Beint í efni

Mörg mikilvæg verkefni aðalfundar LK!

11.03.2015

Nú er árstími aðalfunda. Í þessari viku verður aðalfundur Landssambands kúabænda og liggur mikið af tillögum fyrir fundinum. Veigamesta tillagan er um búvörusamningana. Nokkur aðildarfélög hafa sent inn tillögur er snúa að þeim og stjórn LK hefur mótað tillögu að samningsmarkmiðum. Nauðsynlegt er að fulltrúarnir ræði þær tillögur ýtarlega og komist að niðurstöðu um samningsmarkmið í nýjum samningi. Búnaðarþing, sem var í byrjun mars, afgreiddi ágæta tillögu um búnaðarlagasamning, sem verði rammasamningur um starfsumhverfi landbúnaðarins og undir honum verði samningar um hverja búgrein. Í ræðu landbúnaðarráðherra við setningu Búnaðarþings opnaði hann á þá hugmynd að tollamálin yrðu inni í samningnum og tók Búnaðarþing mjög vel í þá hugmynd.


 


Þá liggja fyrir þinginu tillögur um nautakjötsframleiðsluna og sárlega vöntun á nýju erfðaefni í holdanautastofnana. Það er sorglegt hve það mál hefur tekið gífurlega langan tíma. Samkvæmt áhættumati sem tekur til tæplega 50 þekktra sjúkdóma í búfé, eru hverfandi líkur á að þeir muni berast með sæði frá þeirri kynbótastöð sem valin hefur verið til að skipta við, enda eru gríðarlegar sóttvarnir á  stöð Geno í Noregi, auk þess sem almennt heilbrigðisástand nautgripa er gott þar í landi. Þeir sem varlegast vilja fara telja að sjúkdómar sem við þekkjum ekki, geti borist með sæði. En þeir geta allt eins borist með fuglum, ferðamönnum eða einhverju sem við vitum ekki hvað er. Við vitum til að mynda ekki hvernig barkarbólgan barst í kýrnar á Egilsstaðabúinu og ekki varð vart neinna sjúkdómseinkenna þar. Það er klárt að hestapestin, sem helltist yfir hrossastofninn fyrir nokkrum árum, barst ekki með sæði í hrossin. Auðvitað viljum við fara eins varlega og mögulegt er, en kröfurnar vegna innflutnings þurfa að vera raunhæfar og málefnalegar, auk þess að greinin þarf að geta staðið undir þeim. Staðan eins og hún er núna er hreint og klárt að ganga af holdanautaræktun á Íslandi dauðri og er það innflutningsleysi á erfðaefni sem veldur því. Skyldleikinn er orðinn allt of mikill og holdanautasæðið sem í boði er áratugagamalt og því ekki um neinar erfðaframfarir að ræða hér á landi frá því síðast var flutt inn seint á síðustu öld. Nautakjötsmarkaðurinn hefur stækkað mikið og framleiðslan stendur engan veginn undir eftirspurn á markaðnum þannig að flytja hefur þurft inn mjög mikið af nautakjöti til að uppfylla þarfir markaðarins eða ígildi 1.750 tonna árið 2014, sem er fimmföldun frá árinu 2013. Það skekkir mjög samkeppnisstöðu nautakjötsframleiðenda á Íslandi að hafa ekki sambærileg framleiðslutæki og bændurnir sem framleiða innflutta kjötið. Við vitum að við búum ekki við sama veðurfar og því ekki samkeppnisfær á þeim grunni, en við gætum vel verið samkeppnisfær á gripagrunni ef við hefðum sama erfðaefni í holdanautastofnana og þeir. Þar með gætum við framleitt meira og ódýrara nautakjöt af íslenskum gróðri.


