Tímamót
27.02.2016
Föstudagurinn 19. febrúar s.l. markaði á ýmsan hátt tímamót fyrir íslenskan bændur, þegar skrifað var undir nýjan Rammasamning um starfsskilyrði landbúnaðar samhliða nýjum samningum um starfsskilyrði garðyrkju, sauðfjár- og nautgriparæktar. Með þeim er sleginn nýr tónn varðandi framtíðarþróun landbúnaðar og stuðning ríkisins við bændur. Þá er nýmæli að gildistími samninganna er lengri en áður, eða 10 ár, en á móti er gert ráð fyrir að þeir verði teknir til endurskoðunar tvisvar á samningstímanum, árin 2019 og 2023. Ástæða þess er ekki hvað síst að með samningunum er verið að horfa til umfangsmikilla breytinga á starfsumhverfi landbúnaðarins, sem kalla á langtímahugsun og aðlögun frá eldra fyrirkomulagi. Eins er í nýju samningunum lögð aukin áhersla á lífræna framleiðslu, velferð dýra, umhverfisvernd og sjálfbæra landnýtingu, en jafnframt að nýliðun og kynslóðaskipti í landbúnaði verða auðveldari en verið hefur. Allur jarðræktarstuðningur er nú sameinaður undir Rammasamningi, aukinn verulega og gerður almennari. Um leið er tekinn upp stuðningur á ræktarland sem er ekki bundinn ákveðinni framleiðslu. Því fylgja nýjir fjármunir, en tilgangur þessa er að þróa ný og fjölþættari stuðningsform. Spennandi verður að sjá hvernig til tekst í því efni.
Viðamiklar breytingar
Í samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar er stefnt að viðamiklum breytingum frá því sem nú er í samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu. Vægi greiðslna út á framleidda mjólk og gripagreiðslna eykst en á móti er gert ráð fyrir að greiðslur sem fylgja greiðslumarki verði þrepaðar niður. Viðskipti með greiðslumark verða takmörkuð fyrstu þrjú ár samningsins, verðið fest og viðskiptum stýrt með ákveðnum hætti. Í samningnum er horft til þess að afnema kvótakerfi í mjólkurframleiðslu en endanleg ákvörðun um það verður ekki tekin fyrr en við fyrri endurskoðun árið 2019 og atkvæðagreiðsla verður meðal mjólkurframleiðenda um málið áður en til þess kemur. Nýmæli er í samningnum að tekinn verður upp, með vaxandi þunga, stuðningur við nautakjötsframleiðslu og rekstur einangrunarstöðvar fyrir holdanautgripi. Ennfremur verður mögulegt að fá stuðning við fjárfestingar, en fjárfestingaþörf greinarinnar er veruleg, ekki síst í kjölfar nýrra krafna um aðbúnað nautgripa. Þá mun ráðherra beita sér fyrir því að tollvernd á ákveðnum mjólkurvörum verði færð til upphaflegs verðgildis, en hún hefur verið óbreytt í krónum talið frá árinu 1995 og því rýrnað stórlega frá þeim tíma.
Tollasamningur – áskorun og tækifæri
Óhætt er að fullyrða að tollasamningur íslands við ESB frá því í september síðastliðin er mikil áskorun fyrir nautgriparæktina. Ekki er vafi á að þeir auknu tollkvótar til innflutnings, m.a. á osti sem þar var um samið, muni hafa umtalsverð áhrif á innanlandsmarkaði. Á móti kemur talsverð rýmkun á tollkvótum okkar fyrir skyr til Evrópusambandsins og afar mikilvægt að vel takist til við að nýta þau markaðstækifæri. Fram hefur komið frá hendi Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að nýjum búvörusamningum og lagabreytingum sem honum fylgja, sé m.a. ætlað að vera mótvægi við tollasamninginn. Meginmarkmið þeirra breytinga sem lagt er upp með í búvörusamningum, er þó að efla íslenskan landbúnað og skapa greininni svigrúm til að þróast og nýta sem fjölbreyttust sóknarfæri. Til þess að það takist duga þó ekki ákvæði og fjármunir samningsins ein og sér. Stærsti áhrifavaldur þess að forsendur þess starfsumhverfis sem greininni er skapað nýtist til sóknar og bættra kjara er að samkeppnisstaða hennar styrkist. Í því efni er mest að sækja til ákvarðana okkar sjálfra, bæði á hinum félagslega vettvangi og heima á búunum sjálfum. Samstaða okkar um afurðavinnsluna spilar lykilhlutverk í því að markaðstækifærin skili ásættanlegum afrakstri í afurðaverði til bænda, þar skiptir mestu að heildarhagsmunir greinarinnar séu látnir ráða við ákvarðanir og markmiðssetningu.
