Beint í efni

Nýjar áherslur í ræktunarstarfinu

04.04.2011

Aðalfundur Landssambands kúabænda var haldinn á Akureyri nú í lok mars. Þar voru samþykktar margar ályktanir, sem allar má finna á vef LK, naut.is, jafnframt sem þeim verða gerð skil í Bændablaðinu. Ég hvet bændur og aðra áhugamenn um nautgriparækt að kynna sér þær. Miklar umræður sköpuðust í vinnuhópum, sem fóru yfir tillögurnar sem fyrir fundinum lágu. Jafnframt því að fundurinn fjallaði um tillögur að ályktunum, lágu fyrir honum drög að stefnumörkun, sem unnið hefur verið að frá síðasta aðalfundi. Um þær sköpuðust einnig miklar umræður og mótuðust markmið og leiðir stefnumörkunarinnar enn frekar á fundinum. Var þeim vísað til stjórnar til áframhaldandi vinnslu.
Í umræðum, bæði í vinnuhópum og ræðustól, vitna fulltrúarnir oft í bú sín og rekstur, til að leggja áherslu á orð sín. Sérstaklega tók ég eftir því núna hve margir ræddu um ræktunarstarf. Einnig koma af og til upp umræður á Kýrhausnum um ræktunarstarfið. Eðlilega er það bændum hugleikið að kýrin, sem er grunnforsenda mjólkurframleiðslunnar, sé þannig úr garði gerð að hún geti framleitt sem mestar og bestar afurðir á sem hagkvæmastan og heilbrigðastan hátt. Til að svo verði þarf ræktunarstarfið að vera öflugt. Bændur þurfa að velja naut á bestu kýrnar sýnar, Nautastöðin þarf að fá öfluga kálfa á stöðina og sem flestir þeirra þurfa að fá góðan dóm. En því miður er þetta ekki alveg svo einfalt. Nautin sem koma á Nautastöðina eru of mörg með einhverja galla, sem við getum ekki sætt okkur við. Til þess að koma í veg fyrir skyldleikarækt og hafa nokkurt úrval af nautum fá sum naut heimild til áframhaldandi notkunar þrátt fyrir einhverja galla. Það er því bændanna að para saman kýr og naut á þann veg að sem líklegast sé að vænlegur gripur verði til. Heimanautanotkun þurfum við algjörlega að lágmarka, þær kýr sem eru undan heimanautum hjálpa okkur lítið í ræktunarstarfinu. Ein af stefnumörkunartillögunum er að meta hvort til greina komi að taka upp blendingsrækt í íslenska kúastofninum, hverjir kostir þess og gallar séu. Verði sú tillaga í endanlegri stefnumörkun, er spennandi að sjá hvaða áhrif blendingsrækt getur haft á íslenska kúakynið.

Fagráð í nautgriparækt er nú um stundir að velta fyrir sér forgangsröðun verkefna í kynbótarækt. Hefur þar sérstaklega verið rætt um frjósemi, mjaltir og mat á afurðaeiginleikum. Mjög víða í fjósum eru tölvutengd mjaltakerfi þar sem skráðar eru ýmsar upplýsingar um hverja kú. Þær upplýsingar þarf að nota í kynbótamatinu, t.d. upplýsingar um mjaltahraða. Jafnframt heldur sæðingakerfið saman ýmsum upplýsingum sem vert væri að nota við kynbótamatið. Í umræðum um kynbótastarfið skapast eðlilega miklar umræður um skapeiginleikann. Hann er erfiður í mati, þar sem skoðun bænda á því hvernig kýr eiga að vera skapi farnar eru misjafnar eftir því hvernig fjósgerðin er, já og eftir því hvernig bóndinn er sjálfur. Fást þarf niðurstaða í það hvernig best er að meta skapið.
Fljótlega nú á vordögum mun Fagráðið funda ítarlega um kynbótamatið og meta niðurstöður þeirra nauta sem eru að koma úr afkvæmaprófun. Upp hefur komið sú hugmynd að halda í haust bændafund um kynbætur mjólkurkúa. Nauðsynlegt er að Fagráðið og landsráðunautar í nautgriparækt heyri beint frá bændum þeirra skoðanir á kynbótastarfinu og þeirri stefnu sem þar er verið að framfylgja.


 


Guðný Helga Björnsdóttir
stjórnarmaður í Landssambandi kúabænda og
formaður Fagráðs í nautgriparækt