Örk gefur eftir í baráttunni við Þuru
15.09.2010
Niðurstöður skýrsluhaldsins fyrir ágúst eru nú komnar út hjá BÍ. Alls komu 610 bú til uppgjörs og eru það hlufallsleg skil upp á 93% en í ágúst árið 2009 komu til uppgjörs 92% skýrsluhaldsbúanna. Alls eru skýrslufærðar 22.473 árskýr, sem er fjölgun um 217 árskýr frá fyrra mánuði . Ólíkt fyrri mánuðum sveiflast meðalnytin nú lítið á milli mánaða en nytaukning frá fyrra mánuði nemur 7 kg, en en sl. 12 mánuði mældist meðalnytin 5.334 kg/árskú. Samtals reiknast nú
18 bú yfir 7.000 lítra meðalnyt sem er einu búi fleira en var í júlí.
– Mestar meðalafurðir búa með færri en 40 árskýr eru á bænum Tröð en þar er meðalnytin 7.848 kg og árskúafjöldinn 24,7.
– Mestar meðalafurðir búa með 40-80 árskýr eru í Reykjahlíð en þar er meðalnytin 7.561 kg/árskúna og árskúafjöldinn 56,8.
– Mestar meðalafurðir búa með fleiri en 80 árskýr eru í Gunnbjarnarholti en þar er meðalnytin 7.508 kg/árskúna og árskúafjöldinn 109,6.
Afurðahæsta kýr landsins er sem fyrr Örk Almarsdóttir frá bænum Egg, en sl. 12 mánuði mjólkaði hún 14.339 kg og gefur hún verulega eftir í afurðum frá fyrri mánuði er hún skráðist með 15.709 kg. Þura Draumsdóttir frá Gunnbjarnarholti heldur hinsvegar áfram að bæta við afurðir sínar, en sl. 12 mánuði mjólkaði hún 12.636 kg en í júlí voru 12 mánaða afurðir hennar 12.359 kg.
Fram kemur í yfirliti BÍ að 8 kýr á landinu mjólkuðu meira en 11 þúsund lítra sl. 12 mánuði að Örk meðtalinni. Þar af er helmingur þeirra frá tveimur kúabúum, Gunnbjarnarholti og Syðri-Bægisá. 39 kýr mjólkuðu á bilinu 10-11 tonn.
Allar nánari upplýsingar má lesa á upplýsingasíðu BÍ um skýrsluhaldið með því að smella hér.