Bylting í ræktunarstarfi
Þegar rýnt er í niðurstöður búreikninga kúabúa, sést greinilega hversu mikið er að sækja í bættri bústjórn. Þar ber breytilegi kostnaðarliðurinn svo sannarlega nafn með rentu, þar sem sjá má lítt skýrðan mismun milli búa sem nemur 30 – 40 kr/l, þar hljóta því einhverjir að eiga talsverða möguleka til bættra kjara. Annað er það atriði sem miklu skiptir um aukna hagkvæmni í reksti búana, en það er hið sameiginlega kynbótastarf kúastofnsins. Þar hefur sannarlega náðst mikill árangur síðustu áratugi. Almennt er viðurkennt að tilkoma sæðinga og djúpfrysting sæðis hafi markað þáttaskil í ræktunarstarfi kúastofnsins. Með þeim hætti er unnt að halda öllum stofninum sem einum erfðahóp, stunda raunhæfar afkvæmarannsóknir og ætternisúrval. Í kjölfar aukinnar þekkingar og rannsókna á sviði erfðagreininga, hefur á síðustu árum í auknum mæli rutt sér til rúms meðal nágranna þjóða að nýta úrval á grunni erfðamarka við kynbætur nautgripa. Þannig er hægt að kanna kynbótagildi gripanna skömmu eftir að þeir koma í heiminn. Með þeirri nákvæmni sem þessi aðferð gefur má stytta mjög ættliðabil, auka til muna öryggi við val nautsmæðra og hraða verulega kynbótaframförum. Er í þessu sambandi rætt um byltingu í rætunarstarfi. Nauðsynlegt er að skoða möguleika okkar til að nýta þessa tækni, hversu miklu þurfi að kosta til svo tæknin verði nýtanleg og hvort innleiðing hennar í kynbótastarfið sé líkleg til að skila ásættanlegum árangri.
Fjárfestingastuðningur tekinn upp
Eins og áður sagði er gert ráð fyrir stuðningi af nýjum samningi við fjárfestingar í aðstöðu fyrir nautgripi. Ljóst er að fjárfestingaþörfin er mikil næsta áratuginn ef mæta á auknum kröfum til aðbúnaðar gripanna. Fjós með nútíma tækni sem uppfyllir allar kröfur samtímans um aðbúnað og vinnuaðstöðu er hinsvegar mikil fjárfesting. Því er afar mikilvægt undirbúningur sé á öllum stigum vandaður bæði hvað varðar hönnun, framkvæmd og fjármögnun áður en hafist er handa. Þeirri hugsun verður ekki varist að í þessu efni hafi oft verið pottur brotin í gegn um tíðina, því verður að gera þá kröfu að góður undirbúningur sé ein af forsendum styrkveitinga.
