Beint í efni

Opinn landbúnaður – vorheimsóknir í sveitina

25.03.2008

Vorheimsóknir skólabarna í sveitina eru hafnar enda sauðburður víða kominn af stað. Árlega hafa bændur í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og Akureyrar tekið á móti hópum á vorin og frætt þá um sveitastörfin. Bændur taka á móti pöntunum en á einhverjum bæjum er nánast upppantað fyrir vorið. Því er rétt að hvetja þá sem ekki hafa ennþá rætt við bændur um sveitaheimsóknir með leik- og grunnskólabörn af hafa samband sem fyrst. Upplýsingar um bæina sem taka á móti hópum er að finna á vef Opins landbúnaðar með því að smella hér

Sveitaheimsóknin er gott tækifæri til að þroska tilfinningu barnanna fyrir vistfræði og umhverfisþáttum, en ekki síður sögu og örnefnum. Bændurnir geta oft upplýst margt um nágrenni sitt, samhengið í vistkerfinu og sögu staðarins, ekki síður en um búskapinn. Athugið að ekki er alltaf hægt að skoða allar búgreinar. Hefðbundinn búskapur með sauðfé og nautgripi er yfirleitt aðgengilegur en loðdýrabú, fugla- eða svínabú eru yfirleitt ekki opin fyrir hópheimsóknir, m.a. vegna smithættu og truflunar.

Hafið samband við húsráðendur með góðum fyrirvara til að sammælast um dag- og tímasetningu. Þið þurfið að greiða fyrir hvern gest við upphaf eða lok heimsóknar (gjaldið er mismunandi á milli bæja). Best er að umsjónarmaður hópsins sjái um að safna saman í þessa greiðslu áður en komið er á staðinn. Umsjónarmaðurinn er vinsamlegast beðinn um að fylla út heimsóknareyðublað og afhenda það gestgjafanum. Það er nauðsynlegur liður í skýrsluhaldi og uppgjöri við bændur.