Beint í efni

Þurfum að vera framsækin!

15.02.2014

Nú í upphafi nýs árs standa íslenskir kúabændur frammi fyrir ákveðnum tækifærum í fyrsta skipti síðan framleiðslustýring var tekin upp. MS hefur nefnilega gefið það út að greitt verði fullt afurðastöðvarverð fyrir alla mjólk sem framleidd verður á árinu 2014, vegna mikillar sölu.


 


Þetta eru miklar breytingar frá því sem við höfum upplifað síðustu ár. Nú þurfa kúabændur að vera framsæknir og skoða alla möguleika í sínum rekstri til að auka framleiðsluna. Jafnframt þurfa þeir að nýta aðstöðu í fjósunum sem hefur verið ónýtt. Og fyrir þá, sem vilja sökum aldurs eða af öðrum ástæðum hætta búrekstri, væri mögleiki að leigja reksturinn til nýliða í greininni. Einnig verðum við að skoða alla möguleika til að hagræða í rekstri búanna, því mér finnst ólíklegt að við munum sækja miklar hækkanir á mjólk á næstunni. Þannig verðum við með öllum ráðum að gera okkur samkeppnishæfari gagnvart þeim innflutningi á landbúnaðarvörum sem um er rætt þessa dagana.


 


En við þurfum að gæta okkar að festast ekki í því umhverfi sem hefur verið við lýði undanfarin ár, það er að segja í umhverfi framleiðslustýringarinnar. Það eitt mun leiða til stöðnunar í greininni. Þessi breyting, að geta nú framleitt alla mjólk á fullu afurðarstöðvarvarverði, er mikil breyting. Þessi breyting getur jafnvel tekið á taugarnar og verið allt að því stressandi fyrir bændur sem fengu mikla viðbót við framleiðsluréttinn, en hafa ef til vill hvorki hús né gripi til að auka við framleiðsluna.


 


Nú skora ég á bændur að leita til Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins með það fyrir augum að fá ráð um hvernig megi auka framleiðslu og bæta rekstur búanna. Geri þeir það mun það einnig styðja við að RML verði framsækið ráðgjafarfyrirtæki í eigu bænda, sem hefur það að leiðarljósi að skapa sem mest verðmæti í íslenskum landbúnaði.


 


Í ljósi þess að við lifum í heimi stöðugra breytinga held ég að sé rétt að við tökum þessu með opnum hug, og reynum þannig að takast á við verkefnin sem framundan eru. Við getum byrjað á því á aðalfundum félaganna sem fara fram í þessum mánuði og byrjun þess næsta. Mætum á fundina og ræðum málin á jákvæðan hátt. Það hjálpar okkur öllum að takast á við breytta tíma.


 


15. febrúar 2014


 


Jóhann Gísli Jóhannsson,


Breiðavaði og stjórnarmaður LK