Umhverfis- og loftlagsmál
En það eru fleiri þættir sem horfa þarf til og eru líklegir til að verða fyrirferðamiklir í umræðu um starfsumhverfi greinarinnar til framtíðar litið, þar á meðal umhverfis- og loftslagsmál. Ljóst er að landbúnaðurinn verður að láta þessi mál sig varða á komandi árum og taka þar frumkvæði í umræðunni. Horfa þarf til þess á þeim árum sem líða fram að endurskoðun samninga árið 2019, verði mótuð stefna í þessum málum og mið tekið af henni við þróun samningsins. Treysta þarf stöðu og þekkingu bænda sem vörslumanna landsins og gæða þess. Ásýnd og umhverfi er einn mikilvægasti hlekkurinn í ímyndarsköpun greinarinnar. Ástæða er til að velta upp þeirri spurningu, hvort taka eigi upp í einhverjum mæli stuðning í nautgripasamningi þegar yfirfærsla A-greiðslanna hefst í kjölfar endurskoðunar, sem styðji við slíkar áherslur.
Fjármögnun félagskerfis bænda
Samtök bænda standa frami fyrir krefjandi verkefni á komandi misserum, þegar búnaðargjaldið hverfur sem megin tekjustofn þeirra. Það má hverjum manni vera ljóst að ekki verður haldið uppi vörnum fyrir hagsmunum stéttarinnar með fjárvana samtökum, hvað þá að hægt verði að standa af nauðsynlegum krafti að samningagerð fyrir hönd greinarinnar. Án þokkalegrar þáttöku og samstöðu bænda um samtök sín mun stéttin eiga erfitt uppdráttar, félagsstörf af þessu tagi verða aldrei leyst á skotspónum, eða á samskiptamiðlun eigi ásættanlegur árangur að nást. Á síðasta Búnaðarþingi voru gerðar umtalsverðar breytingar á samþykktum Bændasamtakanna sem miða að töku félagsgjalds byggðri á frjálsri þátttöku félagsmanna. Þessi dægrin er að störfum starfshópur á vettvangi Landssambands kúabænda, sem ætlað er að skila inn tillögum fyrir komandi aðalfund um framtíðar starfsemi og fjármögnun samtakanna. Hvernig til tekst með að tryggja þátttöku bænda í þessum samtökum sínum við þessar breyttu aðstæður, verður svo að koma í ljós.
Aðalfundur og fagþing LK
Aðalfundur Landssambands kúabænda verður settur í ráðstefnusal Íslenskrar erfðagreiningar fimmtudaginn 31. mars n.k. Þann sama dag verður Fagþing nautgriparæktarinnar haldið með þremur málstofum þar sem m.a. verður fjallað um nautgriparækt á tímamótum. Að þessu sinni munum við fá sem aðal fyrirlesara Kees de Koning, forstöðumann Dairy Campus, Leeuwarden í Hollandi og mun hann fjalla um hollenska nautgriparækt, loftlagsáhrif nautgriparæktar og erfðatæknirannsóknir á fóðurnýtingu. Þá munu þau Emma Eyþórsdóttir og Jón Viðar Jónmundsson fjalla um úrval á grunni erfðamarka í nautgriparækt. Á fagþinginu verða auk þess fleiri spennandi erindi þar sem fjallað er um nautakjötsframleiðslu og bútækni. Aðalfundi LK verður síðan framhaldið síðdegis og daginn eftir á Hótel Sögu. Eins og komið hefur fram eru þann 4. apríl n.k. liðin 30 ár frá stofnun Landssambands kúabænda og verður þess minnst með margvíslegum hætti laugardaginn 2. apríl og þá um kvöldið verður síðan árshátíð kúabænda haldinn á Hótel Sögu.
Ágætu lesendur, á komandi aðalfundi verður að venju gengið til kosninga og fólk valið til trúnaðarstarfa fyrir samtökin næsta árið. Mér þykir rétt að geta þess nú að ég mun ekki gefa kost á mér áfram til formennsku fyrir Landssamband kúabænda. „Hratt flýgur stund“ er stundum sagt, en á komandi aðalfundi eru liðin 14 ár frá því að ég var fyrst kjörinn í stjórn samtakanna.
Með von um gæftir og góða tíð.
Sigurður Loftsson, formaður Landssambands kúabænda