Beint í efni

Pistill: Dönsku kýrnar stefna hratt í 12 tonna ársnyt

01.12.2020

Pistillinn er eftir Snorra Sigurðsson og birtist fyrst í 22. tölublaði Bændablaðsins 2020

Nautgriparækt og mjólkurframleiðsla á sér langa hefð í Danmörku en um þessar mundir eru liðin 125 ár frá því að markvisst skýrsluhald hófst í landinu með stofnun ræktunarfélaga en með því skapaðist grunnur að öflugu kynbótastarfi í búgreininni. Síðan fyrstu félögin litu dagsins ljós hefur mikið vatn runnið til sjávar og í dag er afurðasemi danskra kúa sú mesta í Evrópu að jafnaði en meðalnytin er nú komin yfir 10.500 kíló. Þá eru dönsku svartskjöldóttu kýrnar, sem eru hluti af ræktunarkjarna Holstein kúa í heiminum, með afburða meðalnyt og líklega þá næst hæstu í heimi sé litið til helstu mjólkurframleiðslulandanna og stefnir ársnyt þeirra hratt í 12 þúsund kíló.

Mikil fækkun kúabúa

Árið 1975 voru um það bil 45 þúsund kúabú í Danmörku með 3,6 milljónir nautgripa en í dag er þessi tala mun lægri eða um 3.500 bú og ekki nema 1,6 milljónir nautgripa. Þetta er mikil fækkun bæði búa og nautgripa en þrátt fyrir þessa miklu breytingu hefur mjólkurframleiðslan ekki minnkað á þessu tímabili og raunar vaxið! Nautgripakjötsframleiðslan hefur þó dregist saman af skiljanlegum ástæðum. Þessi þróun, sem er alls ekki óáþekk því sem við þekkjum hér á landi og raunar þekkist í svo til öllum Vestrænum löndum, hefur fyrst og fremst verið möguleg vegna mikilla framfara í bæði tækni og ræktun þar sem bændur, ráðunautar og vísindafólk hafa unnið saman að því að ná þeim árangri að auka nyt kúnna.

Skýrsluhaldið hornsteinn framfara

Ein af grunnforsendum þessa árangurs er þó skilvirkt skráningarstarf bænda við að skrá gripina, nyt og afdrif inn í hið sameiginlega skýrsluhaldskerfi. Dönsku bændurnir voru reyndar lengi vel heldur andsnúnir því að standa í skráningum og skýrsluhaldi almennt en eftir því sem árin liðu kom betur og betur í ljós hve mikill ávinningurinn var af því að vera með öflugt skýrsluhaldskerfi og því jókst áhugi bænda á því að vera með í kerfinu. Danska kerfið er nokkuð frábrugðið því sem þekkist í ýmsum löndum þar sem dönsku bændurnir greiða fyrir að taka þátt í skýrsluhaldi. Danir telja það farsælasta kerfið til að ná árangri því það leggur ábyrgð á herðar þeirra sem stjórna kerfinu um að þróa það stöðugt svo notendurnir fái nógu mikið út úr því.

Ráðgjöf og rannsóknir mikilvægar

Auk skýrsluhaldsins hefur það skipt danska kúabændur megin máli einnig að hafa aðgengi að öflugri ráðgjafastarfsemi auk þess sem háskólarnir tveir, í Kaupmannahöfn og Árósum, hafa báðir sérstakar búfjárdeildir sem sinna nautgriparæktarrannsóknum af miklum myndarskap þó svo að nokkuð hafi dregið úr rannsóknastarfsemi Kaupmannahafnarháskóla síðustu árin. Danskir bændur hafa flestir aðgengi að einskonar framleiðsluráðgjöf þar sem allt búið er undir og horft í raun á búið frá haga yfir í mjólkurbíl. Að hverju búi geta svo komið mismunandi ráðgjafar eftir því hvar þarf að bæta úr eða hvar hægt er að gera betur. Þetta getur snúið að fóðurframleiðslunni, kynbótunum, mjólkurgæðunum eða hverju því sem skýrsluhaldið sýnir að búið sé að dragast aftur úr öðrum dönskum búum.

