Beint í efni

Ótrúlegar afurðir!

16.08.2010

Þegar skoðuð eru gögn um afurðamagn kúa kemur fáum á óvart að svarskjöldóttar Holstein kýr tróna þar á toppi allra afurðalista. Fáar kýr í heiminum komast þó með klaufirnar þar sem hún Ever-Green-View My 1326-ET (sjá mynd) hefur lágklaufirnar. Kýrin, sem oftast er bara kölluð My 1326, mjólkaði á síðasta ári (365 daga nyt) 72.170 pund eða 32.805 kg. Alls skilaði hún 2.787 pundum (1.267 kg) af mjólkurfitu og 2.142 pundum (974 kg) af mjólkurpróteini. Ekki þarf að taka fram að um metafurðir er að ræða, en kýrin á einnig metið fyrir 305 daga afurðir fjögurra

ára kúa.

 

Á sínu fyrsta mjaltaskeiði mjólkaði hún 37.000 pund (16.818 kg) fyrstu 305 dagana og öðru mjataskeiði voru 305 daga afurðirnar komnar í 46.000 pund (20.909 kg). Þessi mikli afurðagripur kemur úr fjölskyldu gríðarlega mikilla afurðagripa, en kýr í þessari ætt hafa nú í fimm ættliði náð að fara yfir 50.000 pund á mjaltaskeiði (22.727 kg). My 1326, sem er núna 5 ára gömul, er undan nautinu Stouder Morty ET sem er þekktur tarfur ytra og undan honum hafa komið margar afurðakýr.

 

My 1326 er í eigu hjónanna Tom og Gin Kestell sem reka 130 kúa bú í Waldo í Wisconsin. 305 daga meðalnyt bús þeirra eru 35.151 pund (15.978 kg).

 

Þess má geta til samanburðar að afurðahæsta kýr Íslands núna, samkvæmt skýrsluhaldi BÍ, er kýrin Örk nr. 166 frá Egg, en 12 mánaða nyt hennar í lok júlí var 15.709 kg mjólkur. Örk er lang afurðahæsta kýr landsins um þessar mundir, en næst afurðahæsta kýrin er kýrin Þura nr. 435 frá Gunnbjarnarholti en 12 mánaða nyt hennar í lok júlí var 12.359 kg.