Beint í efni

Í minningu kvótakerfis

14.04.2015

Um síðustu mánaðamót var kvótakerfi mjólkurframleiðslunnar í ríkjum Evrópusambandsins lagt af. Kvótakerfið hafði verið við lýði síðan 1. apríl 1984 eða í 31 ár. Því var upphaflega komið á til að stemma stigu við offramleiðslu og koma í veg fyrir hrun á afurðaverði til bænda. Birgðir mjólkurafurða voru einnig gríðarlegar á þessum tíma; smjörfjallið var 1,2 milljónir tonna og birgðir undanrennudufts voru um milljón tonn, þrátt fyrir að útflutningsbætur væru umtalsverðar á þessum tíma. Fyrstu tvo áratugina sem kvótakerfið var við lýði var afurðaverðið tiltölulega stöðugt, lengst af þessa tímabils var t.d. heimsmarkaðsverð á undanrennudufti og smjöri 1.500 til 2.000 dollarar tonnið. Verðsveiflur voru tiltölulega hóflegar, amk. í samanburði við það sem síðar varð. Síðla árs 2006 tók heimsmarkaðsverðið að hækka hratt og náði t.d. verð á undanrennudufti hámarki  í júlí 2007, þegar það komst í 5.100 dali á tonnið. Á þessum tíma voru nýmarkaðsríki í SA-Asíu farin að gera sig æ meira gildandi á þessum markaði, en áhrif spákaupmanna voru einnig veruleg. Síðan þá hefur heimsmarkaðsverðið á helstu mjólkurafurðum sem ganga kaupum og sölum á heimsmarkaði; undanrennudufti og smjöri, sveiflast mjög mikið, þrátt fyrir að kvótakerfi hafi verið til staðar í Evrópu. Helsta breytingin er sú að verðið er að jafnaði um 50% hærra en áður var, 3.000 dollarar tonnið í stað 2.000 áður. Flest bendir til þess að svo verði áfram, enda snýst umræðan á meginlandi Evrópu talsvert um það, hvernig dempa megi verðsveiflurnar, sem séu meiri en greinin geti þolað til lengri tíma.


 

 


Ákvörðunin um að leggja kvótakerfi mjólkurframleiðslunnar af, átti sér talsvert langan aðdraganda. Í kringum aldamótin síðustu var rætt um að kvótakerfið yrði lagt af árið 2008. Af því varð þó ekki, en árið 2009 var tekin ákvörðun um að auka kvóta aðildarríkja um 1% ár hvert, frá 2009 til 2013, til að tryggja „mjúka lendingu“ við afnám kvótans 1. apríl 2015. Sitt sýnist hverjum um hvernig til hefur tekist í þeim efnum.


 


En hvernig virkaði kvótakerfið í Evrópu? Landskvóti hvers aðildarríkis, sem byggði á framleiðslu mjólkurfitu á tilteknu tímabili, skiptist í tvennt; kvóti til innleggs í afurðastöð, en tæp 98% af heildarkvótanum í ESB var á því formi, og kvóti til vinnslu og sölu heima á búunum sjálfum. Á því formi var rúmlega 2% af mjólkurkvótanum. Afar misjafnt var milli aðildarríkjanna hversu hátt hlutfall þessi „heimavinnslukvóti“ var. Í Rúmeníu var hann t.a.m. talsvert meiri en kvóti til innleggs í afurðastöð.


 


Færi svo að mjólkurframleiðslan í einstöku aðildarríki færi umfram landskvótann, greiddu bændur sekt upp á 27,83 evrusent pr. kg mjólkur, í hlutfalli við hlutdeild sína í umframframleiðslu landsins. Miðað við núverandi gengi eru það tæpar 40 kr/kg mjólkur. Lengst af þýddi þetta í raun að bændur fengu ekkert greitt fyrir umframframleiðsluna og í mörgum tilfellum dugði afurðaverðið ekki fyrir sektagreiðslunni.


