Breytt skipting beingreiðslna hvetur til framleiðsluaukningar
19.04.2014
Á nýliðnum aðalfundi Landssambands kúabænda var samþykkt tillaga um breytingar á skiptingu beingreiðsla í mjólkurframleiðslu. Ástæða breytinganna er sú mikla söluaukning sem orðið hefur á mjólkurafurðum á undanförnum misserum og ekki sér fyrir endann á. Við þær aðstæður er afar mikilvægt að útdeiling beingreiðslnanna feli í sér eins mikinn hvata til aukinnar framleiðslu og kostur er. Einnig er afar mikilvægt að draga úr árstíðasveiflum mjólkurframleiðslunnar. Tillagan kemur til framkvæmda árið 2015, þannig að nokkur svigrúm er til að bregðast við breytingunum, en aðalfundur LK lagði einnig áherslu á að breytingar á framleiðsluumhverfinu væru gerðar með góðum fyrirvara. Auk tillögu um breytingu á skiptingunni, lagði fundurinn til að leggja þyrfti inn árið 2015 sem nemur 100% af greiðslumarki, til að fá fullar A-greiðslur. Á yfirstandandi ári er þetta hlutfall 95% og var 90% árið 2013.
Þær breytingar sem lagðar eru til felast í því að innbyrðis skipting beingreiðslannna í A, B og C-hluta tekur talsverðum breytingum. Til þessa hafa 47,67% beingreiðslnanna farið í A-hluta, 35,45% í B-hluta og 16,88% í C-hluta. Eftir breytinguna verður skiptingin þannig að í A-hluta fara 40%, í B-hluta 35% og C-hluta 25%. Rétt er að rifja upp hvernig einstökum hlutum er útdeilt: A-hluti greiðist í jöfnum hlutum, 1/12 þann 1. hvers mánaðar, að því gefnu að innvigtun viðkomandi greiðslumarkshafa verði 100% af greiðslumarkinu á verðlagsárinu 2015. B-hlutann skal greiða greiðslumarkshöfum eftir framleiðslu allt að greiðslumarki hvers framleiðanda. Greiða skal 1. hvers mánaðar fyrir innlegg næstsíðasta mánaðar, í fyrsta sinn 1. mars 2015. C-hlutanum skal ráðstafa til greiðslumarkshafa, vegna framleiðslu innan greiðslumarks í mánuðunum júní-desember 2015. Innbyrðis skipting C-greiðslnanna er þannig að 15% af þeim greiðast á framleiðslu mánaðanna júní til og með nóvember og þau 10% sem þá standa útaf eru greidd á framleiðslu desembermánaðar.
Sérstök ástæða er til að taka fram, að í tilfelli C-greiðslnanna er greiðslumarki hvers framleiðanda deilt út á þá mánuði sem greiðslurnar taka til, á árinu 2014 eru það júlí-desember en á næsta ári, 2015, verða þetta mánuðirnir júní-desember. Ástæða þess að júní er tekinn inn, er að þá byrjar innvigtunin að dragast saman, mikilvægt er að skapa aukinn hvata til að halda uppi framleiðslu sumarmánuðanna.
Auðveldast er að útskýra eðli C-greiðslnanna með dæmum um hvernig þær myndu ganga fyrir sig á árinu 2015. Bóndi A er með 240.000 lítra greiðslumark og leggur inn nákvæmlega sem nemur greiðslumarkinu. Þar að auki dreifist framleiðsla hans jafnt yfir árið, nemur 20.000 lítrum á mánuði. Á C-greiðslutímabilinu júní-desember er innvigtunin því 140.000 lítrar. Þar sem greiðslumark hans er 240.000 lítrar, sem deilist á framangreint tímabil allt, fær hann C-greiðslur á alla innvegna mjólk þar sem hún er minni en sem nemur greiðslumarki þessa framleiðanda.
Bóndi B er með einnig með 240.000 lítra greiðslumark en leggur inn 340.000 lítra á verðlagsárinu, 100.000 lítra umfram greiðslumarkið. Dreifing framleiðslunnar er þannig að í janúar til maí er hún 20.000 lítrar á mánuði, en tæplega 35.000 lítrar á mánuði það sem eftir lifir árs. Á C-greiðslu tímabilinu leggur hann inn slétta 240.000 lítra og fær C-greiðslur á alla innvegna mjólk, þar sem framleiðslan á tímabilinu er jöfn greiðslumarki búsins. Engu skiptir í þessu samhengi þó heildarframleiðslan á verðlagsárinu sé langt umfram greiðslumarkið. Hefði framleiðsla þessa greiðslumarkshafa verið meiri en þetta á C-greiðslutímabilinu, t.d. 250.000 lítrar, hefðu ekki verið greiddar C-greiðslur á síðustu 10.000 lítrana.
Framangreind dæmi eru ekki nýlunda í sjálfu sér, virkni C-greiðslnanna hefur verið með þessum hætti um langt skeið. Það sem skiptir mestu máli núna er að hlutdeild þeirra er að aukast á kostnað A-hlutans, það er því eftir meiru að slægjast með því að framleiða sem mest á þeim tíma sem þær eru greiddar. Til að setja þetta enn frekar í samhengi má benda á að A-hlutinn er á þessu ári tæp 21 kr/ltr en fer niður í um 17 kr/ltr. Mismunurinn bætist við C-hlutann. Á næsta ári má búast við að C-greiðslurnar verði um 20 kr/ltr í júní-nóvember en um 12 kr/ltr í desember.
Mjólkuriðnaðurinn hefur gefið út að greitt verður fullt afurðastöðvaverð fyrir alla innvegna mjólk út árið 2015, eða gildandi lágmarksverð mjólkur eins og það er ákveðið á hverjum tíma. Í dag er það 82,92 kr/ltr. Þorri framleiðenda fær C-greiðslur á alla innvegna mjólk, eins og getið var um í dæminu hér að framan. Það þýðir í reynd að verðið fyrir síðasta líterinn verður að lágmarki um 100 kr/ltr á þessu ári og því næsta. Í þeirri staðreynd felast umtalsverð tækifæri fyrir dugmikla og útsjónarsama kúabændur./BHB