Ólögleg vaxtarhvetjandi efni í írskum nautgripum
16.08.2016
Þrátt fyrir að hið vaxtarhvetjandi efni clenbuterol hafi verið bannað innan Evrópusambandsins síðan 1996 hafa írsk yfirvöld fundið efnið í 27 nautgripum. Nautgripirnir voru teknir í tilviljunarkennda úttekt yfirvalda sem leiddi þetta í ljós. Allir nautgripirnir voru frá sama búinu og voru gripirnir aflífaðir og þeim fargað.
Rannsókn á búinu, sem framkvæmd var af lögreglu, leiddi einnig í ljós miklar birgðir af efninu sem að sjálfsöðgu var gert upptækt. Þetta er í annað sinn á einungis tveimur árum sem úttektir í Írlandi hafa leitt í ljós ólöglega notkun á vaxtarhvetjandi efnum en árið 2014 fundust 13 nautgripir sem höfðu fengið clenbuterol. Þeir nautgripir voru einnig teknir í svokallað tilviljunarkennt úrtak og telja yfirvöld að hætta sé á að notkun á þessu ólöglega efni sé mun útbreiddari en áður var talið/SS.