Beint í efni

Tækifærin í landbúnaði

19.03.2016

Til hvers stundum við landbúnað? Jú, mannfólkið þarf að fæða og klæða. Frummaðurinn er frá okkur vaxinn og því stendur hann ekki lengur í því að fara út á gresjuna og sækja lífsbjörg fyrir fjölskyldu sína. Enda er jarðarkringlan ekki líkt því nógu stór til að rúma mannkynið við slíka iðju. Þess vegna þurfum við að stunda landbúnað til að mannkynið geti komist af fæðulega séð. En landbúnaðinn verðum við að stunda á eðlilegan hátt fyrir þann búfénað sem við búum með og gæta þess að ganga ekki á landsins gæði. Við stundum kynbætur á búfé, fóður- og matjurtum, til að auka framleiðni og hagkvæmni við landbúnaðinn og tækniframfarir sjá okkur fyrir vinnuléttari og hagkvæmari tæknibúnaði við framleiðsluna. Allt er þetta til þess að lækka framleiðslukostnaðinn, auka framleiðni fyrir stækkandi heim og gæta að velferð búfjárins. Hærra tæknistig búa veldur því að unnt er að vera með fleiri gripi í hverri framleiðslueiningu. Aðbúnaðarreglur hjálpa okkur við að búa gripunum gott umhverfi. Með hærra tæknistigi er einnig unnt að afla meira og betra fóðurs fyrir gripina. Með því að stunda endurræktun nýtist jarðnæðið betur, meiri uppskera fæst af hverri flatareiningu og uppskeran er næringarríkari en af gömlum túnum. Þar með fæst betri nýting á áburði, mannafla og olíu. Allt skiptir þetta máli í hnattrænu samhengi.


 


Þegar ég var lítil skotta mjólkaði afi nokkrar kýr í torffjósi, sem áfast var íbúðarhúsinu, mjólkin var kæld í mjólkurbrúsum í brunni ofan við bæinn. Þegar tankvæðingin varð hér um 1972, var byggt 15 kúa fjós við fjárhúsin, þar mjólkuðu afi og mamma kýrnar í nokkur ár með mjaltafötum. Svo var sett upp rörmjaltakerfi og mjólkað með því allt til ársins 1999, þegar við byggðum 33 kúa legubásafjós. Ef við værum að byggja núna myndum við byggja fyrir fleiri kýr, en þetta þótti okkur nægilega stórt á sínum tíma. Svona þróun hefur orðið á öllum búum, sem leiðir eðlilega til þess að mörg þeirra sérhæfa sig og þeim fækkar. Með sérhæfingunni gefst meiri tími til að einbeita sér að búgreininni og auka þannig afurðirnar og hagkvæmni rekstursins.


 


Mjög misjafnt er til hvaða þátta neytendur horfa þegar þeir kaupa sér í matinn; ódýr vara, lífræn vara, vegan fæði, beint frá bónda, slowfood og hvaðeina. Við þurfum að kappkosta með jákvæðum hug að uppfylla alla þessa markaði. Hver markaður kallar á sínar framleiðsluaðferðir, en allar þurfa þær að stuðla að góðri velferð búfjárins og gæta þarf þess að ganga ekki á landið sem notað er.


 


Þjóðir sem við berum okkur saman við standa vörð um sinn landbúnað og styðja bændur með styrkjum til landbúnaðar. Þegar kemur til skjala íslenskrar umræðu þá virðist það vera sem að styrkir til landbúnaðar séu aðför að almenningi og eru þar t.d. forkólfar Alþýðusambandsins ekki að draga af sér, merkilegt nokk þar sem mikill hluti þeirra félagsmanna hefur atvinnu af störfum tengdum landbúnaði og þjónustu við íbúa hinna dreifðu byggða. Virðist vera sem þeir vilji frekar fá ríkisstyrkta matvöru nágrannalandanna.


