Beint í efni

Ótvíræð áhætta fylgir innflutningi lifandi dýra

09.09.2015

Á meðan á aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu stóð, var Dr. Preben Willeberg frv. yfirdýralæknir í Danmörku og prófessor við Kaupmannahafnarháskóla beðinn um að semja áhætttumat fyrir íslensk stjórnvöld vegna innflutnings lifandi dýra í frjálsu flæði samkvæmt reglum ESB. Dr. Daði Már Kristófersson, landbúnaðarhagfræðingur hjá HÍ lagði mat á efnahagslegar afleiðingar þess ef garnaveiki í nautgripum bærist inn á íslensk kúabú.

Skýrslur Preben Willeberg og Daða Más voru kynntar í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í dag.    

Niðurstöðurnar rökstyðja kröfu um sérstakar reglur vegna innflutnings lifandi dýra
Í inngangi að skýrslunum, sem Halldór Runólfsson, ráðgjafi í atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu og fyrrum yfirdýralæknir ritar, kemur fram að niðurstöður áhættumatsins eru ákaflega hagstæðar málstað Íslands og munu koma að miklu gagni hvenær sem rökstyðja þarf þá meginkröfu Íslands að þörf sé á sérstökum reglum varðandi dýraheilbrigði við innflutning lifandi dýra.

Talið líklegt að erlendir sjúkdómar geri vart við sig ári eftir að innflutningur hefst
Meginniðurstaða áhættugreiningarinnar er að strax á fyrsta ári eftir að innflutningur hæfist væru miklar líkur á að sjúkdómar færu að gera vart við sig í íslenskum dýrum og að þessi áhætta myndi aukast með hverju ári þar á eftir. Samkvæmt greiningunni eru miklar líkur á að nautgripastofn garnaveikibakteríunnar og Salmonella Dublin bærist í nautgripi hér á landi og afleiðingar sýkinganna yrðu líklega miklar.

Jafnframt eru miklar líkur á að bakterían sem veldur Q-hitasótt berist í nautgripi, sauðfé eða geitur en afleiðingarnar aftur á móti ekki eins miklar. Miklar líkur eru taldar á að veirur sem valda mæði-visna og smitandi liða- og heilabólgu bærist í sauðfé og geitur hér á landi með innflutningi á lifandi dýrum og að afleiðingar þess yrðu alvarlegar. Sömuleiðis er samkvæmt greiningunni mjög líklegt að þeir þrír hrossasjúkdómar sem teknir voru fyrir bærust í hross með alvarlegum afleiðingum, segir í inngangi Halldórs Runólfssonar.

Í skýrslu Daða Más kemur fram að mikil óvissa sé falin í efnahagslegum áhrifum þess ef smit berst til landsins. Heildarkostnaður vegna garnaveiki í nautgripum gæti numið á bilinu 340 til 2.000 milljónum króna.  

  • Inngangur að skýrslunum

  • Skýrsla Preben Willeberg

  • Skýrsla Daða Más Kristóferssonar