Kvægdatabasen er lykillinn

Danir starfrækja, auk hins hefðbundna skýrsluhalds, afar öflugan gagnagrunn þar sem vistaðar eru, auk skýrsluhaldsupplýsinganna, upplýsingar afurðastöðvanna um innlegg búanna, skráningar dýralækna á vitjunum og heilsufarsupplýsingum búanna, sæðingaskýrslur, gripaskráningar hins opinbera og margt fleira. Þessi gagnagrunnur er kallaður Kvægdatabasen sem e.t.v. mætti kalla Nautgriparæktargagnagrunnurinn á íslensku en þetta kerfi er einstakt á heimsvísu þar sem öll gögn, bæði bænda, þjónustuaðila og hins opinbera eru sameinuð í einum og sama gagnagrunninum. Aðgengið að þessum víðtæku gögnum hefur komið danskri nautgriparækt í fremstu röð í heiminum sem er hreint mögnuð staða þessa litla lands. Gögnin gera það svo að verkum að hægt er, með afar öflugum og þróuðum hugbúnaði, að tvinna saman hin ólíku gögn og draga út helstu atriði þar sem búið víkur frá heildinni og hvar þurfi að beita kröftum bændanna hverju sinni. Danir kalla þetta ferli að nota stafræn gögn og niðurstöður líkana sem byggja á vísindum við bústjórn í stað stakra ákvarðana byggðum á upplifun eða tilfinningu bænda.

11.642 kíló mjólkur

En hvernig er þá staðan í dag í Danmörku? Eins og áður segir þá hefur kúnum fækkað mikið og búunum einnig en meðalafurðirnar vaxið. Þetta er þróun sem á sér svo sem stað um allan heim og er ekki sérstakt fyrir þær sakir. Það er þó þróunin sem hefur átt sér stað á síðustu 30 árum sem er einkar áhugaverð en árið 1991 var meðalbúið í Danmörku með 43 árskýr og meðalnytin, umreiknuð sem orkuleiðrétt mjólk, 7.029 kg. Alls ekki langt frá því sem er staðan á Íslandi í dag. Bústærðin jókst svo jafnt og þétt og afurðirnar líka og um aldamótin var meðalbúið í Danmörku komið í 67 árskýr og 7.719 kg meðalnyt (orkuleiðrétt). Áratug síðar hafði meðalbúið tvöfaldast að stærð og var komið í 139 árskýr og meðalnytin hafði stokkið upp í 9.399 kg orkuleiðréttrar mjólkur og nú er meðalbúið með 220 árskýr og 11.642 kg orkuleiðréttrar mjólkur. Þess ber að geta að þessar tölur eiga við um kúabú í hefðbundinni mjólkurframleiðslu en ekki lífrænt vottaðri mjólkurframleiðslu en meðalafurðir kúa á þeim búum eru að jafnaði nokkur hundruð kílóum minni.

Svipuð þróun hér á landi?

Það er áhugavert að bera saman þróun á meðalafurðum á milli Íslands og Danmerkur og þó svo að munur sé á afurðasemi ólíkra kúakynja þá er þróunin alls ekki ósvipuð. Árið 1991 voru meðalafurðirnar hér á landi 4.179 kg á árskúna (ekki orkuleiðrétt) og meðalbúið með 23 árskýr. Um aldamótin voru meðalafurðirnar komnar í 4.657 kg og meðalbúið þá með 26 árskýr. Áratug síðar voru meðalafurðirnar komnar í 5.342 kg og meðalbúið stokkið upp í 39 árskýr og um síðustu áramót voru afurðirnar að jafnaði 6.334 kg og árskúafjöldinn 48 kýr. Ef þessar afurðatölur eru bornar saman við dönsku þróunina þá voru danskar kýr (öll kúakynin) með að jafnaði 4.192 kg árið 1960 sem er ekki langt frá afurðunum hér á landi árið 1991. 11 árum síðar, árið 1971, voru dönsku meðalafurðirnar komnar í 4.660 kg sem eru svipaðar afurðir og voru hér á landi um aldamótin. Svo voru dönsku meðalafurðirnar komnar í 5.470 kg árið 1982 þ.e. ekki langt frá stöðunni eins og hún var hér á landi árið 2010. Árið 1987 voru dönsku meðalafurðirnar svo komnar í 6.391 kg sem er ekki langt frá síðustu áramótastöðu hér á landi. Af þessu sést að þróunin er alls ekki svo frábrugðin á milli landanna, íslensku kýrnar eru á sömu leið og þær dönsku en eru u.þ.b. 30 árum á eftir þeim. Þess ber þó að geta að upp úr 1990 tóku dönsku kýrnar að herða heldur á sér og eftir að hafa bætt við um 1.000 kg af mjólk á hverjum áratug fram að því liðu ekki nema 6-7 ár eftir það til að bæta við hverjum 1.000 kg af mjólk að jafnaði.

