
Örlítil hækkun á heimsmarkaðinum
24.01.2017
Í liðinni viku var haldið uppboð mjólkurvara hjá GDT (Global Dairy Trade) og hækkaði heimsmarkaðsverð mjólkurvara á þeim markaði um 0,6%. Það eru afar jákvæðar fréttir enda varð verðlækkun á fyrsta uppboði ársins eins og við sögðum frá fyrr í mánuðinum. Nokkuð misjafnt var á milli vöruflokka hve hækkunin var mikil en mest hækkaði þurrkuð mjólkurfita eða um 3,7%. Þá hækkaði smjör einnig nokkuð eða um 1,6% og Cheddar ostar um 1,3%. Alls fóru fram viðskipti með 22 þúsund tonn á þessu eina uppboði.
Svokallaður verðstuðull GDT hefur nú verið yfir 1.000 stigum síðan í nóvember sl. en þar á undan var hann síðast yfir 1.000 stigum í júlí árið 2014. Vegna þess hve stuðullinn hefur nú haldist hár í nokkra mánuði hafa afurðastöðvar víða um heim hækkað afurðastöðvaverðið, enda ekki vanþörf á en um mitt síðasta ár var afurðastöðvaverðið að jafnaði lægra en það hefur verið í rúman áratug hjá flestum stærri afurðafélögum heimsins.
Þeim sem kunna að hafa nánari áhuga á þróun heimsmarkaðsverðsins má benda á einkar upplýsandi heimasíðu GDT: www.globaldairytrade.info /SS.