Óska eftir að innleysa hlutabréf í Líflandi
10.05.2010
Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að stærstu eigendur í Líflandi hf. hafa óskað eftir að innleysa hlutabréf í félaginu á genginu 2,5. Þórarinn V. Þórarinsson lögfræðingur segir þetta gert vegna þess að einn aðili sé kominn með yfir 90% hlut í félaginu, en um 250 smáir hluthafar fari með liðlega 7% hlutafjár.
Lífland hét áður Mjólkurfélag Reykjavíkur. Það félag var samvinnufélag, en var breytt í hlutafélag fyrir nokkrum árum í kjölfar rekstrarerfiðleika og fékk þá nafnið Lífland. Langstærsti eigandi Líflands er Geri ehf. en stærstu eigendur þess eru Kristinn Björnsson, fyrrverandi forstjóri Skeljungs, og Þórir Haraldsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Líflands.