
Opið hús í kennslu- og rannsóknafjárhúsum LbhÍ á Hesti í Borgarfirði laugardag 4. apríl
03.04.2009
Landbúnaðarháskóli Íslands verður með opið hús í kennslu- og rannsóknafjárhúsunum að Hesti í Borgarfirði laugardaginn 4. apríl. Nú eru liðin tvö ár frá opnu húsi á Hesti og rétt eins og þá verða m.a. kynnt rannsóknaverkefni í sauðfjárrækt og jarðrækt á vegum LbhÍ og samstarfsaðila, auk fyrirhugaðra verkefna á komandi misserum. Nám við LbhÍ verður kynnt auk þess sem lambhrútar verða til sýnis og annað fé. Efnt verður til ýmsa uppákoma yfir daginn sem ætlaðar eru bæði börnum og fullorðnum. Boðið verður boðið upp á skemmtilegar þrautir tengdar sauðfjárbúskap.
Fjöldi bænda og áhugafólks um sauðfjárrækt hefur komið á opin hús að Hesti á liðnum árum og var aðsóknarmet slegið árið 2007. „Við fengum á sjöunda hundrað gesti og þetta gerðist þrátt fyrir að veðrið væri hörmulegt,“ sagði Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri búrekstrarsviðs LbhÍ og bætir við að nú sé reiknað með mun fleirum. „Fyrir nokkrum árum var skipulagi opna dagsins breytt og fyrirtækjum og stofnunum gefið tækifæri til að kynna sig og sínar vörur. Síðast tóku á þriðja tug aðila þátt í opna húsinu á Hesti.“
Snorri sagði að þar sem pláss væri takmarkað þyrftu þeir sem ætluðu að sýna að panta sér aðstöðu sem fyrst. Hann vakti athygli á því að ekkert sýningar- eða fermetragjald er innheimt hjá samstarfsaðilum LbhÍ. Nú verða m.a. kynnt lamba- og ásetningsmerki frá nokkrum aðilum, fóður og fóðurbætir, áburður, fjórhjól, mjaltavélar fyrir sauðamjaltir, dekk, heitir pottar, klippur og fylgihlutir, ýmsar sauðburðar- og smávörur fyrir fjárbú, gjafagrindur m.m., dráttavélar, kerrur, heyvinnutæki, afrúllarar, bankaþjónusta, þjónusta BÍ og búnaðarsambanda, smalahundar, ullarvörur og ýmislegt annað!
Meðan húsrúm leyfir geta allir fengið pláss fyrir kynningar. Nánari upplýsingar gefur Snorri í síma 843-5341 eða með tölvupósti: snorri@lbhi.is