Beint í efni

Við áramót

01.01.2014

Segja má að ný liðið ár hafi verið um margt sviptingasamt í íslenskri nautgriparækt og tíðarfarið rysjótt. Árið heilsaði með óvenjulegum hlýindum, en annars var hiti ársins nálægt meðaltali. Mikill og þrálátur snjór var víða til ama um landið norðanvert og óvenju snarpt kuldakast gerði um mánaðamótin apríl/maí, með meira frosti en áður hefur mælst hér á landi í maímánuði. Sumarið var fremur óhagstætt um landið sunnan- og vestanvert, með þungbúnu veðri og þrálátri úrkomu, en hagstæðari tíð var á landinu norðaustanverðu. Það haustaði síðan snemma og tíð víða óhagstæð. Mikið kal var víða í túnum bænda, einkum á norður og austurlandi, síðastliðið vor og þurfti mikið átak í endurræktun á þeim svæðum. Þá var heyskapartíð víða erfið og heyforði margra því rýrara að magni og gæðum en oft áður. Eins var kornuppskera með allra minnsta móti. 
 
Framleiðsla mjólkur gekk samkvæmt áætlunum fyrrihluta ársins og var unnið að birgðastýringu út frá því. Um mitt ár fór síðan framleiðslan að dragast verulega saman og hélst sú þróun langt fram á haust. Í sumarlok var ljóst að í óefni stefndi að óbreyttu og í kjölfar þess var lofað fullri greiðslu fyrir 3 milljónir lítra umfram greiðslumark og síðar fyrir alla umframmjólk ársins. Þetta dugði þó ekki til og því miður reyndist nauðsynlegt að flytja inn smjör svo unnt yrði að tryggja nægt framboð allra mjólkurvara á markaði. Framleiðslan hefur hinsvegar tekið kipp nú í lok árs og stefnir í að innlögð mjólk verði 122 – 123 milljónir lítra í árslok.
 
Í lok nóvember s.l. var sala mjólkurafurða á próteingrunni komin í 117,3 milljónir lítra samanborið við 115,9 milljónir á sama tíma í fyrra. Hinsvegar jókst sala á fitugrunni úr 114,5 milljónum í 119,3 milljónir lítra þetta sama tímabil. Viðvarandi vöxtur hefur verið í sölu próteinríkra mjólkurvara síðustu áratugi. Öðru máli gengdi lengi vel um fituhlutann þar sem samdráttur var viðvarandi, en á því varð all snörp breyting fyrir um áratug og hefur vöxtur í sölu fitunar á markaði verið tvöfalt meira en próteinsins síðan þá. Söluspár gerðu ráð fyrir svipaðri þróun þegar greiðslumark nýliðins árs var ákveðið 116 milljónir lítra. Undanfarna mánuði hefur hinsvegar sala mjólkurafurða, einkum á fitugrunni, verið án fordæma. Spá SAM um söluþróun mjólkurafurða sem gerð var í september sl. og var grundvöllur að tillögu um greiðslumark mjólkur árið 2014, gerði ráð fyrir sölu á fitugrunni upp á 123 milljónir lítra. Þegar söluspáin var endurskoðuð nú í byrjun desember var orðið ljóst að fyrrri ákvörðun dygði ekki til að mæta þeirri söluaukningu sem varð á haustmánuðum og slakari birgðastöðu en venja er til. Í ljósi þess var ákvörðun um greiðslumark ársins 2014 endurskoðuð og ákveðin 125 milljónir lítra mjólkur, sem þá er 9 milljón lítra aukning frá liðnu ári. Því til viðbótar hafa afurðastöðvarnar gefið út að fullt verð verði greitt fyrir alla innlagða mjólk næsta ár. Jafnframt þessu er framleiðsluskylda til að halda fullum A-greiðslum hækkuð í 95%. Þá er stefnt að breytingum á verðhlutföllum fitu og próteins í lágmarksverði mjólkur til bænda nú um áramót, þannig að báðir þættir vegi 50%. Þetta er talsverð breyting frá því sem áður var en hingað til hefur vægi próteinsins verið 75% og fitunnar 25%. Þessum aðgerðum er ætlað að ýta undir aukna framleiðslu mjólkur í takt við söluþróun á markaði.
 
