Beint í efni

Olíufélögin þyrla upp ryki

19.08.2008

Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með viðbrögðum olíufélaganna vegna fréttar hér á síðunni frá 13. þ.m. um aukna álagningu olíufélaganna, í þessu tilfelli á litaða dieselolíu. Í hádegisfréttum RUV í gær viðurkenndi Már Erlingsson, fjármálastjóri Skeljungs að álagningin hefði hækkað þar á bæ að undanförnu. Heiðarlegt svar. Viðbrögð Elíasar Bjarna Guðmundssonar, framkvæmdastjóra fjármálasviðs N1, í 24stundum í dag (bls. 6) eru hins vegar öllu lakari. Hann segir útreikningana fráleita og uppfulla af staðreyndavillum. Að auki sé „bara verið að skoða heimsmarkaðsverð á olíu og gengi krónunnar“. Þessi ummæli gefa talsvert tilefni til að ætla að Elías hafi ekki einu sinni haft fyrir því að kynna sér málið. Þau eru því í besta falli fljótfærnisleg tilraun til að slá ryki í augu lesenda. 

Þeir útreikningar sem framkvæmdir voru byggja á gögnum frá Hagstofu Íslands um innkaupsverð á dieselolíu, vörugjald til hafnar og útsöluverð á litaðri dieselolíu. Allt í íslenskum krónum. Álagning olíufélaganna, til að mæta rekstrarkostnaði og skapa hluthöfum þeirra arð, er útsöluverð (án vsk.) að frádregnu vörugjaldi og innkaupsverði. Það er engum blöðum um það að frétta að þessi álagning hefur hækkað um nærri fjórðung að undanförnu, og fyrir þeirri hækkun er harla lítil innistæða.

 

Engar fullyrðingar hafa verið settar fram um hagnað þessara félaga, enda er það önnur deild. Í útreikningunum eru engar „staðreyndavillur“ enda byggja gögn Hagstofunnar á innflutningsskýrslum olíufélaganna sjálfra.

 

Þegar forsvarsmenn félaganna hafa loks viðurkennt að álagningin hafi hækkað, verður þeim tíðrætt um aukinn fjármagnskostnað, vegna dýrara birgðahalds. Fyrst að menn vilja ræða einstaka kostnaðarliði, þá er ágætt að taka dæmi.

 

Forsendur þess eru þær að olía sé að jafnaði geymd í 1 mánuð áður en hún er seld og að fjármagnskostnaður taki mið af stýrivöxtum Seðlabanka Íslands á hverjum tíma. Skjal með útreikningum er að finna hér.

 

Tímabil Innkaupsverð (CIF) á dieselolíu auk vörugjalds, pr. 1.000 ltr Stýrivextir SÍ Fjármagnskostnaður vegna birgðahalds, kr/ltr
Júlí 2007 33.696 kr 13,3% 0,35 kr
Júní 2008 79.620 kr 15,5% 0,96 kr
Mismunur 0,61 kr
 

Af þessu má dæma að kostnaður við birgðahald er sáralítill, hefur aukist um ca. 60 aura/ltr. Að ætla sér að skýra aukningu álagningar upp á milli 5 og 6 kr á lítra með honum er með öllu fráleitt.