Beint í efni

Staldrað við um áramót

01.01.2013

Segja má að tíðarfar liðins árs hafi verið nokkuð rysjótt á köflum og gæðum misskipt milli landshluta.Árið byrjaði með miklum umhleypingum og illiviðrum sem þó milduðust þegar á leið. Á útmánuðum skipti mjög um veðurlag og við tóku norðlægar áttir sem voru lengst af ríkjandi það sem eftir lifði árins. Vor og sumar voru óvenju sólrík bæði nyrðra og syðra. Þurrkar háðu jarðargróðri víða um norðan- og norðvestanvert landið og olli uppskerubresti. Um sunnanvert landið gætti þurrkanna einnig en víðast varð þó heyfengur mikill magni og gæðum og metuppskera fékkst af kornökrum. Óvenjulegt hríðarveður gerði á Norðurlandi snemma í september sem olli miklum fjársköðum og rafmagnsleysi auk samgöngutruflana. Þá hefur verið óvenju illviðrasamt framan af vetri og mikil snjóþyngsli um allt norðanvert landið.


 


Sala mjólkurafurða gekk afar vel á liðnu ári og talsvert umfram þær væntingar sem uppi voru þegar greiðslumark ársins var ákveðið. Þannig var 12 mánaða sala á próteingrunni eftir nóvembermánuð komin í 115,9 milljónir lítra og 114,5 milljónir lítra á fitugrunni. Sérlega ánægjulegt hefur verið að fylgjast með þeirri þróun sem verið hefur í fitusölunni, en fari sem horfir má reikna með að jöfnuður náist í sölu fitu og próteinis á þessu ári. Í þessu samhengi má geta þess að verðlagsárið 2004/2005 var sala mjólkur á fitugrunni 12,2 milljónum lítra minni en á próteingrunni, þannig að hér er ótvírætt um góðan árangur að ræða.

Í október s.l. var útflutningur mjólkurafurða síðustu 12 mánaða orðin 15,5 milljónir lítra á próteingrunni og 14,5 milljónir lítra á fitugrunni. Frá 1. september 2012 er útgefið verð afurðastöðva á umframmjólk 38 kr/ltr fyrir fyrstu 2% umfram greiðslumarkið og 33 kr/ltr fyrir allt innvegið magn umfram það. Þetta er talsvert lægra verð en greitt var á árinu 2011, sem helgast af því að enn sem komið er, fer megnið af umframmjólkinni úr landi sem undanrennuduft og smjör. Heimsmarkaðsverð þessara vara lækkaði ört á síðustu mánuðum ársins 2011 og fram á mitt síðasta ár. Það hefur heldur rétt úr kútnum frá því í ágúst s.l. og spáð er frekari hækkunum á þessu ári.Skyrútflutningur til Finnlands hefur gengið mjög vel og er nú svo komið að 380 tonna tollkvóti á þann markað var fullnýttur í lok nýliðins árs. Talsvert magn þurfti því að flytja út á fullum tollum í lok ársins til að sinna markaðnum og skilar það sáralitlu eða engu upp í hráefnisverð. Góð framlegð hefur verið af skyrútflutningi til Bandaríkjanna, en magnið sem þangað fer stendur hinsvegar í stað. Afar mikilvægt er að unnið verði markvisst að frekari markaðssókn erlendis fyrir íslenskar mjólkurvörur með það fyrir augum að hækka skilaverð.


 


