Beint í efni

PETA líkja kjötáti við reykingar smábarna!

09.08.2013

Umhverfissamtökin PETA, sem m.a. eru þekkt fyrir baráttu sína gegn loðdýrarækt og raunar einnig fyrir að vera dugleg að vekja athygli á sjálfum sér en minna fyrir árangur, hafa nú farið nýja og afar ósmekklega leið í baráttu sinni gegn búfjárrækt. Í nýrri auglýsingu PETA er nefninlega áti á kjöti líkt við reykingar smábarna!

 

Í hinni nýju auglýsingu, sem sýnir smábarn með logandi vindil í hendi, segja samtökin að át á kjöti auki líkur á hjartasjúkdómum og krabbameini líkt og reykingar. Til þess að auka enn frekar áhrifamátt auglýsingarinnar er þar sem áður segir sýnd mynd af barni með logandi vindil og við myndina stendur „Þú myndir varla leyfa barninu þínu að reykja?“.

 

Auglýsingin hefur nú verið bönnuð í Englandi enda byggir hún á vægast sagt hæpnum forsendum. PETA hafa nú gert aðra, sambærilega auglýsingu, sem samtökin segjast geta staðið við en þar er kjötið farið út en í staðinn búið að setja beikon, pylsur og aðrar unnar kjötvörur sem samtökin leggja sem sagt að jöfnu við reykingar barna/SS.