Á haustfundum LK nú í október var farið yfir langtíma áætlanir um sölu mjólkurvara hérlendis. Þar kom m.a. fram að ef tiltölulega hófstillt spá um sölu á fitugrunni næstu átta árin gengur eftir, þurfi mjólkurframleiðslan að vera komin í um 135 milljónir lítra árið 2021. Grundvöllur þessa er mannfjöldaspá Hagstofunnar, en samkvæmt henni verða landsmenn orðnir um 345.000 talsins og fjöldi ferðamanna 1,5 til 2 milljónir árlega. Þá eru ótaldir möguleikar til útflutnings. Markaðir í Finnlandi hafa tekið afar vel við íslensku skyri og er þegar fullnýttur 380 tonna tollkvóti okkar þangað. Nýlega hefur svo verið gengið frá samningum við Sviss um ótakmarkaðan útflutninga á skyri, þangað gegn takmörkuðum innflutningi á ostum.
 
Talsverð viðskipti urðu á síðasta kvótamarkaði þann 1. nóvember s.l. en alls urðu viðskipti með 874.438 lítra. Gild tilboð um kaup eða sölu voru 42, greiðslumark sem boðið var fram var  1.034.438 lítrar og óskað var eftir  1.067.714 lítrum til kaups. Jafnvægisverðið á þessum markaði var það sama og þeim síðasta eða 320 kr. fyrir hvern lítra mjólkur. Óneitanlega vekur nokkra athygli að verðið skuli ekki lækka við aðstæður sem þessar, þegar svo mikill vöxtur er á mjólkurvörumarkaði. Í þessu efni tekur þó hver og einn sína ákvörðun og verður að bera ábyrgð á henni. Mikið hefur verið rætt um að auka þurfi sveigjanleika í kvótaviðskiptum og nú í haust varð að samkomulagi milli Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis og LK að fjölga markaðsdögum í 3.
 
Framleiðsla nautakjöts síðustu 12 mánuði, í lok nóvember, var um 4.088 tonn, en það er samdráttur um 2,1% frá fyrra ári. Samdrátturinn síðasta mánuð er þó mun meiri á öllum flokkum kjöts bæði kúm og nautum eða 16–20%. Fyrstu sjö mánuði liðins árs var innflutningur nautgripakjöts svipaður og á sama tíma í fyrra. Fyrirsjáanlegt er að hann muni aukast með með minnkandi framboði hér heima, þá hefur dregið úr ásetningi nautkálfa. Nú á haustdögum gáfu stjórnvöld út reglugerð 877/2013, um úthlutun á opnum tollkvótum vegna innflutnings á hakkefni úr nautgripakjöti. Hliðstæðar reglugerðir hafa verið gefnar út undanfarin ár. Ljóst er að við svo búið má ekki standa, það er lífsspursmál að skjóta styrkari fótum undir þessa framleiðslugrein. Það var niðurstaða starfshóps um eflingu nautakjötsframleiðslunnar, sem skilaði skýrslu til ráðherra landbúnaðarmála þann 3. júlí sl., að þegar skyldi hafist handa um að skapa aðstöðu til þess að flytja inn nýtt erfðaefni til innblöndunar í íslenska holdanautastofninn. Jafnframt yrði skoðað sérstaklega hvort unnt væri að leyfa innflutning sæðis beint til einstakra bænda. Mikilvægt er að fá sem fyrst svör við því hvaða leið skuli fara í þessu efni. Sérstaklega þarf að hraða gerð áhættumats á beinum innflutningi sæðis frá viðurkendri einangrunarstöð. Staða þess máls er sú að MAST hefur verið falin gerð áhættumats annars vegar á beinum innflutningi sæðis og fósturvísa á almenn bú, og hins vegar á innflutningi sæðis og fósturvísa í einangrunarstöð. Vinna við það hefur hins vegar dregist lengur en upphaflega var ráðgert. Á fundi stjórnar Landssambands kúabænda, sem haldinn var 5. desember sl., var ákveðið að óska eftir því við Veterinærinstituttet í Noregi, að stofnunin gerði áhættumat á innflutningi á holdanautasæði úr Aberdeen Angus holdanautum frá Noregi til Íslands. Afar brýnt er að fá úr því skorið sem allra fyrst, hvort slíkum innflutningi holdanautasæðis fylgi áhætta fyrir heilbrigði búfjár hér á landi. Með því að fá áhættumat Veterinærinstituttet til viðbótar við greiningu Matvælastofnunar, er vonast til að hafið yfir allan vafa hvort sú leið er fær.
 
