Opin fjós á fjórum bæjum í Eyjafirði
27.04.2006
Á morgun, föstudaginn 28. apríl n.k. munu fjögur fjós, á Hrafnagili, Breiðabóli, Halllandi og Holtsseli, opna dyr sínar fyrir gestum og gangandi frá 12.00-17.00. Norðurmjólk býður upp á léttar veitingar á hverjum stað og þeir sem vilja geta keypt sér ís á einu búinu.
Bræðurnir Grettir og Jón Elvar tóku í notkun mjaltahringekju á Hrafnagili í Eyjafjarðarsveit í janúar s.l., byggðu 440 m2 límtréshús með upphitun í gólfi tengt fjósinu undir herlegheitin. Byggingin hýsir einnig mjólkurhús fyrir 10.000 lítra tank auk annarrar aðstöðu sem eftir er að ganga endanlega frá. Hrafnagilsbúið er lang stærsta mjólkurframleiðslubú landsins og um 140 kýr eru mjólkaðar þar daglega. Hringekjan tekur 30 kýr í einu, er 17 metrar í þvermál og staðið er inni í henni við mjaltir. Mjaltamaðurinn stendur alltaf á sama stað þar sem hann þvær kýrnar og setur á þær tækin en kýrnar sjálfar hreyfast og sjálfvirkur aftakari sér um tækin þegar búið er úr kúnum.
Þess má geta að ábúendur fengu hvatningarverðlaun B.S.E. á dögunum.
Hjónin Gylfi og Linda búa á Breiðabóli á Svalbarðsströnd og tóku semma á árinu í notkun 620 m2 límtrésbyggingu, áfasta gamla fjósinu. Í nýbyggingunni eru legubásar og lausaganga ásamt rúmgóðum fóðurgangi, mjaltaaðstaðan er áfram nýtt í norðurenda gamla fjóssins því þar er nýlegur láglínu mjaltabás. Alls eru legubásarnir 62 fyrir kýrnar. Mikil áhersla hefur verið lögð á góðan aðbúnað fyrir gripi í uppeldinu; legubásar mismunandi að stærð fyrir mismunandi aldur á kvígunum ásamt stíum þar sem hálmur er notaður sem undirburður. Loftræstingin er náttúruleg. Um er að ræða ljósmæni, ferskloftslúgur og sjálfvirka veðurstöð.
Bræðurnir Máni og Guðmundur búa, ásamt konum sínum Hólmfríði og Láru, að Halllandi á Svalbarðsströnd. Þar var tekið í notkun fyrir ekki löngu síðan glæsilegt 450 m2 geld-neytafjós, 12×36 metra stálgrindahús, en Halllandsbúið hefur um árabil verið með töluverða kjötframleiðslu samhliða mjólkurframleiðslunni. Breiður fóðurgangur gengur eftir endi-löngu húsinu og 3,70 metra djúpt haughús liggur undir öllu. Loftræstingin er náttúruleg. Mjólkurkálfarnir eru í gamla fjósinu þar sem hitastigið er hærra en þessi bygging hýsir mest geldneyti til kjötframleiðslunnar, einhverjar kefldar kvígur eru þarna líka. Á svæði Norðurmjólkur er byggingin með stærri geldneytafjósum.
Hjónin í Holtsseli í Eyjafjarðarsveit, þau Guðmundur og Guðrún, bættu nýrri framleiðslu við mjólkurframleiðslu sína á dögunum þegar þau tóku í notkun nýja ísgerðarvél. Henni hefur verið komið fyrir í þar til gerðu innréttuðu rými í hlöðu búsins. Ísinn er gerilsneyddur og án allra aukaefna, hrein náttúruafurð. Vélin sjálf til ísgerðarinnar er mjög fullkomin og hægt er að velja um mjög margar og mismunandi uppskriftir. Í vetur lauk jafnframt breytingum í fjósi og hlöðu sem breytt var í lausagöngu- og legubásasvæði.
Nánari upplýsingar gefa Kristján Gunnarsson hjá Norðurmjólk , Sigríður Bjarnadóttir í Búgarði og Þorsteinn Rútsson á Þverá.
Heimild: www.nordurmjolk.is