Beint í efni

Óvissa um framkvæmd á endurheimt votlendis

25.07.2019

Guðrún Vaka Steingrímsdóttir, lögfræðingur Bændasamtakanna, skrifar í Bændablaðið 25. júlí um lagalega óvissuþætti sem tengjast framkvæmd á endurheimt votlendis:

Óvissa um framkvæmd á endurheimt votlendis

Í ársbyrjun 2016 fól umhverfis­ráðuneytið Landgræðslunni umsjón með framkvæmd endur­heimtar votlendis í samræmi við sóknaráætlun Íslands í loftslags­málum. Votlendissjóður tók til starfa í apríl 2018 en tilgangur sjóðsins er að stuðla að endurheimt votlendis og draga með því úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ekki er í gildi ein heildstæð löggjöf um framkvæmd á endurheimt votlendis en skipulagslög, lög um mat á umhverfisáhrifum og lög um náttúruvernd taka til hennar að einhverju leyti. Þar spila sveitarfélög stórt hlutverk. Bændasamtökin hafa bent á mögulega hagsmunaárekstra milli bænda/landeiganda aðliggjandi jarða. 
 
Dæmi eru um að bændur standi frammi fyrir því að missa afnota- og eða beitarréttindi og að erfiðleikar myndist vegna smalamennsku. Auk þess getur skapast hætta á að búfénaður farist í dýjum eða pyttum. Fjölmargt er því óskýrt um framkvæmd og undirbúning endurheimtar votlendis og ljóst að álitamálum mun fjölga. Bændasamtökin leituðu af því tilefni til Skipulagsstofnunar í árslok 2018 með skriflega fyrirspurn í þremur liðum; (1) hvaða lög og reglur gildi um framkvæmdina og (2) hvert sé hlutverk sveitarstjórna, (3) hvort málið horfi öðruvísi við ef um er að ræða gróið land sem skipulagt er sem landbúnaðarsvæði samkvæmt deiliskipulagi og hvort Skipulagsstofnun hafi gefið þau skilaboð að framkvæmdaleyfi þurfi ekki í neinum tilvikum. Ef svo væri, hvaða rök lægju þar að baki. 
 
Endurheimt votlendis getur verið háð framkvæmdaleyfi
 
Í svarbréfi sem barst frá Skipu­lagsstofnun um hálfu ári síðar segir að skv. skipulagslögum og reglugerð um framkvæmdaleyfi liggi fyrir að endurheimt votlendis geti verið háð framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar. Það sé því eðlilegt að framkvæmdaraðili tilkynni sveitarstjórn þegar áformað er að endurheimta votlendi. Sveitarstjórn geti þá lagt mat á hvort hún skuli háð framkvæmdaleyfi eða ekki. Áður en til útgáfu þess kemur geti sveitarstjórn talið ástæðu til að kynna umsókn um leyfi fyrir hagsmunaaðilum, t.d. umráðamönnum aðliggjandi landsvæða. Að auki kom fram að sveitarstjórnir geti sett fram stefnu um endurheimt votlendis í aðalskipulagi. Við mótun í aðalskipulagi megi nýta skipulagsferlið til að eiga samráð við hagsmunaaðila um þau svæði sem til álita koma og draga fram líkleg áhrif á umhverfið og aðra landnotkun. Að lokum er vakin athygli á því að vinna við gerð viðauka við landsskipulagsstefnu þar sem mótuð verður vinna um loftslagsmál með tilliti til skipulagsgerðar og að meðal þess sem liggur beint við að tekið verði á þar sé nánari stefna og leiðbeiningar um hvernig fara skuli með áform um endurheimt votlendis í skiplagsáætlunum sveitarfélaga.
 
Undirbúningur er mikilvægur
 
Á heimasíðu Votlendissjóðs segir m.a. að mikilvægt sé að undirbúa endurheimt vel, leita þurfi samþykkis landeigenda og sátt þurfi að ríkja um fyrirhugaðar aðgerðir granna á milli, huga vel að því landi sem endurheimta á og meta hvort eitthvað muni fara forgörðum. Einnig að gæta verði að umferð búpenings og manna og sporna við slysahættu. 
 
BÍ vilja sérstakar reglur
 
Bændasamtökin telja nauðsynlegt að þar sem endurheimt votlendis á sér í raun ekki hliðstæðu þurfi að gilda um hana sérstakar reglur. Þrátt fyrir það sem segir á heimasíðu Votlendissjóðs um undirbúning endurheimtar er hvergi kveðið á um samráð eða samþykki í lögum eða reglugerðum. Óskað hefur verið eftir afstöðu Sambands sveitarfélaga til þessara atriða. 
 
Bændasamtökin munu fylgja málinu eftir enda er framkvæmd endurheimtar votlendis stórt hagsmunamál fyrir bændur og aðra landeigendur.
 
Guðrún Vaka Steingrímsdóttir, lögfræðingur BÍ.