Nú á haustdögum hefur verið reynt að nudda áfram vinnu LK og SAM við gerð leiðbeininga um góða búskaparhætti. Ljóst er að slíkar leiðbeiningar, með tilvísunum í reglur og lög, verða afar umfangsmikið plagg. Því hefur verið ákveðið að gefa leiðbeiningarnar einnig út á samanþjöppuðu formi, sem fengið hefur vinnuheitið Stefna LK og SAM um fyrirmyndarbú. Stefna þessi tekur á flestum grunnstoðum mjólkurframleiðslunnar; mjólkurgæðum, matvælaöryggi, dýravelferð, umhverfis og öryggismálum. Vonast er til að þessari vinnu ljúki fyrir aðalfund LK 2014.
 
Stofnun Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins hleypti af stað talsverðu umróti í ýmsum öðrum þáttum stoðkerfis kúabænda. Þannig hefur mikil umræða verið um skipulag sæðingastarfseminar, enda bera bændur á sumum svæðum sig illa yfir stöðu þessara mála. Afar mikilvægt er að leiða saman þá aðila sem hafa með höndum þessi verkefni í dag og leita sameiginlegra lausna á viðfangsefninu. Eins er nauðsynlegt að fara yfir og ákveða framtíðar stöðu Nautastöðvar BÍ. Stjórn LK sendi nýlega erindi til stjórnar BÍ vegna málsins og væntanlega verður það það mál tekið upp milli samtakanna strax í upphafi nýs árs. Þá liggur fyrir að eitt þeirra verkefna sem bíða komandi árs er endurskoðun félagskerfis bænda. Það má vænta talsverðra straumhvarfa á þeim vetvangi næstu árin og á það bæði við um þau verkefni sem samtökunum eru falin, en ekki síður fjármögnun þeirra. 
 
Þátttakendur í veffræðslu LK eru nú orðnir 250 talsins og hefur þetta tilraunaverkefni okkar gengið vonum framar. Veffræðslan var upphaflega sett upp sem 2 ára tilraunaverkefni og líkur þeim tíma nú á vori komanda. Af viðtökunum að dæma er hins vegar ljóst að þörfin fyrir starfsemi af þessu tagi er til staðar og henni þarf að sinna. En fleira er á döfini í þessum efnum því að daganna 23.–26. febrúar hyggst LK standa fyrir fræðsluferð á Dansk kvæg kongres í Herning á Jótlandi. Þetta er ein öflugasta ráðstefna sem haldin er í Norður-Evrópu á sviði nautgriparæktar og er opin öllum áhugamönnum. Þá verður í tengslum við aðalfund LK 2014 haldið Fagþing nautgriparæktarinnar fimmtudaginnn 27. mars n.k. og er ætlað sem vettvangur á miðlun fagefnis fyrir greinina, bæði á sviði mjólkur- og nautakjötsframleiðslu.
 
Mikilvægt er að nú í upphafi árs verði hafist handa við að meta stöðu nautgriparæktarinnar eins og kveðið er á um með breytingum á mjólkursamningi haustið 2012. Nauðsynlegt er að leggja mat á það fyrirkomulag sem við líði er, hvernig það hefur gagnast bændum og neytendum. Í framhaldi af því verður svo að marka þá braut sem fara á, eftir að núverandi búvörusamningi lýkur. Þar þarf að horfa til allra þátta framleiðslu kúabænda, bæði mjólkur og kjöts og skapa umgjörð fyrir bætta afkomu með aukna hagkvæmni og vöxt að leiðarljósi. Flest þau sólarmerki sem við sjáum nú í upphafi nýs árs benda til þess umtalsverð tækifæri felist í íslenskum kúabúskap fyrir dugmikla og útsjónasama bændur.
 
Óska kúabændum og landsmönnum öllum gæfu á nýju ári
 
Sigurður Loftsson
Formaður Landssambands kúabænda