Beint í efni

Óttast hertar kröfur um dýravelferð

07.12.2013

Bændur í Suður-Ameríku óttast að geta ekki staðist dýravelferðarkröfur Evrópusambandsins og að það muni fyrir vikið koma niður á möguleikum þeirra að afsetja kjöt á evrópska markaðinum. Reyndar eru kröfurnar í dag svo stórundarlegar að ekki eru gerðar jafn ríkar kröfur til innflutts kjöt og þess sem framleitt er innan landa Evrópusambandsins og raunar er staðan hér á landi nákvæmlega eins.

 

Stórar innkaupakeðjur í Evrópu hafa hins vegar sjálfar tekið af skarið og sett strangar kröfur um uppruna, aðbúnað og uppeldi gripa og hafa reglurnar sett strik í reikninginn hjá mörgum bændum innflutningslandanna. Innan WTO er þó enn ekki gerð krafa um dýravelferð og því má í raun flytja inn kjöt af skepnum sem haldnar hafa verið við hálfgerðar hörmungaraðstæður, svo fremi sem kjötið sé í lagi og slátrunin uppfylli kröfur.

 

Neytendasamtök margra landa, sem hafa áttað sig á mikilvægi dýravelferðar, hafa ýtt á að settar verði kröfur til innfluttra matvæla einnig og hafa hinar háværu raddir ýtt á breytingar innan WTO. Svo ekki verði settar of harðar kröfur þar á bæ hafa nú lönd Suður-Ameríku, með Úrúgvæ í broddi fylkingar, sett fram drög að lágmarkskröfum um aðbúnað og dýravelferð og reyna þar með að taka frumkvæðið í málefnum dýravelferðar.

 

Fróðlegt verður að fylgjast með því hvor það takist en stórlega má efast um það enda þær lágmarks kröfur sem gerðar eru til dýravelferðar í Evrópusambandinu langtum fremri þeim hugmyndum sem löndin í Suður-Ameríku hafa sett fram/SS.