Beint í efni

Öryggi faðernisfærslna í íslenska kúastofninum

11.01.2011

Í maí sl. lagði Guðný Harðardóttir fram B.Sc. verkefni sitt við Búvísindadeild Landbúnaðarháskóla Íslands. Verkefnið ber heitið Öryggi faðernisfærslna í íslenska kúastofninum – mat með samanburði örtunglagreininga og skýrsluhaldsgagna. Ágrip verkefnisins fer hér á eftir, en verkefnið í heild sinni er að finna hér. Leiðbeinendur voru Margrét Guðrún Ásbjarnardóttir og Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir.

 

Ágrip

Ræktunarstarf í íslenskri nautgriparækt felur meðal annars í sér að meta kynbótagildi gripa. Kynbótagildi er metið með BLUP-aðferðinni þar sem nýttar eru allar fáanlegar upplýsingar um hvern grip, s.s. eiginleika hans ásamt öllum upplýsingum um forfeður hans og afkvæmi. Mikilvægt er því að faðernisupplýsingar séu nákvæmar þar sem rangar ætternisfærslur leiða til skekkju í kynbótamati og geta þannig

dregið úr framförum í ræktunarstarfinu. Bændasamtök Íslands hafa nýlega hafið faðernisgreiningar með notkun örtungla á þeim nautum sem eru á nautastöð.

 

Markmið þessa verkefnis var að nýta þessar greiningar til að meta tíðni rangra faðernisfærslna meðal nauta á nautastöð og bera niðurstöðurnar saman við tíðni rangra faðernisfærslna meðal stofnúrtaks. Einnig var erfðabreytileiki metinn hjá nautunum með algengum breytileikastuðlum og skyldleikaræktarstuðul þeirra reiknaður bæði út frá örtunglagreiningum og ætternisgögnum. Þar að auki var samræmi milli burðar- og fangfærslna í skýrsluhaldinu skoðað fyrir tvö aðskilin ár.

 

Helstu niðurstöður verkefnisins voru þær að tíðni rangs faðernis (metin með samanburði á skráðu faðerni og niðurstöðum örtunglagreininga með 11 örtunglum) var 0,03 meðal 284 nauta á stöð og 0,17 í stofnúrtaki (47 kýr). Mat á erfðabreytileika nautanna sýndi að meðal séð arfblendni (H0) var 0,697 og væntanleg arfblendni (HE) 0,686. Skyldleikaræktarstuðull nautanna útfrá örtunglagreiningum var -1,4% en útfrá ætternisgreiningum 4,7%. Virk stofnstærð var metin 78 einstaklingar (95% öryggismörk voru 68,95 og 101,16).

 

Samanburður burðar- og fangfærslna sýndi að hlutfall rangra faðernisfærslna var 2,7% og 3,1% ásamt því að hátt hlutfall burða höfðu óvisst faðerni á bakvið sig.

 

Þessar niðurstöður sýna að auka þarf nákvæmni skráninga í skýrsluhaldi og haga sæðingarstarfi á þann veg að lágmarka megi óvissu um faðerni kálfa.

Faðernisgreining með örtunglum eru nákvæm aðferð og á hún fullkomlega rétt á sér við að sannreyna rétt faðerni nauta sem tekin eru á nautastöð og mæðra þeirra.