Órói á kornmörkuðum heimsins
17.03.2012
Samkvæmt nýrri spá Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) er nú ráðgert að á árinu verði uppskeran af hveiti með mesta móti en áætlað er að uppskeran fari í um 694 milljón tonn. Þetta er ekki nema um 7 milljón tonnum minna en í fyrra og eru það góð tíðindi enda stefnir í að þessu tvö ár verði með þeim bestu sem þekkjast á sviði kornframleiðslu.
Áhrif þessara tíðinda á heimsmarkaðsverð á korni eru þó ekki miklar enda enn langt eftir af árinu og skammtímaáhrif veðurfars hefur í raun meiri áhrif á kornverðið nú um stundir, sem og hugsanleg afskipti yfirvalda í fyrrum lýðveldum Sovétríkjanna eins og dæmin hafa sýnt frá síðasta ári.
Á sama tíma er einnig útlit fyrir að uppskeran á soja verði miklu minni í ár en undanfarin ár og er alls óvíst hvaða áhrif það mun hafa á markaðina þegar fram líða stundir. Líklegt er þó að verð á soja muni hækka þegar líður á árið en árið 2011 var verð á soja með lægra móti.
Þá hefur bandaríska matvælaráðuneytið nýverið bent á að notkun á korni í heild sinni síðustu mánuði hefur verið meira en spár gerðu ráð fyrir og því er birgðastaða margra korntegunda minni nú en áður. Á árinu munu þó hveitibirgðirnar aukast en það stefnir í að maísbirgðir heimsins muni minnka og verði þær minnstu í 40 ár. Nú þegar er fyrirséð að meiri eftirspurn verður eftir maís en framboð og hvaða þýðingu það hefur fyrir rest á markaðina er erfitt að sjá fyrir en líkurnar á hækkandi verði á maís hljóta að vera til staðar.
Á hinni hlið teningsins er svo sú staðreynd að matvælaframleiðsla heimsins þarf að stóraukast á næstu 18-20 árum. Samkvæmt FAO búa nú í heiminum uþb. 7 milljarðar manna sem nærast að jafnaði á 2.730 kcal á dag. Mannfjölda- og næringarspá gerir hinsvegar ráð fyrir að fjöldinn fari í um 8,3 milljarðar manna árið 2030 og að daglegur kcal fjöldi verði þa um 3.050 á dag. Það er því vart annað sjáanlegt í kortunum en að stóraukin eftirspurn eftir matvöru verði áfram og líkur á lækkandi matvælaverði eru hverfandi og mun líklegra að verð á landbúnaðarafurðum muni hækka vegna mikillar eftirspurnar/SS.