Beint í efni

Hugleiðing að loknu Búnaðarþingi

08.03.2012

Það var ákveðið af stjórn LK  fyrir um tveimur árum að stjórnarmenn myndu til skiptis rita pistla um hugðarefni sín hverju sinni inn á vef samtakanna sem síðan yrðu birtir í Bændablaðinu. Þar hefur aðeins orðið misbrestur á hvað sem veldur, en stjórnarmenn hafa skilað inn sínum pistlum nokkuð samviskulega. Held að stjórnir fleiri samtaka okkar bænda mættu taka þetta upp hjá sér.


 


Ég ætla að fara að þessu sinni nokkrum orðum um tvö mál sem ný afstaðið búnaðarþing fjallaði um er ég sat sem annar af tveim fulltrúum BSSÞ.


 


Eitt stærsta mál þingsins var tillaga  um að verulegar breytingar yrðu gerðar á rekstri og skipulagi leiðbeiningarþjónustunar sem svonefnd milliþinganefnd skilaði tillögu að eftir að hafa unnið að málinu frá síðasta þingi. Þetta mál er búið að vera alllengi í bígerð. Var málið kynnt m.a. á bændafundum BÍ sem haldnir voru skömmu fyrir jól. Markmið breytinganna er að tryggja bændum aðgang að sambærilegri ráðgjöf á sömu kjörum hvar sem þeir búa á landinu. Einnig að freista þess að með því að leggja fram mótaða tillögu að markvissari þjónustu en hingað til hefur verið og auðvelda samningsgerð við gerð nýs búnaðarlagasamnings. En eins og kunnugt er rennur hann út nú í árslok. Hvet ég fólk til að kynna sér efnistök tilllögunar sem ekki hafa gert það nú þegar. Það er með þetta mál eins og mörg önnur sem að okkur snúa, að fólk sem vinnur að þessu kemur úr röðum okkar bænda og treysti ég því til að leiða þetta mál til lykta. Þeirra er hagurinn rétt eins og okkar hinna sem minna koma að málinu en höfum þó komið að því að velja okkur fólkið  til að fara með  málefni okkar.


 


Félagskerfi okkar bænda fer að standa á tímamótum þegar ljóst er að fjárhagsleg uppbygging þess mun ekki byggjast upp af tekjum af búnaðargjaldi vegna þess að því má ekki ráðstafa til hagsmunagæslu, heldur mun fjárhagsleg uppbygging þess verða með töku félagsgjalda. Við höfum búið við viðamikið kerfi  sem hefur haft úr miklum fjármunum að spila. Bændasamtökin og öll búgreinafélögin sem að miklu leiti hafa fjármagnað sig af búnaðargjaldinu verða að stokka upp spilin og leita allra leiða til að nýta það fjármagn sem úr er að spila á sem bestan hátt með það að leiðarljósi að slaka hvergi á hagsmunagæslunni. Ég er þess fullviss að það er hægt og velti því m.a. fyrir mér hvort við þurfum öll þessi félög til að fara með  mál okkar þessara fáu bænda. Búnaðarþing er dýr og mikil samkoma sem ég lít á sem aðalfund bændasamtakanna og finnst að halda ætti þegar aðildar félögin hafa lokið sínum aðalfundum. Þeir yrðu að sjálfsögðu að flýta sínum aðalfundum verulega þannig að búnaðarþing yrði haldið ekki seinna en um miðjan mars. Nú styttist í aðalfundi LK og LS sem eru viðamiklar samkomur og munu fjalla að tölverðu leiti um það sama og nýliðið búnaðarþing. Einnig eru flestir aðalfundir búnaðarsambandanna eftir. Finnst að skilvirkara væri að aðildarfélögin skiluðu inn ályktunum sínum beint á borð búnaðarþings, þannig yrði grasrótin enn virkari í störfum  þess. Þá er ástæða til að velta framtíð búnaðarsambandanna fyrir sér ef leiðbeiningarþjónustan flyst frá þeim, hvert hlutverk þeirra verður ef það verður þá eitthvað. Einnig í því sambandi hvernig aðild að Bændasamtökunum skal háttað. Hvort aðild verður bein eða alfarið í gegnum búgreinafélög. Stjórn Bí  var á þessu þingi falið að vinna að endurskoðun félagskerfinsins í samstarfi við aðildarfélög þess og leggja fyrir mótaðar tillögur á næsta búnaðarþing, líkt og gert var í fyrra með leiðbeiningarþjónustuna. Ég tel að  breytingar sem óhjákvæmilega verður að gera þó ekki sé nema fyrir það eitt að við þurfum að fara betur með þá aura sem úr verður að spila, gerða í miklu samstarfi við aðildarfélögin og þá um leið bændur landsins. Stjórn BÍ mun hafa í nógu að snúast á næstu mánuðum þar sem öllum málum nema einu sem afgreidd voru frá þinginu var beint til stjórn að framkvæma. Ályktað var að senda þetta eina mál beint til fjármálaráðuneyti efnahags- og viðskiptanefnd alþingis. Það fjallaði um að dregið yrði úr skattlagningu á eldsneyti. Skildi nokkurn undra!


 


Framundan er aðalfundur Auðhumlu sem er stærsta félagið sem rekur mjólkurvinnslu í landinu og er í eigu bænda og stjórnað af þeim. Á undanförnum árum hefur náðst fram gríðarleg hagræðing í rekstri þessa félags sem skilað hefur sér bæði til bænda og neytenda. Eitt af því sem þetta félag hefur haft að markmiði hingað til er að allir bændur greiði sama verð fyrir flutning á mjólkinni hvar sem þeir búa sem gert hefur mönnum auðveldara að halda mjólkurframleiðslu áfram hvar sem er á landinu. Flutningskostnaður á mjólk var að verða mönnum ofviða þar sem byggð er mjög dreifð og lítil samlög voru rekin. Fátt annað í þjóðfélaginu hefur verið gert til að halda þessari atvinnustarfsemi uppi sem skilað hefur jafn miklu til umbjóðenda sinna í hinum afskektari byggðum. Því finnst mér mjög ómaklega að stjórnendum þessa fyrirtækis vegið með því að halda því fram að lokun óhagkvæmra afurðastöðva setji starfsumhverfi þeirra í óvissu, heldur miklu frekar til að styrkja stöðu þeirra. Reynum að taka glöð á móti vorinu sem nú er í nánd.


 


Sveinbjörn Þór Sigurðsson bóndi Búvöllum og stjórnarmaður í LK