Hámarksgetu náð?

Þegar horft er til afurðasemi kúa og það óháð því kúakyni sem bændur ólíkra landa eru að nota þá er dagljóst að meðalkýrin á enn mikið inni af ónýttri erfðagetu til að framleiða meiri mjólk. Þetta sést ágætlega með því að skoða þann árangur sem bestu bú hvers lands eru að ná í samanburði við meðalbúin. Flestir eru að nota sama erfðaefnið og byggja bú sín á sæðingastarfsemi en munurinn á búunum felst oftast í mismunandi bústjórn. Ætla má að geta kúnna til að mjólka mikið sé til staðar í flestum kúm en það hvernig þær eru aldar, fóðraðar og almennt séð hirtar hefur mismikil áhrif til mögulegrar fullrar nýtingar á  þessari ætluðu afurðasemi. Þannig er í dag horft til þess að þegar Holstein kvígur fæðast í dag, þá séu þær með fræðilega getu til þess að mjólka 80-100 kg á dag að jafnaði en þeim árangri nær í raun ekki nokkurt bú í heiminum í dag með allar kýrnar sínar. Einstaka kýr ná því að mjólka í kringum 25 tonn og jafnvel upp í 30 tonn á einu mjaltaskeiði en því fer fjarri að allar kýrnar á búunum nái þeim árangri. Þannig eru bestu búin í heiminum í dag að ná 50-53 kg að jafnaði á dag og því eiga þau nú þegar töluvert inni og má skrifa ástæðu þess að ekki náist betri árangur að mestu á bústjórnina á búinu sjálfu en bústjórnin skiptir lang mestu máli þegar horft er til afurðasemi kúa, en vissulega hafa fleiri atriði áhrif einnig en vega mun minna. Þetta á vel við hér á landi einnig en bestu kýr landsins eru að ná rúmlega 14 tonnum í ársnyt og hafa hámarksafurðir kúa verið að aukast jafnt og þétt undanfarin ár. Það nær þó ekkert bú hér á landi þessum afurðum að jafnaði, rétt eins og á við um erlendu búin með erlendu kúakynin.

Af því gefnu að kynbótastarf haldi áfram að skila árangri er því alllangt í það að hámarks framleiðslugetu verði náð og mögulega næst hún aldrei hvorki hér á landi né erlendis. Afurðir munu halda áfram að vaxa bæði hér heima og erlendis og afurðasemi íslenskra kúa mun klárlega halda áfram að aukast á hverju ári á komandi árum og áratugum en líklega mun þó aldrei sá tími koma að íslensku kýrnar nái í skottið á hinum svartskjöldóttu dönsku kúm, enda eru þær með þeim bestu í heimi í dag og spáir greinarhöfundur því að ekki líði á löngu þar til þær hafi náð fyrsta sætinu af frænkum sínum í Ísrael.

Byggt á upplýsingum frá Henrik Nygaard (Kontrolforeningens 125 års jubilæum) auk gagna frá þeim Uffe Lauritsen og Guðmundi Jóhannessyni.