Beint í efni

“Ótrúleg” áhrif tolls á verð kartafla

14.09.2022

Það hefur verið áhugavert að fylgjast með umræðunni um tolla á frönskum kartöflum undanfarna daga. Hún hefur aðallega verið leidd áfram af fólk sem telur sig eða íslensku þjóðina hafa mikla hagsmuni af afléttingu tollsins og máli sínu til stuðnings hefur verið vísað í ótrúlegar tölur og upphæðir. Svo virðist vera að ákveðinn misskilningur sé í gangi í umræðunni sem er þess virði að leiðrétta. Aðallega ber að nefna að upphæð tollgjaldsins er ekki hlutfall af verðinu sem okkur birtist út í búð, né er það hlutfall af verðinu sem verslunin greiðir fyrir vöruna frá heildsala. Tollgjaldið er reiknað ofan á innflutningsverðið sem, í flestum tilfellum, er umtalsvert lægri tala. Byrjum á að fara yfir hvernig verð á frönskum kartöflum verður til.

Yfirlit á frönskum kartöflum hjá íslenskri lágvöruverslun sýnir okkur að mjög algengt kílóverð þar sé um 750 krónur. Algengt verð á frönskum kartöflum frá framleiðanda er á bilinu 40-70 krónur fyrir kílóið og samkvæmt Hagstofu Íslands er meðal innflutningsverð (CIF) í þessum vöruflokki 193 krónur kílóið. 90% af öllum innfluttum frönskum kartöflum koma frá Evrópusambandslöndum eða Kanada, tollur frá þeim löndum er 46% ofan á innflutningsverð. Verðsamsetning á frönskum kartöflum út úr búð lítur því einhvern vegin svona út. Hlutfall tollgjaldsins af endursöluverðinu er 12% í þessu dæmi.

Nýlega steig íslenskur veitingamaður fram og sagði að ef þetta gjald yrði afnumið gæti hann lækkað verðið á einum skammt af frönskum um 300 krónur. Verðið á skammtinum er 995 krónur og má gróflega áætla að hann sé um 300 grömm, kílóverðið er því 3.316 krónur. 89 króna tollgjald er tæplega 3% hlutfall af verði veitingastaðarins en þá er spurning hvort að niðurfellingin muni leiða af sér 30% verðlækkun. Greinilegt að þarna er hugsjónafólk að verki sem ætlar að láta hné fylgja kviði og lækka eigin álagningu duglega komist þetta baráttu mál í gegn.

Þjóðar(hliðar)réttur íslendinga

Það verður þó ekki tekið af baráttufólki gegn tollvernd að vissulega er verið að leggja gjöld sem hækka verð til almennings. Sú aðferð er algeng, ein af stærstu tekjuliðum ríkisins sem þó er hægt að framkvæma bæði vel og illa. Þegar verið er að leggja gjöld á einstaka vörur þarf að hafa í huga hversu mikið verðhækkunin dragi úr eftirspurn hennar.

Í tilfellinu sem hér um ræðir virðist tollurinn ekki hafa mikil áhrif á neyslu vörunnar. Franskar kartöflur eru hinn klassíski hliðarréttur sem er innifalinn í flestum máltíðum matsölustaða og væri í raun rannsóknarvert hversu mikið af þeim fer til spillis. Á fyrstu sjö mánuðum þessa árs voru flutt inn 7,8 kíló af frönskum kartöflum fyrir hvern íbúa landsins sem gerir um 36 grömm á dag hvern.

Núverandi tollgjald, 46% af innflutningsverði, hefur verið við gildi síðan 2018 þegar nýr viðskiptasamningur við Evrópusambandið gekk í gildi. Fyrir það var gjaldið 76%, hlutfallið sem gjarnan er nefnt í umræðunni en á þó ekki enn við nema í undantekningartilfellum. Ef tollheimtan væri óhófleg hefði líklega mælst einhver aukning á innflutningi við þessa lækkun en innflutningur á mann hélst stöðugur 2016 til 2020 þrátt fyrir að breytingin hafi gengið í gegn.Sverrir Falur Björnsson - Hagfræðingur Bændasamtakanna