Beint í efni

Ostaframleiðendur í Sviss í vanda

02.09.2011

Frá ársbyrjun hafa fimm afurðastöðvar lokað í Sviss, en allar voru í ostavinnslu. Samdráttur í útflutningi á osti er skýringin á þessari döpru staðreynd samkvæmt upplýsingum frá SMP, samtökum mjólkurframleiðenda í Sviss. Samdráttinn má rekja til afar sterkrar stöðu svissneska gjaldmiðilsins sem gerir það að verkum að þarlendir ostar verða einfaldlega allt of dýrir í samanburði við osta sem framleiddir eru í öðrum löndum Evrópu.
 
Sterk staða gjaldmiðilsins, hins svissneska franka, bitnar sér í lagi á hinum dýra Emmental osti sem sést best í útflutningstölum. Heildarsamdráttur á sölu svissneskra osta til Evrópu, fyrstu fimm mánuði ársins, var ekki nema 3,7% en heil 19,5% á Emmental ostinum sem jafngildir 1.505 tonnum af þeim götótta osti! Í ljósi þessara sérstæðu aðstæðna er nú svo komið að nú er meira flutt inn til Sviss af osti en út úr landinu en heildarútflutningur á osti fyrstu sex mánuði ársins nam 23.966 tonnum en innflutningurinn var hinsvegar 24.679 tonn/SS.