
Orlofsstyrkir fyrir bændur á öskusvæðunum
01.06.2010
Stjórn Orlofssjóðs bænda hefur ákveðið að styðja sérstaklega við bændur á áhrifasvæði eldgossins í Eyjafjallajökli. Með þessu vill sjóðurinn hvetja bændur og fjölskyldur þeirra á svæðinu til þess að taka sér orlof og hvíla sig fjarri rykmengun og erfiðum verkum.
Bændum á svæðinu býðst að sækja um sérstakan orlofsstyrk að hámarki kr. 82.500 á fjölskyldu miðað við 15 sólarhringa orlofsdvöl eða kr. 5.500 á sólarhring. Styrkþegi er ekki bundinn af því að nýta styrkinn til samfelldrar dvalar og hann getur nýtt fjármunina innan lands sem utan. Úthlutun í tengslum við gosið mun ekki hafa áhrif á framtíðarúthlutun úr sjóðnum.
Nokkur fyrirtæki hafa boðið þeim sem þiggja orlofsstyrki ýmis tilboð. Á Hótel Sögu og Hótel Íslandi mun bændaafslátturinn gilda í allt sumar auk þess sem gestir fá 2 fyrir 1 í mat á báðum stöðum. Ferðaþjónusta bænda veitir kr. 2.500 afslátt pr. mann á gistingu. Þjóðleikhúsið hefur ákveðið að bjóða bændum í leikhús og sama er að segja um Senu sem býður á bíósýningar í Borgarbíói á Akureyri og í Reykjavíkurbíóunum Háskólabíói, Regnboganum og Smárabíói. Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn opnar dyr sínar fyrir bændafjölskyldum af gossvæðinu í allt sumar og Knattspyrnusamband Íslands býður bændum á völlinn. Þá býður hvalaskoðunar- og skemmtisiglingafyrirtækið Elding í Reykjavík upp á ferðir í Viðey auk góðra afslátta á öðrum ferðum.
Nánari upplýsingar um sérstaka orlofsstyrki vegna gossins er að finna með því að smella hér en umsóknum skal skila á skrifstofu BÍ fyrir 15. júní nk.
Umsóknareyðublað
Úthlutunarreglur