Beint í efni

“Betri bústjórn” er öflugt verkfæri

23.04.2012

Nú eru vorverk hafin víðast hvar. Jarðvinnsla, áburðardreifing, sauðburður framundan. Eitthvað sem er kærkomið eftir veturinn og þótt vinnudagar séu á þessum tíma oft langir þá finnst manni að búskapurinn nái nýjum hæðum. Gleðin yfir þúfóttu óræktarstykki sem komið er í rækt er oft mikil. Gleðin þegar gamla, óslétta mannskaðatúnið, sem hefur í gegnum árin gert manni lífið leitt í heyskap, er orðið rennisléttur akur. Ökuhraðinn við slátt fer úr 5 í 15 – munnvik sláttumanns færast upp um tommu og heyfengur og gæði batna. Hagkvæmni mjólkur- og kjötframleiðslu eykst og pyngjan þyngist. Þetta er kannski mikil einföldun en engu að síður einn af þeim þáttum sem vissulega getur skilað bóndanum auknum tekjum þegar fram í sækir – grunnur að betri búskaparháttum. Á gæðum gróffóðursins sem skepnunum er gefið ákvarðast að nokkru leiti nettólaun bóndans. Gæði fóðurs og fjölbreytni hefur mikið að segja um hversu mikið gripurinn nær að innbyrða sem aftur skilar sér í meiri nyt (eða sömu nyt en minni kjarnfóðurgjöf), hærra efnainnihaldi í mjólk og meiri vaxtarhraða hjá gripum í kjötframleiðslu. Það er umhugsunarefni að það eitt að ná að hækka próteininnihald mjólkurinnar um 0,2 prósentustig (t.d. úr 3,2% í 3,4%) þýðir tekjuauka uppá 700.000 kr á ári miðað við 200.000 l framleiðslu. Hér skiptir að sjálfsögðu máli að velja naut sem hafa háa einkunn fyrir prótein á þær kýr sem standa sig ver hvað þennan eiginleika varðar.


 


Margir aðrir þættir skipta eðlilega máli og því er okkur öllum hollt að greina veikar og sterkar hliðar í rekstrinum hjá okkur. Er kjarnfóðurgjöf óhófleg miðað við ársnyt? Erum við full gjafmild við dýralækninn? Eru hestöflin óþarflega mörg? Er mögulegt að spara með kaupum á verktakaþjónustu? Getum við samnýtt dýr tæki sem notuð eru stuttan tíma á ári? Þurfum við að huga að endurnýjun tækja vegna viðgerðarkostnaðar þeirra gömlu? Er gæðum gróffóðurs ábótavant? Má draga úr áburðarnotkun á uppskeruminni tún? Hvað með tryggingar? Vaxtakostnað? Kvótakaup?


 


Eins og við öll vitum hefur gengið treglega að ná fram leiðréttingu á mjólkurverði til okkar bænda og má leiða að því líkur að svo verði enn um sinn miðað við ástandið í þjóðfélaginu. Því er mikilvægara en ella að taka reksturinn í naflaskoðun.  


 


Verkefnið Betri bústjórn (byggt á samvinnu Búnaðarsambanda, LK og BÍ) ætti að nýtast vel í slíka skoðun en það verður öflugt tæki til að greina allar hliðar búrekstrar hjá hverjum og einum í samanburði við aðra bændur í landinu. Þá sér maður hvar vel er gert og hugsanlega hvað betur mætti fara. Ég hef miklar væntingar af þessu verkefni og hvet alla bændur til að senda gögn sín inn í gagnagrunninn. Þátttaka okkar hefur allt að segja um hversu öflugt rekstrarstjórntæki verkefnið getur orðið, okkur öllum til hagsbóta. Tækifærin bíða okkar að gera betur í dag en í gær. Svo lengi sem íslenskar sveitir verða ekki aumingjavæddar við ESB jötuna.


 


Með kveðju úr Svarfaðardalnum


Trausti Þórisson Hofsá