 


Þrátt fyrir að landskvóti aðildarríkjanna byggði á framleiðslu á tilteknu tímabili, bitnaði kvótakerfið afar misjafnlega á framleiðslu einstakra ríkja. Undanfarin ár hafa það yfirleitt verið sömu löndin ár eftir ár, þar sem framleiðslan er meiri en sem nemur landskvótanum og hafa því þurft að inna sektargreiðslur af hendi; Holland, Írland, Pólland og Danmörk, allt öflug mjólkurframleiðslulönd. Á hinum endanum eru lönd á borð við Búlgaríu og Rúmeníu, þar sem framleiðslan var um og innan við helmingur af landskvótanum. Þá hefur framleiðslan gefið mjög eftir í Svíþjóð, Finnlandi og Bretlandi, en framleiðsla þessara landa hefur verið 10-20% undir kvótanum undanfarin ár.


 


Enn er þó ótalinn hinn mikli kostnaður sem kvótakerfið hefur leitt af sér. Samtök þýskra kúabænda fögnuðu þessum tímamótum og áætluðu að kostnaður umbjóðenda þeirra af kvótakerfinu hafi numið heilum 15 milljörðum evra á líftíma þess; sektargreiðslur, kvótakaup og kvótaleiga. Það jafngildir landsframleiðslu Íslands í rúmlega eitt ár. Danskur bóndi dró fánann að húni í tilefni tímamótanna og velti um leið fyrir sér hvort þær 10 milljónir danskra króna (200 milljónir íslenskra króna) sem hann hafði varið til kvótakaupa, hefðu betur verið notaðar í annað. Kvótakerfi fylgir víðast mjög umfangsmikil stjórnsýsla sem nú leggst af. Dæmi um það er danska „Mælkeudvalget“, mjólkurnefndin. Verkefni hennar falla brott og starfsmennirnir snúa sér að öðrum verkefnum. Margir eru einnig þeirrar skoðunar að kvótakerfið hafi átt stóran hlut að máli við að draga úr samkeppnishæfni mjólkurframleiðslunnar á meginlandi Evrópu undanfarin ár.


 


En hvað tekur við? Samtök Evrópskra mjólkurframleiðenda, European Milk Board, minntust tímamótanna með því að halda bálför kvótakerfisins í Brussel um síðustu mánaðamót. Breskir kúabændur, sem búið hafa við lágt afurðaverð um árabil, óttast að niðurlagning kvótakerfisins sé ávísun á áframhald þar á. Sama gildir með sænska kúabændur. Bölmóðurinn ríkir hins vegar ekki alls staðar. Metnaðarfyllstu framtíðaráformin hljóta að vera á Írlandi, en hugur þarlendra stendur til að auka mjólkurframleiðsluna um 50% frá 2007-9 og fram til ársins 2020. Gert er ráð fyrir að nautgripum í mjólkurframleiðslu fjölgi um 300.000 og sést þeirri fjölgun nú þegar staður. Þá hafa stjórnvöld beitt sér fyrir ýmsum skattalegum aðgerðum sem snúa að viðskiptum með land, sem og kynslóðaskiptum með bújarðir, til að ýta undir framleiðsluaukningu. Þá er mjólkuriðnaðurinn og fjármálastofnanir að þróa stýritæki til áhættustjórnunar, sem koma eiga að gagni við að takast á við sveiflur í verði afurða og aðfanga.  


 


Mesta bjartsýnin meðal mjólkurframleiðenda virðist því vera í fyrrnefndum „offramleiðslulöndum“. Jafnframt er ljóst að bændur þar gera sér grein fyrir að nýtt framleiðsluumhverfi verður ekki án áskoranna. Þróunin í átt að mun stærri búum mun einnig halda áfram af vaxandi þunga. Hvernig bændum á meginlandi Evrópu tekst að fóta sig í nýju framleiðsluumhverfi verður tíminn að leiða í ljós./BHB