
Ótrúleg frjósemi hollenskra kúa
20.02.2018
Eftir að hollenska ríkisstjórnin setti stórauknar umhverfiskröfur á þarlendan landbúnað og setti kröfur um fækkun kúa, hefur það af einhverjum óútskýrðum ástæðum haft mikil áhrif á frjósemi kúnna í landinu! Opinberar kröfur um fækkun kúa hefur eðlilega leitt til þess að skráðum burðum hefur fækkað verulega en fjöldi fæddra kálfa er þó alls ekki í samræmi við færri burði heldur þvert á móti, svo virðist sem kýrnar sem bera nú sé einstaklega frjósamar og eigi oft þetta tvo til þrjá kálfa í einu!
Hingað til hafa kýrnar í Hollandi átt tvo eða fleiri kálfa í 3-5% tilvikanna en síðasta árið snarhækkaði þetta hlutfall í 10% á 2 þúsund kúabúum og á 5.700 búum lá þetta hlutfall á bilinu 5-10%! Líklegasta skýringin á þessari mögnuðu frjósemi er reyndar að líkindum falin í rangri skráningu á burðum en í sérstakri úttekt, sem gerð var á 93 kúabúum í liðinni viku, kom í ljós að á helmingi búanna hafði ekki verið staðið rétt að aldursskráningu gripanna. Þannig voru oft eldri gripir skráðir mun yngri en þeir augljóslega voru, en ástæðan er sú að hvert bú hefur sérstaka losunarheimild á fosfór og því eldri sem gripirnir eru, því meiri fosfór skila þeir frá sér og því reyna bændurnir að svindla á kerfinu með því að skrá gripina yngri. Ekki þarf að koma á óvart að nú hefur þessari leið til svindls verið lokað/SS.