Beint í efni

Hagræðing í mjólkuriðnaði hefur skilað sér til bænda og neytenda

18.04.2011

Nú þegar vorið nálgast eftir svellalagðan vetur hér Norðanlands, þá hafa fyrirtæki okkar bænda og hagsmunafélög flest lokið aðalfundum og birt sínar ársskýrslur sem varða rekstur þeirra og framtíðarmarkmið.
 Það er ánægjuefni að fyrirtæki á borð við MS, sem er stærsti viðskiptaaðili okkar bænda í mjólkurvinnslu, skuli sýna verulegan viðsnúning í rekstri sínum á liðnu ári. Skilar félagið hagnaði í stað taprekstrar sem verið hefur viðvarandi undanfarin ár. Það er því full þörf á að þakka stjórn og stjórnendum þessa fyrirtækis góðan árangur sem auðvitað hefði ekki náðst nema með mikilli hagræðingarvinnu og aðhaldi í rekstri. Þessi árangur, við að ná fram settum markmiðum í að lækka kostnað við framleiðsluna, næst þó aldrei fram nema með einhverjum fórnum í störfum og þegar lengra er litið aftur, verulegri fækkun afurðastöðva vítt um land sem raskað hefur atvinnulífi á þeim stöðum þar sem þær hafa verið aflagðar.
Þetta hefur þó allt miðað að því að skila sem hæstu verði til okkar bænda og lágmarka verð til neytenda. 

Eitt atriði vil ég nefna sem að skiptir miklu máli við að sameina mjólkurvinnsluna, að í dag njóta allir bændur, hvar á landinu sem þeir búa, sömu kjara hvað varðar flutningskostnað á mjólk í afurðastöð hjá MS. Flutningskostnaður á mjólk í afurðastöð var orðinn mjög íþyngjandi kostnaður hjá hinum minni afurðastöðvum með mjög dreifða framleiðslu.
En mjólkurvinnslan er viðkvæm og allt  þetta byggist á því að sala á mjólkurvörum haldist og ytra umhverfi hennar breytist ekki til muna.
Í því sambandi er mjög brýnt að tryggt verði úrræði í búvörulögum til að ákvæði laganna um bann við markaðssetningu mjólkur utan greiðslumarks á innanlandsmarkaði haldi, enda er það forsenda þess að hægt sé að tryggja lögboðið lágmarksverð til bænda. Þetta mál strandaði í þinginu á liðnu sumri og enginn hefur treyst sér til að taka upp að nýju og koma því áfram.
Á aðalfundi LK sem haldinn var á dögunum var mikil vinna lögð í að fara yfir drög að stefnumótun fyrir nautgriparækt til framtíðar í landinu, sem unnin var af nefnd skipaðri af fulltrúum frá Auðhumlu og LK . Þessi nefnd hafði það m.a. að markmiði í sinni vinnu, að ná fram hagkvæmari framleiðslu með lækkun á framleiðslukostnaði og betri rekstri á búunum.
Ég tel  að þetta sé ekki eitthvert marklaust plagg sem menn vinna og sé síðan geymt í möppu upp í hillu, heldur eigi menn að geta nýtt sér ýmisleg úr þessum gögnum til að bæta sinn rekstur, því við þessa vinnu hefur m.a komið í ljós að mikið skilur á milli hvernig menn höndla það. En það kemur þó að því sama eins og með vinnsluna, að ytra umhverfi greinarinnar verður að vera stöðugt svo menn hafi trú á því sem þeir eru að gera.
Eitt er það sem veikir þessa trú manna á að hér verði mjólkurframleiðsla áfram með svipuðu sniði, eru aðildarviðræðurnar við ESB sem löngu er orðið tímabært að slíta svo menn geti farið  að vinna á eigin forsendum til framtíðar.
Eins og ég sagði í upphafi þessa pistils þá er vorið að koma, það finnst mér alltaf einhver besti tími í mínu starfi sem bóndi. Endilega njótum vorsins hvað sem öllu öðru líður.
                                              
                                                 Sveinbjörn Þór Sigurðsson
                                                 Stjórnarmaður í LK