Beint í efni

Tómi básinn

08.03.2014

Eins og öllum ætti að vera orðið ljóst, þá hefur á skömmum tíma orðið bylting í eftirspurn eftir mjólkurvörum. Við mjólkurframleiðendur erum neytendum þakklátir fyrir þeirra mikla áhuga á okkar góðu og hollu framleiðslu. Við þurfum að bregðast við kalli þeirra og auka framleiðsluna. Það getum við t.d. gert með bættri nýtingu á framleiðsluaðstöðu, betri áherslum í fóðrun og því að sætta okkur lengur við að mjólka kýr sem eru leiðinlegar í mjöltum.


 


Fyrr í vetur gerði Landssamband kúabænda könnun á meðal félagsmanna sinna. Meðal annars var þar spurt um nýtingu bása í fjósum. Þar kom fram að all nokkuð af fjósum eru ekki fullnýtt. Framleiðslustýringin er sjálfsagt helsti orsakavaldur þess. Þegar ekki er til nægjanlegur kvóti fyrir mjólkinni sem fjósið gæti skilað af sér fullnýtt, hafa bændur ekki séð sér hag í því að vera með mjólkandi kýr á öllum básum.


 


Mjög misjafnt er á milli búa hvort þar hafi verið framleidd mikil mjólk umfram kvóta eða ekki. Líklega hafa aðstæður á búunum miklu ráðið um það, aðstaða til uppeldis og öflunar fóðurs og fleira slíkt. Þeir bændur sem hafa undanfarin ár framleitt vel umfram kvóta eiga þökk skylda, þeir stuðla nú að því að mjólkurvöntunin er ekki eins mikil og hefði getað orðið.


 


Svona framleiðslustýringarkerfi eins og hér hefur verið notað þarf að virka þannig að menn sjái sér fært að framleiða umfram kvóta, þess vegna þurfa afurðasölufyrirtækin að vinna í því að afla markaða erlendis fyrir þá vöru.


 


Útjöfnun á milli þeirra sem framleiða fram yfir kvóta og þeirra sem ekki fylla kvótann, C-greiðslur fyrir innvegna mjólka og það umframmjólkurverð sem bændur hafa fengið eru allt þættir sem hafa skipt máli en nú þarf hins vegar að skoða hvernig þetta kerfi hefur virkað. Þegar skrifað var undir framlengingu á samninginum um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar, haustið 2012, var samþykkt að skipa starfshóp samningsaðila til að meta reynsluna af framkvæmd samningsins, þ.á.m. kostnaðarþróun, áhrif kvótakerfisins og stöðu verðlagningar og tolla. Samkvæmt samkomulaginu átti starfshópurinn að skila af sér í síðasta lagi 31. desember 2013. Stjórn LK hefur undanfarið ár ýtt eftir því að þessi starfshópur yrði skipaður og á síðasta stjórnarfundi sendi hún frá sér átölur til ráðuneytisins vegna þess að ekki var enn búið að skipa starfshópinn.


 


Nú þegar eftirspurnin er mikil eftir mjólkinni, þurfum við að nýta alla framleiðsluaðstöðu sem til er, megum ekki vera með tóma bása í fjósunum. Við þurfum líka að eiga gott fóður fyrir kýrnar. Aukin framleiðsla á búunum kallar á aukna túnrækt og þurfum við að gæta þess að vera með hágæða hey sem hlýtur að kalla á meiri endurræktun og nýræktir. Varðandi básanýtinguna þá þurfum við að velta fyrir okkur hvort að við gerum nógu vel við geldkýrnar. Í of mörgum fjósum er ekki gert ráð fyrir sérstakri aðstöðu fyrir þær, heldur eru þær með mjólkurkúnum á sama fóðri og þær, sem verður til þess að þær koma rangt undirbúnar inn í mjaltaskeiðið. Þar sem ekki er nægjanlegt pláss í húsum gæti komið til greina að leigja út uppeldi á kvígunum í svokölluðum kvíguhótelum. Bændur í nágrannalöndum okkar eru farnir að nýta sér þann valmöguleika. Það getur verið vænlegur kostur fyrir bónda sem er t.d. hættur mjólkurframleiðslu að taka að sér uppeldi á kvígum fyrir nágrannana og skila þeim vel þroskuðum og fengnum eftir sæðingu. Þar með losnar pláss heima á bæjunum og hægt að skipta kúnum upp í hópa eftir stöðu á mjaltaskeiði, jafnvel hægt að fjölga básum fyrir kýrnar á svæðinu sem kvígurnar annars voru á.