 


Styrkir til landbúnaðar eru til þess gerðir að lækka verð til neytenda. En hvaða styrkjaform er hentugast? Er ekki best að styrkja í reynd það sem verið er að framleiða? Sumir telja reyndar að framleiðslustyrkir hvetji til offramleiðslu og komi minni framleiðendum verr þar sem þeir hafi minni möguleika til að efla sína framleiðslu, aðrir telja að gripagreiðslur dragi úr framleiðni og auki óhagkvæmni. Þess vegna er horft til fjölbreytni í styrkjakerfinu; afurðagreiðslur, gripagreiðslur, jarðræktarstyrkir, framkvæmdastyrkir, landgreiðslur og fleira. En þegar á heildarpakkann er litið þá er það framleiðslueining bóndans sjálfs sem skiptir máli, möguleikar hans til að ná auknum tekjum út úr þeim gripum, húsnæði og landi sem hann hefur í umsjá sinni. Eftir því sem aðbúnaður og fóður gripanna er betri, eftir því verða afurðir þeirra meiri og betri.


 


Aðgangur að ríkisstuðningi á ekki að kosta fjármuni, það þurfa allir að hafa jafnan aðgang að honum, en bændum sé svo í sjálfsvald sett hvernig þeir nálgast hann. T.d. er hægt að sækja mikla jarðræktarstyrki með því að endurrækta mikið, þar með er bóndinn kominn með mikið af úrvals fóðri sem leiðir til góðra afurða og heilbrigðis búfjárins og ef markaðsaðstæður eru þannig er hægt að komast af með minni kjarnfóðurgjöf og þar með ódýrari mjólk. Á móti kemur að ekki fæst eins mikið úr landgreiðslupottinum, því þeir sem eru með mikla endurrækt og mikla uppskeru af hverjum hektara þurfa ekki eins marga hektara til að ná vetrarforðanum eins og þeir sem stunda litla jarðrækt og hafa þar með mikið af gömlum túnum til að afla heyja af. Þeir bændur fá meira úr landgreiðslupottinum, en hafa á móti lakara fóður og fá þar með minni afurðir og þurfa að gefa mikið kjarnfóður til að ná einhverjum afurðum. Þeir bændur eru þá með fleiri gripi á húsi til að ná sömu heildarafurðum, fá þar með hærra hlutfall gripagreiðslna, en á móti kemur að framlegðin á bás verður minni og þar með orðin óhagkvæmari rekstrareining. Svona er hægt að velta rekstrarforminu mikið fyrir sér og finna út hvað hentar hverjum og einum best út frá staðsetningu og aðstæðum.


 


Mjög vel gengur með markaðssetningu og sölu á íslenska skyrinu á erlendri grundu. Þó er einn stór hængur þar á. Allt of stór hluti af því skyri er ekki framleiddur úr íslenskri mjólk, heldur úr mjólk úr kúm sem erfitt er fyrir íslenska bændur að keppa við. Kúm sem skila mun meiri afurðum af bás en íslensku kýrnar og eru á búum sem hafa vegna hlýrra veðurlags aðgang að miklu öflugari og hagkvæmari fóðurjurtum. Við þetta og tollmúrana inn á Evrópu er erfitt að keppa. En eigum við ekki sjálf að njóta góðs af því að selja okkar eftirsótta skyr úr okkar íslensku mjólk? Inn í Sviss eru engir tollmúrar og eigum við að kappkosta markaðssetningu þangað, framleiðslan hér er svo gífurlega lítil að það þarf ekki að opnast stór markaður til þess að við munum eiga í vandræðum með að fylla hann. Það er eðlilegt að markaðssetning á erlendri grundu hafi ekki verið mikil undanfarin ár, þar sem það var skortur á mjólk hjá okkur. Hins vegar þegar vel gengur í framleiðslunni, er eðlilegt að upp safnist birgðir á meðan fyrri markaðir eru endurvaktir, eins og t.d. fyrir smjörið og nýir efldir eins og fyrir skyrið. Í markaðssetningunni eigum við að horfa til sérmarkaða, sem gefa hærri verð. Sérmarkaða með sérstaka vöru. Stórfyrirtæki út í hinum stóra heimi búa sér til sérstöðu, við hér á Íslandi þurfum ekki að búa okkur til sérstöðu, við höfum hana en eigum eftir að koma henni betur á framfæri.


