Orðsending frá Mjólkurbúi Borgfirðinga
03.01.2006
Skrifstofu Landssambands kúabænda hefur borist orðsending frá Mjólkurbúi Borgfirðinga, sem send var til félagsmanna þess í desember. Fylgir hún hér á eftir:
ORÐSENDING
Til félagsmanna MBB frá stjórn félagsins.
Forsvarsmenn MJÓLKU ehf hafa undanfarið reynt að fá félagsmenn MBB til að leggja inn mjólk hjá fyrirtækinu og boðið að einhverju marki hærra verð en lögbundið lágmarksverð skv. ákvörðun Verðlagsnefndar.
Við því er að búast að einhverjir séu að hugleiða að taka því boði. Því vill stjórn MBB benda á nokkur atriði þessa máls svo menn geti betur glöggvað sig á þýðingu þess.
Íslenskur mjólkuriðnaður býr við mikil opinber afskipti. Verðlagsnefnd ákveður lágmarksverð á mjólk frá bændum og heildsöluverð ýmissa mjólkurvara, sem vega þungt í neyslunni, s.s. nýmjólkur, léttmjólkur, undanrennu, smjörs, fastra osta o.fl.
Í störfum nefndarinnar hafa fulltrúar neytenda lagt ofuráherslu á að halda verði á þessum vörum niðri. Því hefur iðnaðinum tekist að mæta með ýmsum aðgerðum til hagræðingar og sparnaðar annars vegar og árangursríku markaðsstarfi og öflugri vöruþróun hins vegar, með þeim árangri að undanfarin ár hefur mjólkurneysla aukist og jafnframt verið unnt að greiða bændum fyrir innlagða mjólk umfram lágmarksverð nefndarinnar.
Sá árangur hefur byggst á góðri samheldni meðal iðnaðarins og bænda.
En þessi vinnubrögð nefndarinnar hafa leitt til mikils ósamræmis milli vöruflokka á þann hátt að grunnvörurnar hafa setið eftir í verðlagningu og skapað þannig nýjum aðilum færi á að fleyta rjómann af markaðnum í orðsins fyllstu merkingu með því að einbeita sér að framlegðarháu vörunum.
Forsvarsmenn Mjólku virðast nú ætla að nýta sér þetta.
Það gefur auga leið að með tilkomu Mjólku mun heildarkostnaður við mjólkurvinnslu á landinu aukast án þess að tekjurnar vaxi tilsvarandi og heildarafkoman því versna. Sá tekjuauki sem Mjólka lofar sínum innleggjendum verður því tekinn frá öðrum bændum.
Að síðustu viljum við minna á það, sem kannski er ekki öllum nógu ljóst, að félagsaðilar MS eignast hlut í félaginu með framlagi sínu í stofnsjóðinn.
Sú eign kann að fela í sér veruleg verðmæti umfram það sem krónutalan gefur til kynna.
Við teljum mikilvægt að allir geri sér grein fyrir þessari stöðu áður en þeir ákveða að flytja viðskipti sín til Mjólku og rjúfa þannig þá samstöðu, sem hefur skilað okkur svo mikilvægum árangri á umliðnum árum.
Með bestu óskum um gleðilega hátíð og færsælt nýtt ár.
Í desember 2005
Ásbjörn Pálsson Guðrún Sigurjónsdóttir Pétur Diðriksson
Jón Gíslason Guðmundur Þorsteinsson