Beint í efni

Óttast beinþynningu vegna rangs fæðis

29.04.2017

Ný bresk rannsókn, sem unnin var af þarlendu beinverndarsamtökunum, bendir til þess að ungt fólk sé í áhættuhópi á að fá beinþynningu þar sem fæða þeirra inniheldur of lítið af mjólkurvörum segir í frétt Farmers Weekly. Þar kemur fram að gerð hafi verið rannsókn á tvö þúsund manns sem hafi sýnt að fólk, yngra en 25 ára, sé líklegra til þess að taka mark á heilsufarsráðum sem það les á netinu frá misgóðum heimildum en aðrir í samanburðarhópnum. Svokallaðar falsfréttir eru víða og virðist þessi hópur eiga mun erfiðara með að skilja hismið frá kjarnanum en eldra fólk og reyndara.

Bresku beinverndarsamtökin ganga svo langt að segja að þau óttist hreinlega að misgáfulegar upplýsingar frá sjálfskipuðum sérfræðingum í matarræði og heilsu geti hafa alvarlega neikvæðar afleiðingar á beinheilsu þessarar kynslóðar. Alvarleikinn felst í því, segir Susan Lanham-New sem er prófessor í næringarfræði við háskólann í Surrey, að ef ungt fólk byggir ekki upp sterk bein fyrir þrítugt þá eru líkurnar meiri á að vandamál komi upp þegar það verður eldra/SS.