Ósamstaða sláturleyfishafa leiðir til lækkunar hjá Norðlenska
10.07.2002
Sláturhús Norðlenska hefur lækkað á ný verð á ungnautum, eftir að hafa hækkað verðin fyrir skömmu. Samkvæmt upplýsingum frá Norðlenska er ástæðan sú að þrátt fyrir að talið væri í júní að allar forsendur væru til hækkunar, hafi aðrir sláturleyfishafar en Norðlenska ekki hækkað verð sín. Þetta hafi leitt til þess að Norðlenska gat ekki fleytt verðhækkunum til bænda áfram á unnar vörur og því sé nauðsynlegt nú að draga verðhækkanir að hluta til baka.
Ósamstaða sláturhúsanna, sem flest eru í eigu bænda, hafi því leitt til þess að kúabændur verða nú enn á ný að taka á sig verðlækkun.
Samhliða þessum verðlækkunum hefur greiðslufrestur á kýrkjöti til bænda verið styttur í 14 daga, en eins og kunnugt er eru kýr staðgreiddar hjá sláturleyfishöfum á Suðurlandi.
Undanfarna mánuði hefur verið gríðarlegt tap á framleiðslu nautgripakjöts hjá kúabændum landsins og hafa þegar borist fregnir af því að bændur eru umvörpum að draga úr framleiðslu á nautgripakjöti. Ef fram fer sem horfir, blasir við mikill vandi á næstu árum í nautakjötsframleiðslunni.
Nánar má lesa um verð sláturleyfishafa í júlí hér.