 


Svo er það samkeppnin við innfluttar vörur og tollasamningurinn sem gerður var í haust. Bændur hræðast ekki innfluttar landbúnaðarvörur, við vitum að við erum með úrvalsgóða vöru og rúmlega samkeppnishæfa í gæðum við þá innfluttu. Bændur hræðast hins vegar þá sem stjórna stórverslunum og stóreldhúsum, þar er horft til hagnaðar og Mammon er harður húsbóndi.  Hvar er t.d. vöruverðslækkunin vegna styrkingar á gengi krónunnar og lækkunar á opinberum álögum? Verðlagseftirlit fyrrnefnds Alþýðusambands hefur sýnt fram á að lækkunin hefur ekki skilað sér í vöruverði. Því er enn merkilegra að sambandið leggist gegn búvörusamningunum sem nú eru í atkvæðagreiðslu. Verslunin stjórnar því mikið til hvað við kaupum. Það sem ekki er til í versluninni getum við eðlilega ekki keypt þar. Mamma mín fór t.d. í verslun fyrir mig fyrir stuttu. Á innkaupamiðanum stóð m.a. sveppir, sem hún keypti samviskusamlega, innpakkaða í bláa öskju. En hún kom með sveppaöskju sem ég hefði ekki keypt, því að með örsmáaum stöfum stóð að upprunalandið væri Pólland. Hún áttaði sig ekki á því að þetta væru ekki íslenskir sveppir, þeir eru jú seldir í svona blárri öskju eins og þeir íslensku og það var skrifað á íslensku á miðann, eins er örugglega komið fyrir fleiri neytendum, þó svo að fánaröndin hjálpi til við að sérmerkja. Ekki það að ég haldi að pólskir sveppir séu slæmir, heldur vil ég kaupa íslenska vöru og svo er með fleiri neytendur, en verslunin gerir okkur oft erfitt um að átta okkur á upprunanum. Því sem við getum keypt er líka stjórnað með vöruframboðinu, stundum langar mig að kaupa kryddaðan sýrðan rjóma, en hann fæst ekki í öllum búðum, dóttir mín er sjúk í jarðarberjaskólajógúrt, sem er hagkvæmt að kaupa í lítersfernum sem fást bara í einstöku búðum. Svona stýrir verslunin því hvað við kaupum eða kaupum ekki, við fáum ekki alltaf um það ráðið og því er ekki nóg að neytendur séu velviljaðir bændum.


 


Að lokum vil ég taka það fram að þetta verður síðasti pistill sem ég skrifa sem stjórnarmaður í Landssambandi kúabænda þar sem ég ætla ekki að gefa kost á mér í kjöri til stjórnar á komandi aðalfundi. Ég er búin að vera í stjórninni síðan árið 2005 og hefur það verið mjög lærdómsríkur og skemmtilegur tími. Vonast ég til að öflugir, málefnalegir og framsýnir einstaklingar gefi kost á sér í stjórnina og að einhverjir þeirra aðila verði kvenkyns. Allt of fáar konur láta að sér kveða þegar kemur að félagsmálum bænda. Ég held þær séu allt of viljugar til að hleypa karlinum sínum í félagsmálin, finnst sjálfsagt sumum hverjum nóg að annar aðilinn að búinu sé í fundastússi. Þannig á reyndar ekki að hugsa, við þurfum raddir allra bænda, hvar af landinu sem þeir eru, hvers kyns sem þeir eru, hverrar skoðunar sem þeir eru, munum bara að við þurfum að vera málefnaleg, þannig náum við betur árangri í þeim verkum sem við þurfum að ná fram.


 


Bessastöðum í mars 2016


Guðný Helga Björnsdóttir


Varaformaður stjórnar LK