Orðsending frá LK til kúabænda
10.10.2001
Bráðabirgðatölur um innvigtun mjólkur í september liggja nú fyrir. Samkvæmt þeim var innvigtun í september aðeins 7,2 milljónir lítra, sem er þá lægsta mánaðarinnvigtun síðan núverandi framleiðslustýring var tekin upp árið 1992. Á það skal minnt að ráðstöfun C-greiðslna verður með öðrum hætti á yfirstandandi verðlagsári en verið hefur undangengin ár, þannig að greiðslur á vetrarmjólk lækka en teknar verða upp greiðslur á mjólk innvegna í júlí og ágúst.
Með hliðsjón af þróun innvigtunar í júlí, ágúst og september síðustu ár, virðist ljóst að greiðslur á vetrarmjólk verða enn lækkaðar verðlagsárið 2002/2003, og fluttar á mánuði með lægri innvigtun. Svo virðist sem að árið 2000 hafi u.þ.b. 41 % af skýrslufærðum kúm borið í september, október og nóvember. Betra væri ef hluti af þessum kúm bæri fyrr, þ.a. í ágúst og vorbærum má frekar fjölga en fækka. Þar sem bændur fara nú leggja drög að framleiðslu verðlagsársins 2002/2003 er rétt að hafa þetta í huga, sérstaklega ef möguleiki er á að kvígurnar beri þá í ágúst í stað október.