
Opinn landbúnaður kynntur víða
08.05.2009
Út er kominn bæklingurinn „Upp í sveit 2009“ en þar eru birtar upplýsingar um bæi í Ferðaþjónustu bænda, Beint frá býli og í Opnum landbúnaði. Þetta er í fyrsta sinn sem þessir þrír aðilar vinna saman að kynningarstarfi á gistingu, mat og afþreyingu í sveitinni.
Opinn landbúnaður er á vegum Bændasamtakanna en hann gengur út á að opna býlin fyrir gestum og kynna íslenskan landbúnað. Nú eru alls 34 bæir sem starfa undir merkjum Opins landbúnaðar en í fyrra komu alls um 37 þúsund manns í heimsóknir á bæina.
Beint frá býli stígur nú sín fyrstu skref í kynningarstarfi en 36 bæir í félaginu kynna það sem þeir hafa á boðstólum í bæklingnum. Bændasamtökin eru í samstarfi við BFB en Árni Snæbjörnsson ráðunautur er félaginu innan handar.
Upp í sveit 2009 verður hægt að nálgast fljótlega á öllum helstu ferðamannastöðum landsins, á bensínstöðvum og öðrum opinberum stöðum. Frumsýning á honum er þó á sýningunni „Ferðalög og frístundir“ sem haldin verður í Laugardalshöll helgina 8.-10. maí. Þar verða Ferðaþjónusta bænda, Opinn landbúnaður og Beint frá býli með veglegan kynningarbás.
Sýningin verður opin sem hér segir:
Föstudag 8. maí kl. 16.30-19.00
Laugardag 9. maí kl. 11-18
Sunnudag 10. maí kl. 11-17