Beint í efni

Óvenju margir fósturvísar í einni skolun!

08.11.2010

Samvinnufélagið VikingGenetiks, sem eins og áður hefur komið fram er í eigu kúabændanna í Finnlandi, Svíþjóð og Danmörku, sér m.a. um söfnun og sölu á nautasæði. Félagið selur einnig fósturvísa og rekur fósturvísaskolunardeildir í öllum aðildarlöndunum. 23. október sl. tókst óvenju vel til með skolun fósturvísa hjá Finnlandsdeildinni (Faba) þegar 40 nýtanlegir fósturvísar komu úr einni skolun! Að meðaltali koma um 8,8 nýtanlegir fósturvísar í hverri skolun hjá VikingGenetiks, svo að öllum má vera ljóst að um óvenju mikinn fjölda er að ræða þegar 40 

nýtanlegir fósturvísar nást.

 

Það var Holstein kýrin „K. Femme Fatale ET“ sem skilaði öllum þessum fósturvísum, en kýrin er í eigu bændanna Ulla Nissinen og Esko Ålander frá héraðinu Iisalmi í Finnlandi.

 

Femme Fatale er ein hæst dæmda Holstein kýrin á Norðurlöndum og er að sjálfsögðu nautsmóðir hjá VikingGenetiks. Á fyrstu 305 dögum fyrsta mjaltaskeiðsins skilaði hún hörku afurðum: 11.008 kg mjólkur með 4,70% fitu og 3,50% próteini! Femme Fatale er nú á öðru mjaltaskeiði.

 

Nautið sem Femme Falale var sædd með var hinn þrautreyndi „Big Time“, sem er í eigu bandaríska kynbótafyrirtækisins World Wide Sires. Big Time hefur hlotið sk. norrænan kynbótadóm, en VikingGenetiks selur sérstaklega sæði úr nautum með slíkan dóm, sem er að sjálfsögðu mikill gæðastimpill. Smelltu hér ef þú vilt sjá dóminn sem Big Time hefur fengið hjá VikingGenetiks.