Beint í efni

Krefjandi verkefni framundan

09.04.2016

Kæru félagar


Að ýmsu er að hyggja svona í upphafi starfsárs, sérstaklega þar sem allir stjórnarmeðlimir eru nýjir og þurfa að setja sig inn í hlutina og finna sér verklag sem hentar. Hvað mín störf varðar þá hef ég varið fyrstu vikunni í að setja mig inn í hlutina og fundað með ýmsum aðilum til dæmis bæði með fulltrúum BÍ og MS. Í gildi er verkaskiptasamningur milli LK og BÍ, þar sem tekið er á því með hvaða hætti samskiptum þessara aðila skuli háttað. Alls staðar mæti ég miklum velvilja og það er greinilegt að þeir aðilar sem ég hef hitt og rætt við eru allir með sama markmiðið þ.e. að leggja sig alla fram um að vinna íslenskum landbúnaði allt það gagn sem þeim er unnt. Ég kvíði ekki samskiptum og samvinnu við slíka aðila.


 


Ég hef verið nokkuð hugsi yfir þeirri uppákomu sem við urðum vitni að í Smáralindinni á laugardaginn síðastliðinn. Þar sem lögregla var kölluð út vegna meints dýraníðs sem átti að hafa átt sér stað á okkar (LK) vegum þ.e. að kálfum og kúm sem þar voru á okkar vegum hafi liðið illa og ekki búið við viðundandi aðstæður. Maður verður eiginlega bara orðlaus þegar svona kemur upp, en þetta er engu að síður einhverskonar raunveruleiki sem við búum við og sennilega á þetta bara eftir að ganga lengra. Eina svarið við svona löguðu er að mínu viti fræðsla og aftur fræðsla. Við þurfum að grípa þennan bolta og setja aukinn kraft í að upplýsa fólk um það hvað við erum að gera dagsdaglega í vinnunni okkar.


 


Framundan er mikið verk við að fylgja nýju samningunum okkar stuttann en grýttann spöl í gegnum þingið. Margir aðilar á þeim vettvangi hafa tjáð sig um samninginn og gefið það í skyn í sínum málflutningi að þeir hyggist koma í veg fyrir að málin verði til lykta leidd. Í mínum huga er málið tiltölulega einfalt, ríkið var með sína samninganefnd við þetta borð og við verðum að gera ráð fyrir, þrátt fyrir mikinn glundroða á þingi síðustu daga, að þessi nefnd hafi ekki verið umboðslaus og að þess vegna sé góður meirihluti á þingi fyrir samningunum. Það eru þó alltaf til einhverjir sem eru til í að hoppa um borð í alla óánægjuvagna sem líða hjá, alveg sama hvert málefnið er. Okkar hlutverk hjá LK í þessari vinnu, er að halda fólki upplýstu og svara þeim fyrirspurnum sem til okkar verður beint.


 


Þegar samningurinn, og bandormurinn sem honum fylgir, eru afgreiddir á þingi fer á fullt vinna við útfærslur einstaka þátta samningsins t.d. mótun verklagsreglna fyrir nýliðunarstyrki, framleiðlsujafnvægi, framkvæmdastyrki o.fl. Þá eru einnig óútfærð stór atriði eins og tilhögun verðlagningamála og tilhögun kvótamarkaðar eftir næstu áramót svo eitthvað sé nefnt.


 


Þegar þessi orð eru rituð hefur ný stjórn ekki komið saman, en áætlað er að halda fyrsta fund hennar miðvikudaginn 20. apríl n.k. Það eru næg verkefni framundan og mörg þeirra eru krefjandi en það er áskorun að takast á við slíkt. Íslenskir bændur hafa hingað til ekki skorast undan þeim verkefnum sem fyrir þá eru lögð, en við vitum líka að þegar verkefnin eru stór þá söfnum við liði á bæjunum, já þetta ætlum við öll að gera saman.


 


Hranastöðum í apríl 2016


Arnar Árnason, formaður LK


 


/SS