en ef þau frumvarpsdrög um breytingar á jarða- og ábúðalögum sem kynnt voru nýlega ná fram að ganga þá muni þrengjast mjög um lánamöguleika með ófyrirsjánlegum áhrifum á nýliðun og uppbyggingu á allri atvinnustarfsemi í sveitum landsins. Þess utan eru þessar fyrirhuguðu lagabreytingar einhver ótrúlegasta aðför síðari tíma að eignum og eignarétti til sveita en verða ekki gerð frekari skil að þessu sinni.
                                          


Jóhann Nikulásson, Stóru Hildisey 2 
Stjórnarmaður í LK