Beint í efni

Vörn eða sókn?

19.02.2016

Íslensk nautgriparækt stendur á tímamótum, það er komið að endurnýjun búvörusamninga.


 


Umgjörð mjólkurframleiðslu hefur tekið litlum stakkaskiptum frá því í byrjun 10. áratugar síðustu aldar. Líkleg er að á næstu árum muni ytra umhverfi greinarinnar taka miklum breytingum sem einkum felast í stórauknum innflutningskvótum á bæði kjöti og mjólkurvörum. Samhliða því stendur greinin frammi fyrir uppbyggingu framleiðsluaðstöðu til að mæta kröfum nýrra tíma. Það er óhjákvæmilegt að þessa innflutnings sjáist merki í aukinni samkeppni og ljóst að við henni þarf að bregðast.


 

Bændur greinir á um hvernig takast skuli á við þetta verkefni og finnst mér standa upp úr að margir, ef ekki flestir, hræðist hið óþekkta. Ekkert skrítið við það. En verkefnið þarf að leysa og á þann hátt að íslensk nautgriparækt geti þrifist í landinu til framtíðar. Þetta sama verkefni lagði grunninn að þeirri tillögu um samningsmarkmið sem samþykkt var á síðasta aðalfundi LK, æðsta valdi félagsins. Samningsmenn okkar höfðu því þessa tillögu í farteskinu á fyrsta fundi samninganefndar í september. Á grunni hennar, ályktun Búnaðarþings 2015 og stjórnarsáttmála B og D (sem kveður á um að stækka og efla íslenskan landbúnað) var samningurinn rammaður eins og hann síðan var kynntur á fulltrúafundi LK og kynningarfundum vítt um land meðal bænda í nóvember.


 


Í kjölfar kynningarfundanna spunnust mjög harðvítugar umræður um hina sameiginlegu stefnumörkun samningsaðila, sem kynnt var á fundunum. Ýmsir fylltust af því sem þeim fannst réttlátri reiði og lýstu þeirri skoðun sinni að stjórn bæri, í ljósi alvarleika málsins, að hundsa ályktun síðasta aðalfundar. Umhugsunarvert. Að mér vitandi hefur engin marktæk könnun verið gerð á raunverulegum vilja allra félagsmanna LK (grasrótarinnar) og því í mínum huga algjör skylda stjórnar að lúta vilja aðalfundar, nú sem endranær.


 


Það er vissulega ekki sjálfgefið að fulltrúar á aðalfundi endurspegli meirihlutavilja kúabænda í landinu og því segi ég að þessi mótmælaalda hafi farið allt of seint af stað. Stjórnir allra/flestra aðildarfélaga hefðu átt, eftir viðræður heima í héraði, að beina því til stjórnar LK að kannaður væri vilji allra félagsmanna LK hvort hafa skyldi títtnefnda tillögu til hliðsjónar í viðræðum við ríkisvaldið eður ei. Þessi vinna átti að sjálfsögðu að fara í gang fljótlega eftir aðalfund, þar sem samningsmarkmið búvörusamninga voru kynnt í miðlum bænda strax í kjölfar aðalfundar. Hvort við værum í öðrum sporum í dag ef þetta hefði orðið skal ósagt látið.


 


Burtséð frá því hvað er hverjum að kenna þá er þessi harða umræða okkur skaðleg, mjög skaðleg og slæmt að við skulum ekki geta staðið vörð um framtíðarskipulag greinarinnar sem ein heild. Ýmsir hafa bent á að mikilvægt sé að almenn sátt ríki um nýja samninga (það er náttúrlega best) en ég tel útilokað að breið sátt náist um nauðsynlegar og tímabærar kerfisbreytingar, hvaða nafni sem þær nefnast.


 


En hvað er þá til ráða? Auðveldast er að breyta engu, um það gæti ríkt breiðust samstaða, en erum við ekki sammála um að núverandi kerfi sé gengið sér til húðar? Þá er vert að hafa í huga að óbreytt kerfi næsta áratuginn er einfaldlega ekki í boði. Því til sönnunar vil ég benda á hvernig tillögur aðalfundar sauðfjárbænda voru trakteraðar af ríkisvaldinu á fyrsta fundi. Álit Ragnars Árnasonar á  kostum kvótakerfis með frjálsu framsali, þar sem kosið er að horfa nær alveg framhjá kostnaðinum við það, finnst mér léttvægt í heildarmyndinni, sagan hefur kennt okkur hið gagnstæða.


 


Um hvað snýst þá málið? Í grunninn snýst ágreiningur bænda um þetta: Eitt verð eða tvö verð. Mér hefur um langt skeið fundist eðlilegt og sanngjarnt að það sé sameiginlegt verkefni allra mjólkurframleiðenda að tryggja afurðafyrirtækinu okkar nauðsynlegt hráefni, útilokað er að stilla svo strengi að framleitt magn sé á pari við sölu innanlands. Eitt verð þýðir að framleiðslustýring í gegnum kvótakerfi heyrir sögunni til. Það mun auka framleiðslu en aukin framleiðsla mun í nánustu framtíð renna styrkari stoðum undir rekstur MS (frá og með árinu 2017) sem þýðir að öllum líkindum betri afkomu bænda. Þau samningsmarkmið sem unnið hefur verið útfrá í samninganefndinni snúast að miklu leyti um þetta; búa greinina undir aukna samkeppni sem blasir við – auka samkeppnishæfi, gera bændum kleift að auka framleiðslu í takt við nauðsynlega uppbyggingu, hver fyrir sig, sækja fram á betur borgandi erlenda markaði (þeir eru vissulega til) og halda á lofti hreinleika íslenskrar búvöru, efla hagræðingu (það getur verið sársaukafullt) svo íslenskir neytendur fái notið góðrar vöru á viðráðanlegu verði við hlið innfluttrar vöru. Ef vel tekst til mun bændum hér á landi fækka hægar en ella mun verða. Við skulum samt ekki gleyma að okkar helstu bandamenn eru ánægðir, íslenskir neytendur. Óánægðir neytendur breytast á augabragði í fjandmenn, höfum það hugfast.


 


Samningar eru við það að verða undirritaðir af hálfu samninganefndar. Samningarnir fara síðan í ítarlega kynningu meðal bænda og fyrst þá er hægt að taka vitrænan þátt í umræðunni um kosti þeirra og galla. Margir fullyrða að þeir samningar verði felldir. Gott og vel, við búum í lýðræðisþjóðfélagi og lítið við því að segja. Ég hef þó þá trú, að flestir bændur vilji bíða með að taka afstöðu, þar til endanleg niðurstaða liggur fyrir. Ég óttast að ímynd okkar muni bíða hnekki ef samningar, sem innihalda umtalsverð útgjöld hins opinbera, verði felldir. Ég óttast ef hefja á nýja vegferð móti breyttum tímum með laskaða ímynd.


 


Eitt er víst að við getum alltaf lært af reynslunni. Mér er nokkuð hugleikið að sú umræða og umræðuhefð sem hefur tröllriðið öllu nú að undanförnu endurtaki sig ekki. Ein leið til þess gæti verið að fulltrúar aðalfundar geti, ef þeim sýnist svo, skotið stórum álitamálum, sem snerta hag bænda beint, til grasrótarinnar.


 


Verkefni framtíðarinnar hverfa samt ekki og því er spurning dagsins: Á að pakka saman í vörn eða hefja nýja sókn?


 


Góðar stundir


 


Trausti Þórisson, Hofsá.