Lágmarksverð mjólkur til bænda hækkaði þann 1. júlí s.l. um 2,80 kr/ltr, eða 3,6% og er þar með komið í 80,43 kr/ltr. Á sama tíma hækkaði vinnslu- og dreifingarkostnaður mjólkurafurða um tæp 4,4%. Síðustu ár hefur verið viðvarandi spenna í kostnaðarhækkunum þó styrking krónunnar s.l. sumar hafi tímabundið unnið þar á móti. Nú í haust og það sem af er vetri hefur þó sótt að nýju í sama far með hækkun aðfanga og ekki sér fyrir endann á því. Þrátt fyrir þetta eru þó greinileg batamerki í rekstri kúabúa frá því eftir hrun. Í niðurstöðum búreikninga fyrir árið 2011 sem kynntar voru nú í byrjun október kemur fram að búgreinatekjur hreinna kúabúa aukast um 9,4% og EBIDTA hækkar um 6,6%  milli árana 2010 og 2011. Skuldir lækka um 17,7% og munar þar trúlega mest um endurútreikning erlendra lána. Þá eykst fjárfesting um 30,6% á þessu tímabili og ekki verður annað séð en að fjárfesting hafi enn aukist á nýliðnu ári. Vissulega er þó enn talsverður hópur kúabænda sem glímir við þungan rekstur og erfiða skuldastöðu. Auk þess sem ekki er ljóst með hvaða hætti verður tekið á svo kölluðum biðlánum hjá þeim bændum sem farið hafa í gegnum sértæka skuldaaðlögun. Þannig eru, þrátt fyrir greinileg batamerki í afkomu greinarinnar, margir þættir afar brothættir og því mikilvægt, nú sem fyrr, að halda vel á málefnum greinarinnar á nýju ári.


 


Framboð og sala nautakjöts hefur verið viðvarandi góð síðasta ár, en síðustu 12 mánuði er sala á íslensku nautakjöti nálægt 4.160 tonn og hefur aldrei verið meiri. Eftirspurn virðist þó vera nokkuð meiri, enda ræðst salan nú um stundir fyrst og fremst af framboði sláturgripa. Þá hefur innflutningur nautgripakjöts verið talsverður, en þó mun minni en árið 2011. Skilaverð fyrir nautgripakjöt fór hækkandi fram á mitt síðasta ár og sem dæmi má nefna að frá því í janúar 2011 hefur verð á UN1A hækkað um 15%, sem verður að teljast jákvætt fyrir framleiðendur. Eftir sem áður er ástæða til að hafa talsverðar áhyggjur af stöðu greinarinnar næstu misserin. Má í því sambandi nefna að ásetningur nautkálfa til kjötframleiðslu hefur þróast með afar neikvæðum hætti allt síðasta ár og er þegar orðin talsvert mikið minni en undanfarin ár. Vafalaust skiptir slakur heyfengur um norðan- og vestanvert landið undangengin tvö ár miklu máli í þessu efni, auk þess að burðum virðist hafa seinkað og jafnvel fækkað frá fyrri árum. Ljóst er að þessi samdráttur í ásetningi mun að óbreyttu valda talsverðri niðursveiflu í framleiðslunni á síðustu mánuðum nýhafins árs og árið 2014. Þeim samdrætti verður varla mætt öðru vísi en með innflutningi og mjög er miður að íslenskir kúabændur geti ekki nýtt sér þau markaðstækifæri. Á grundvelli stefnumörkunar LK og ályktunar síðasta aðalfundar, hefur verið unnið að aðgerðum til að styrkja stöðu nautakjötsframleiðslunar. Eitt þeirra atriða sem miklu skipta í því efni er að fá nýtt erfðaefni til styrkja framræktun þeirra holdanautastofna sem í landinu eru. Starfandi hefur verið nú hátt á annað ár starfshópur um þetta efni á vegum ráðuneytis landbúnaðarmála, sem eftir því sem best er vitað hefur lokið sínu starfi. Enn ber þó ekkert á niðurstöðu hans og verður það að teljast með öllu óviðunandi. Þá hefur á vetvangi LK verið unnið að upptöku EUROP matskerfis fyrir nautakjöt, en miklu skiptir varðandi alla fagmennsku við þessa framleiðslu að hafa matskerfi sem gefur fullnægjandi skilaboð milli aðila á markaði. Nú í haust var leitað til Atvinnuvegaráðuneytisins vegna málsins og er það nú í þess höndum.  


