Ímynd nautgriparæktarinnar og vaktþjónusta dýralækna
28.03.2013
Mikill einhugur var á aðalfundi LK sem fór fram á Egilsstöðum 22.-23. mars. Mjög góð vinna fór fram í nefndum sem skilaði 21 ályktun sem eru af ýmsum toga. Af þeim ætla ég í þessum pistli að draga fram annars vegar ályktun um ímynd íslensks landbúnaðar og hins vegar um dýralæknaþjónustu.
Fundurinn undirstrikaði nauðsyn þess að ímynd íslensks landbúnaðar sé góð og að snyrtimennska og góðir búskaparhættir séu mikilvægir til að tryggja velferð dýra, heilnæmi afurða og byggja upp traust og velvilja í garð framleiðslunnar. Á fundinum var kynnt vinna sem LK og SAM standa fyrir varðandi útgáfu handbókar með leiðbeiningum um góða framleiðsluhætti.
Landbúnaður er stundaður með það markmið í huga að nýta landið sem hagkvæmast, að dýrunum líði vel og að afurðir frá þeim séu sem heilnæmastar. Bændur vita það að góð umgengni um náttúruna, góður aðbúnaður dýranna og gott atlæti skiptir máli. Landbúnaðurinn snýst um að skapa verðmæti af landinu, án þess að rýra það. Íbúum heimsins fjölgar ört og þarf að fæða og klæða það fólk allt saman. Þær þarfir verða ekki uppfylltar með plastefnum og næringartöflum. Við þurfum náttúrulegar afurðir af heilbrigðum dýrum.
Hjá einstöku bónda geta komið upp tilvik sem valda því að hlutirnir verða ekki í lagi. Í slíkum tilfellum þarf að vera hægt að grípa inn í áður en illa fer. Á fundinn mætti Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir og kynnti vinnu Matvælastofnunar við að sinna dýrvelferð og eftirliti. Það er nokkuð ljóst að eins og málum er háttað nú er seinlegt fyrir eftirlitsaðila að bregðast við ef brestir verða hjá einhverjum bónda þannig að hann hafi ekki tök á eða getu til að sinna sínu búi svo vel sé. Það þarf að vera hægt að bregðast fyrr við til að koma í veg fyrir að í óefni fari, bæði er það nauðsynlegt fyrir bóndann, dýrin og neytendurna að við höfum augun hjá okkur og hjálpum til ef eitthvað bjátar á hjá öðrum. Ef við sjáum kind afvelta, þá reisum við hana við þó hún sé ekki okkar og látum eigandann vita af henni, því hún gæti oltið um aftur. Eins þurfum við að gera ef við sjáum að nágranninn er ekki að höndla sitt. Þetta er þó örmjó lína, því hvenær er maður kominn með nefið niður í hvers manns kopp. Það er ekki það sem við viljum eða ætlum, heldur að hafa varann á okkur gagnvart ýmsum erfiðleikum sem geta bjátað á.
Einnig skiptir máli fyrir ásýnd landbúnaðarins og gæði búrekstrarins að ásýnd bæja og umgengni um landið séu góð. Þetta sést víðast hvar þegar keyrt er um blómlegar sveitir landsins. Víða eru bændur duglegir að endurrækta og stækka tún sín til að fá betri uppskeru fyrir búsmalann svo hann gefi betri afurðir öllum til heilla. Neytendur jafnt sem bændur njóta góðs af hagkvæmari rekstri búanna.
Þar sem það er augljóst mál að bændum er umhugað um velferð dýra sinna, er það mjög alvarlegt mál að á sumum svæðum landsins er verulega erfitt að ná í dýralækni utan dagvinnutíma. Vaktsvæðin á landinu eru mjög stór og um langan veg að fara fyrir dýralækninn. Ekki bætir svo úr skák þegar vakthafandi dýralæknir þarf að fara yfir hálf ófæra eða jafnvel alveg ófæra fjallvegi til að sinna veikum eða slösuðum dýrum. Það er ekkert gamanmál að vera með veikt eða slasað dýr og geta því litla björg veitt fyrr en eftir nokkra klukkutíma. Reynslan af nýju vaktsvæðunum er afleit og þarf að ráða bót þar á. Því ályktaði aðalfundurinn um að stjórnvöld endurskoði vaktsvæði dýralæknanna þar sem þau eru alltof víðfeðm til að skilyrði um dýravelferð verði uppfyllt.
Jafnframt ályktaði fundurinn um nauðsyn þess að bændur gætu átt ákveðin lyf til að hefja meðhöndlun á veikum gripum í samráði við sinn dýralækni. Grundvöllur að slíku leyfi væri þjónustusamningur sem bóndinn og dýralæknirinn gerðu sín á milli. Með því að dýralæknirinn komi með ákveðnu millibili á búið og vinni að forvörnum með bóndanum er hægt að minnka hættu á sjúkdómum og slysum og þar með auka velferð dýranna og afkomu búsins. Slíkt fyrirkomulag er algengt í nágrannalöndum okkar og mjög merkilegt að yfirvöld geti ekki komið á slíku kerfi hér á landi. Eða er það bara það íþyngjandi og skriffinnskulega sem sóst er eftir? Mér finnst miklu vænlegra að vinna að því að eldar kvikni ekki, frekar en að vera sífellt að slökkva elda með misjöfnum árangri.
Guðný Helga Björnsdóttir, stjórnarmaður Landssambands kúabænda