 


Í innganginum nefndi ég að hægt væri að auka mjólkurframleiðsluna með því að við sættum okkur við að mjólka kýr sem eru leiðinlegar í mjöltum eða fjósi. Í fjósum þar sem framleiðsla hefur verið mikið framyfir kvóta er ekki ólíklegt að bændur hafi fljótlega losað sig við slíka gripi úr fjósunum, en nú ættum við þó að mjólka þær lengur, ef pláss er fyrir hendi í fjósinu og að mjólkin í lagi. Þar kemur tómi básinn aftur inn. Það er auðvitað leiðinlegt að vera með kýr og kvígur sem ekki standast væntingar sem til þeirra eru gerðar, en sem betur fer verður stór meirihluti kvígna sem koma inn í mjólkurframleiðsluna ágætar mjólkurkýr.


 


Margir bændur eru með væntingar til þess að fá nýtt erfðaefni inn í kúastofninn, eða jafnvel nýtt kúakyn. Það er skiljanlegt þegar horft er m.a. til mjaltaeiginleikanna og afurðanna sem kúakyn í nágrannalöndunum gefa af sér. Neytendur gera kröfur um lægra vöruverð og gera miklar athugasemdir við landbúnaðarkerfið. Þeir þurfa að átta sig á því að við erum ekki samkeppnishæf í verði á afurðunum, þegar við búum við gripi sem skila mun minna af sér. Á Íslandi höfum við íslensku landnámskúna og þurfum eðlilega að vernda það kyn og gera þarf verndaráætlun fyrir íslenska kúakynið. Fagráð í nautgriparækt er að vinna í þessum málum og framfylgja ályktunum aðalfunda Landssambands kúabænda, m.a. hefur verið unnin skýrsla um mögulega blendingsrækt og gátlisti vegna hugsanlegs innskots á erfðaefni í íslenska kúastofninn. LbhÍ er að taka saman yfirlit yfir hvernig haga mætti innskoti erfðaefnis ef til kæmi. Eflaust mun aðalfundur LK 28.-29. mars n.k. fjalla um þessi mál. Fyrri aðalfundir hafa ályktað um að efla kynbætur íslensku kýrinnar og hefur LK og fagráð fylgt þeim ályktunum eftir og vinna ráðunautar nautgriparæktarinnar að þeim málum. Þar þarf m.a. að efla þátttöku kúabænda í ræktunarstarfinu með því t.d. að þeir taki virkari þátt með öllum sínum gripum. Þar mæli ég sérstaklega með að bændur geri eða fái RML til að gera fyrir sig kynbótaáætlanir. Með því að gera kynbótaáætlun eru meiri líkur á að kvígurnar sem við fáum inn í mjólkurframleiðsluna séu mæðrunum betri og þar með fáum við betri kýr á tóma básinn, sem og hina.


 


Misjafnt er á milli bænda hvernig þeir ná árangri í mjólkurframleiðslunni og hvernig þeir leysa hin ýmsu mál og taka á vandamálum sem stundum herja að í búskapnum. Nauðsynlegt er fyrir bændur að líta upp úr gegningunum af og til, hitta nágrannana og bera saman bækur sínar. Mjög gott er að nota tækifærið og horfa saman á erindi úr veffræðslu LK. Þar eru mjög mörg góð fræðsluerindi, sem geta skapað skemmtilegar umræður heima í héruðum. Á slíkum samkundum geta bændur líka hvatt hvern annan til dáða, jafnvel geta skapast viðskipti með kýr eða kvígur, þar sem tómi básinn á einum bænum fengi kannski kvígu af öðrum bæ sem ekki hefur tóman bás.


 


7. mars 2014


Guðný Helga Björnsdóttir


 


/SS