 


Nú skömmu fyrir jól samþykkti Alþingi lagabreytingar sem tengjast framlengingu mjólkursamnings, en hann hafði áður verið samþykktur í almennri atkvæðagreiðslu meðal bænda. Afar mikilvægt var að ná fram þessari framlengingu samninganna á þessum tímapunkti, en með henni er bændum tryggður bærilegur fyrirsjáanleiki í rekstrarumhverfi sínu til ársloka 2016. Hitt skiptir þó ekki minna máli að samningsaðilar hafa skuldbundið sig til að fara í sameiningu yfir allar forsendur greinarinnar og reynsluna af gildandi samningi. Þeirri vinnu á að ljúka á þessu ári. Í framhaldi af því þarf síðan að marka nýja framtíðarstefnu sem hafa verður það markmið að auka samkeppnishæfni og treysta afkomu greinarinnar til framtíðar.


 


Íslenskir kúabændur hafa, vegna norðlægrar legu landsins og fjarlægðar frá öðrum löndum, jafnan talið sig nokkuð óhulta með búsmala sinn fyrir flestum þeim sjúkdómum sem herja á kýr starfsbræðra í nágrannalöndunum. Það var því greininni mikið áfall þegar fram kom við reglubundina sýnatöku að mótefni gegn smitandi barkabólgu reyndist í blóði hluta kúnna á Egilstöðum á Völlum. Þrátt fyrir ítarlegar rannsóknir og sýnatökur hafa ekki fundist merki um sjúkdómin annarsstaðar, að undanskildu einu tengdu tilfelli og ekki hefur tekist að greina veiruna til að sjá uppruna hennar. Fyrirskipaður hefur verið niðurskurður á öllum gripum búsins sem hafa mótefni veirunnar. Þetta er gert til að tryggja öryggi annarra nautgripa í landinu. Aðgerð af þessu tagi er stórt ígrip í rekstur þeirra bænda sem fyrir verða og tjónið ekki einvörðungu fjárhagslegt heldur einnig tilfinningalegt. Það er því grundvallarkrafa að þeim verði tryggðar ásættanlegar bætur. Í framhaldinu þarf svo að fara ítarlega yfir allar smitvarnir og verkferla til að hamla gegn atburðum sem þessum, en jafnframt þarf að ganga frá uppsetningu bótasjóðs, komi svipaðar aðstæður upp að nýju.  


 


Umgengni og aðbúnaður nautgripa varð talsvert til umræðu nú undir lok árs í kjölfar þess að MAST afturkallaði mjólkursöluleyfi tveggja kúabúa. Ástæðulaust er að elta ólar við það afhverju þessar aðstæður koma upp hjá viðkomandi bændum, þar að baki geta legið ýmsar ástæður. Íslenskir neytendur hafa reynst okkur kúabændum tryggir kaupendur og vörurnar notið trausts. Það er grundvallar atriði að þetta traust haldist, en reyndin er sú að það er mest undir okkur sjálfum komið hvort svo verður. Í tengslum við gerð nýrrar aðbúnaðarreglugerðar er nú unnið að gerð leiðbeiningar um góða framleiðsluhætti í samstarfi LK og SAM. Með þessum leiðbeiningum verður sett fram sú mynd sem við viljum að framleiðsla íslenskra nautgripaafurða búi við. Reiknað er með að næsti aðalfundur LK taki þessar leiðbeiningar til umfjöllunar og afgreiði fyrir sitt leyti.


 


Nú um áramótin var allt ráðgjafastarf sem áður heyrði undir BÍ og búnaðarsamböndin sameinuð undir einu sameiginlegu fyrirtæki, Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins ehf. Ráðnir hafa verið lykilstjórnendur hins nýja fyrirtækis og er þeim sem og öðrum starfsmönnum óskað velfarnaðar í starfi. Miklu skiptir að vel takist til þegar á fyrstu dögum hins nýja fyrirtækis og að frá upphafi verði eftirspurn og raunverulegur greiðsluvilji notenda látin móta þjónustuna.


 


Óska kúabændum og landsmönnum öllum gæfu á nýju ári.


 


Sigurður Loftsson, formaður Landssambands kúabænda.