Beint í efni

Viðskipti með greiðslumark

02.03.2011

Þann 2. mars s.l. birti Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið nýja reglugerð um markaðsfyrirkomulag við aðilaskipti að greiðslumarki mjólkur á lögbýlum. Með því er ljóst að ráðuneytið hefur enn hafnað eindregnum óskum kúabænda um fjölgun uppboðsdaga á kvótamarkaði. Frá setningu upphaflegrar reglugerðar um kvótamarkað í maí 2010 hefur einungis einn uppboðsdagur verið haldinn þann 1. desember s.l. og skiljanlega urðu viðskipti þar ekki mikil, enda bændur þarna að feta sín fyrstu skref í nýju markaðsumhverfi með greiðslumark. Því til viðbótar var á þessum tíma verið að breyta afskriftareglum vegna þessara viðskipta sem án nokkurs vafa hafa gert það að  verkum að verðhugmyndir kaupenda og seljenda fjarlægðust.


 


Síðasti aðalfundur Landssambands kúabænda fól stjórn samtakanna að vinna að því í samstarfi við Bændasamtökin og ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðar að öll viðskipti með greiðslumark í mjólk, sem færist milli lögbýla fari í gegnum sameiginlegan tilboðsmarkað. Markmiðið með stofnun þessa kvótamarkaðar var einkum þríþætt, í fyrsta lagi að auka gegnsæi viðskipta með greiðslumark, í öðru lagi að jafna aðstöðu framleiðenda sem vilja eiga viðskipti og í þriðja lagi að draga úr kostnaði greinarinnar vegna viðskipta með greiðslumark. Það var hinsvegar alltaf ljóst að til þess að þessi markmið næðust þyrfti að vera nægjanlegt svigrúm til viðskipta á markaðnum.
 


Ljóst er að sú mikla stífni sem einkennt hefur ákvarðanir ráðuneytisins í þessu efni hefur komið mörgum kúabændum illa. Á það bæði við um þá sem hugðust aðlaga greiðslumark sitt að framleiðslu með kaupum, en ekki síður hefur þessi staða haft erfiðleika í för með sér fyrir fólk sem ákveðið hefur að selja greiðslumark sitt af heilsufars-, aldurs- eða búrekstarlegum ástæðum. Miklu skiptir fyrir fólk í þessari aðstöðu að hafa næg tækifæri til viðskipta, áður en farið er að ráðstafa bústofni eða taka aðrar rekstrarlegar ákvarðanir.


 


Landssamband kúabænda hefur eytt mjög mikilli vinnu í að ná fram breytingum umræddri reglugerð um kvótamarkað í samræmi við vilja aðalfundar, þar á meðal fjölgun markaðsdaga og ítrekað hefur verið bent á mikilvægi þess. Því hefur hinsvegar eins og áður hefur komið fram verið hafnað án þess að nokkur haldbær rök séu færð fyrir þeirri afstöðu. Með þessari framgöngu ráðuneytisins er hætt við að góð hugmynd að stórbættu skipulagi á viðskiptum með greiðslumark bíði verulegan hnekki og ljóst að næsti aðalfundur Landssambands kúabænda verður að taka málið til alvarlegrar skoðunar, verði ekki breyting þar á.


 


Sigurður Loftsson


Formaður Landssambands kúabænda