Beint í efni

Ostagerðum í Ítalíu lokað af yfirvöldum

30.05.2017

Heilbrigðisyfirvöld í Ítalíu lokuðu nýverið þremur ostagerðum í nágrenni við Rimini í norðausturhluta landsins. Var þetta gert vegna þess að framleiðsluaðstæður voru á engan hátt fullnægjandi og við skyndiheimsókn í afurðastöðvarnar kom m.a. í ljós að starfsfólk reykti þar sem ostarnir voru geymdir! Þess utan kom í ljós við úttektina hjá einni afurðastöðinni að þar var svindlað með geymsluþol osta með því að skipta um miða á ostunum og þá kom í ljós að víða var hreinlæti stórlega ábótavant og fundust bæði maðkaðar, myglaðar og rykugar geymslur.

Fleiri afurðastöðvar voru heimsóttar í átaki yfirvalda, en alls voru 40 afurðastöðvar heimsóttar. Auk hinna þriggja sem var hreinlega lokað, voru sex afurðastöðvar settar undir sérstakt eftirlit vegna framangreindra atriða. Að meira en fimmta hver heimsótt afurðastöð eigi í stórkostlegum vandræðum með hreinlæti er með ólíkindum og bendir til þess að víða sé maðkur í mysunni, í orðsins fyllstu merkingu, þegar matvælaframleiðsla Ítalíu er annars vegar/SS.