Aðalfundur LK – stefnumörkun 2021
22.03.2011
Nú í vikunni verður haldinn aðalfundur Landssambands kúabænda, en á þessu ári verða 25 ár frá stofnun samtakanna. Væntanlega verða samþykktar hinar ýmsu ályktanir um hagsmunamál kúabænda, sem koma til með að leggja línurnar fyrir starf LK á komandi ári og árum.
Á síðasta aðalfundi voru lögð fram drög að stefnumörkun nautgriparæktarinnar til næstu 10 ára, og samþykkt að halda þeirri vinnu áfram í samstarfi við forsvarsmenn Auðhumlu. Það sem helst þótti umdeilanlegt var að sett var inn sem markmið að lækka framleiðslukostnað mjólkur um 35% á næstu 10 árum. Nokkuð hefur verið um það rætt að það sé talið óraunhæft. Við skulum velta því aðeins betur fyrir okkur.
Ef við ætlum að láta líta á okkur sem eina af grunn stoðum þjóðarinnar þurfum við stöðugt að vinna að eflingu á samkeppnishæfni greinarinnar.
Jafnframt að þeir sem hana stunda hafi sambærilega afkomu og gerist í öðrum atvinnuvegum landsmanna, sem að vísu er ekki neitt sérstaklega burðug um þessar mundir. Fyrrnefndri kostnaðarlækkun verður að ná á með hagræðingu í öllum þáttum búskaparins, þannig að hver og einn liður skili hugsanlega 2-5% lækkun kostnaðar á tímabilinu. Ég nefni hér nokkra rekstrarþætti:
Bæta þarf nýtingu allra fjárfestinga, hvort sem er vegna kvótakaupa, bygginga eða vélakaupa. Vonir standa til að verð á greiðslumarki fari lækkandi vegna tilkomu kvótamarkaðar. Verð á greiðslumarki hefur verið margfalt hærra hér en í öðrum löndum þar sem sambærileg viðskipti eiga sér stað. Það verður þó að segja að verulegur óvissuþáttur hafi stungið upp kollinum þegar voru gerðar breytingar á skattalögum sem afnámu rétt til fyrningar á keyptum mjólkurkvóta. Það er óljóst hverjar afleiðingar þess verða og mjög óheppilegt að þessi breyting hafi verið gerð á þessum tímapunkti.
Það er vitað að umtalsverður fjöldi bása í fjósum landsins stendur auður, og mun aukin nýting þeirra bæta afkomu á viðkomandi búum. Lækkun vaxtastigs er augljóst hagsmunamál sem skilar verulegum bata.
Varðandi vélarnar er víða vel gert með samnýtingu t.d. jarðvinnslutækja í eigu búnaðarfélaga. Það er hinsvegar til muna lélegri nýting á heyvinnutækjum, sem mætti bæta með aukinni sameign/samnýtingu eða verktöku.
Aðrir þættir fóðuröflunar og fóðurnýtingar s.s. betri nýting fóðurs og notkun á nýjum og arðsamari nytjaplöntum munu skila sér í lækkun á framleiðslukostnaði. Á undanförnum árum hefur afurðaaukning vegna kynbóta á kúastofninum verið metin um 1% á ári, auk þess sem vinnuhagræðing á að nást vegna framfara í öðrum eiginleikum. Ef verður farið í innflutning á erfðaefni til að kynbæta kúastofninn munu þessir þættir taka stökk til aukinnar hagkvæmni.
Það er ekkert sem styrkir stöðu okkar betur en hagkvæmari framleiðsla. Þeim stuðningi sem við eigum hjá þjóðinni verður best við haldið með því að sýna fram á að við séum einbeitt í að standa okkur vel sem matvælaframleiðendur.
Það verður að viðurkennast að margir hlutir í okkar starfsumhverfi eru nokkuð í lausu lofti þessi misserin og gera stefnumörkun sem þessa erfiðari en ella, og gerir það að verkum að endurskoða verður stefnuna með reglulegu millibili. Það er samt ljóst að við verðum að hafa skýr stefnumarkmið og haft svör á reiðum höndum um hvert við stefnum.
Það verður gaman að sjá á komandi aðalfundi hvernig stefnumörkunin þróast áfram. Við eigum að setja markið hátt, tíminn mun síðan leiða í ljós hversu vel okkur gengur að ná markmiðum okkar.
Sigurgeir Bjarni Hreinsson
Varaformaður Landssambands kúabænda