Ólíkar aðstæður kúabænda heimsins
16.05.2012
Það er afar mikill munur á þeim kröfum sem gerðar eru til kúabænda eftir því hvar þeir búa og skildi nú engan undra að fyrir vikið sé mikill munur á verði mjólkur og nautakjöts á milli landa. Það virðist engu að síður vera svo að margir neytendur gera sér á engan hátt grein fyrir þeim mikla mun sem um er að ræða, meira að segja á milli landa innan Evrópusambandsins og landa sem eru aðilar að EES samninginum. Lítið dæmi um þetta eru ríkari kröfur til aðbúnaðar gripa á Norðurlöndunum heldur en t.d. í suður- og austurhluta Evrópu.
Þá er afar ólíkt aðgengi bænda að lyfjum eftir því hvar þeir búa í heiminum. Í Bandaríkjunum mega bændur t.d. nota fúkkalyf, hormóna og varnarefni í fóður nautgripa til þess að bæða flýta vexti og koma fyrirfram í veg fyrir mögulega sjúkdóma. Þá geta þeir keypt mörg dýralyf án lyfseðils.
Í þessu sambandi má geta þess að nýverið var sett á vefsíðu Progressive Dairyman áhugavert kennslumyndband sem sýnir í hnotskurn þann mikla mun sem er á aðstöðu kúabænda á milli landa. Í mörgum löndum leggja bændur mikið upp úr því að afhorna kálfa og þurfa alla jafnan að kalla til dýralækna til slíkra verka. Í Bandaríkjunum halda dýralæknar hinsvegar námskeið fyrir bændur og kenna þeim að gera þetta sjálfir. Með því að smella á meðfylgjandi hlekk má horfa á dr. Sheila McGuirk frá dýralæknaháskólanum í Wisconsin kenna bændum réttu handbrögðin, hvar á að sprauta kálfana við staðdeyfingu osfrv./SS.