Stjórn LK hefur frá síðasta aðalfundi m.a. unnið eftir ályktun frá fundinum um að stofna félag til að kaupa ráðandi hlut í Nautastöðinni á Hesti. LK stofnaði í þeim tilgangi Nautgriparæktarmiðstöð Íslands ehf. Samningaviðræður við Bændasamtök Íslands voru langt komnar fyrir Búnaðarþing. Fulltrúar á Búnaðarþingi voru hins vegar misfúsir að selja kúabændum meirihluta í stöðinni og endaði afgreiðslan þar á að Búnaðarþing heimilaði að LK og BÍ ættu jafnan hlut í Nautastöðinni.Tilgangur með aðkomu LK að Nautastöðinni er að auka bein áhrif og ábyrgð greinarinnar á kynbótastarfi nautgriparæktarinnar og efla með því áhuga og þátttöku kúabænda.Aðalfundurinn mun væntanlega taka afstöðu til þessa máls út frá stöðunni sem er á því í dag. Undirrituð hefur eðli málsins samkvæmt ekki tekið virkan þátt í þessum viðræðum og ákvörðunum, en verið upplýst um gang mála eins og aðrir stjórnarmenn.


 


Margar ályktanir liggja fyrir fundinum um verðlagsnefnd og er það mjög skiljanlegt. Ráðherra hefur ekki enn skipað verðlagsnefnd, en skipunartími þeirrar síðustu rann út síðastliðið sumar. Stjórn LK hefur ítrekað rekið eftir því að nefndin verði skipuð en ekki haft erindi sem erfiði. Aðalfundurinn mun væntanlega fjalla um þessa stöðu.


 


Í fagráði í nautgriparækt hefur verið mikil umræða á árinu um ræktunarmarkmið íslenska kúakynsins. Slík markmið þurfa að vera í sífelldri skoðun. Nú, þegar kallað er eftir aukinni mjólk og nautakjöti þurfa bændur að bregðast fljótt við. Þá kemur glöggt í ljós að kýrnar eru ekki allar að standa sig sem skyldi. Margar hverjar bregðast vel við aukinni kjarnfóðurgjöf og skila henni í auknum afurðum, en svo eru aðrar sem hafa ekki eðli til þess að mjólka. Þá er eðlilegt að hafa áhyggjur af því að í svo litlum stofni sem við höfum er erfitt að flýta erfðaframförum. Nautin sem gefa afbragðs mjólkurkýr eru mjög fá í hverjum árgangi. Ekki er hægt að nota þau eingöngu ásamt óreyndum nautum því þá verður stofninn allt of skyldur. Virk stofnstærð kynsins nálgast mjög neðri mörk þess sem ásættanlegt getur talist í þeim efnum. Þess vegna þarf að setja í dreifingu naut sem eru með galla í nokkrum eiginleikum. Þetta þýðir að bændur þurfa að vanda vel valið á nautum fyrir kýrnar sínar. Það er því skiljanlegt að menn velti fyrir sér hvernig unnt er að efla og bæta ræktunarstarfið. Hér ætla ég ekki að ræða heimanautanotkun og pörunaráætlanir, ég hef áður lagt áherslu á þá þætti. Fyrir aðalfundinum verður kynnt vinna fagráðs við að vinna ræktunarmarkmið fyrir íslenska nautgriparækt, nauðsynlegt er að kúabændur leggi línurnar í slíkri vinnu.


 


Í tengslum við aðalfundinn stendur fagráð í nautgriparækt ásamt LK fyrir Fagþingi landbúnaðarins. Í fyrra var fyrsta Fagþingið haldið og mæltist vel fyrir, nú tengjum við Fagþingið enn meir inn í aðalfundinn til að þétta dagskránna. Þar verða veitt verðlaun fyrir besta kynbótanautið úr 2007 árgangnum og ýmis erindi er skipta miklu máli fyrir aukningu afurða kúnna okkar. Dagskránna má sjá í fréttum hér á síðunni. Vonast er eftir góðri þátttöku kúabænda á Fagþinginu, en þeir sem ekki eiga heimangengt geta fylgst með fundinum á netinu, en honum verður streymt beint á heimasíðu LK, eins og fyrri hluta aðalfundarins.


 


Á föstudagskvöldið að loknum aðalfundi LK verður árshátíð kúabænda haldin á Grand Hóteli og verður það að venju mikil skemmtun. Hlakka til að sjá ykkur þar, á aðalfundinum, Fagþinginu og já bara líka á förnum vegi.


 


Guðný Helga Björnsdóttir


Bessastöðum