Ókögglað og kögglað fóður handa gyltum – áhrif í meltingarvegi og á salmonellu
25.02.2008
Inngangur
Danir hafa framkvæmt nokkrar tilraunir með malað og kögglað fóður sem sýna fram á margvísleg áhrif þess í meltingarvegi eldisgrísa. Lífeðlisfræðilegir og efnafræðilegir þættir, svo sem sýrustig, blöndun meltingarmassa, þurrefni og myndun ýmissa sýra í meltingarvegi, fara eftir grófleika fóðursins og kögglun þess. Samsetning gerlaflórunnar í meltingarveginum fer einnig eftir því hvernig fóðrið er unnið og samsett. Þannig hefur komið í ljós að gróft ókögglað fóður hefur jákvæð áhrif á meltingarveginn og meltingarflóruna og dregur úr vaxtarskilyrðum Salmonella bakteríunnar. Er því gott samhengi á milli vinnsluaðferða á fóðri og áhrifa þess í meltingarvegi eldisgrísa.
Til varnar Salmonella í grísaeldi hafa því Danir ráðlagt m.a. að fóðrið innihaldi bygg, það sé gróft malað og ekki kögglað né hitameðhöndlað.
Lítið er hins vegar vitað um hvort mismunandi vinnsluaðferðir fóðurs hafi sömu áhrif á heilbrigði meltingarvegarins í gyltum. Á þessu ári (2004) var framkvæmd tilraun í Damörku í þeim tilgangi að kanna hvort sömu sömu jákvæðu áhrif í meltingarvegi eldisgrísa kæmu fram hjá gyltum ef þær væru fóðraðar með grófu óköggluðu fóðri.
Tilraunin
Tilraunin var framkvæmd á tveimur hópum gyltna á einu svínabúi.
Gyltur Aldur gyltna Hvernig fóður ?
Hópur 1: 20 gyltur Annars gots og eldri Fengu fínt malað kögglað fóður (kornhluti 2 mm)
Hópur 2: 20 gyltur Annars gots og eldri Fengu gróft malað ókögglað fóður (kornhluti 6 mm)
Báðir hópar fengu sömu hráefni og sömu gotgyltublönduna í 3 vikur fyrir áætlað got og þar til eftir fráfærur. Þá var gyltunum slátrað og rannsóknir framkvæmdar á meltingarvegi gyltnanna og innihaldi hans. Mældir voru ýmsir lífeðlis- og efnafræðilegir þættir svo sem sýrustig, þurrefni, botnfallseiginleikar fóðursins og styrkleiki ýmissa lífrænna sýra. Einnig voru bakteríur ræktaðar og framleiðslueiginleikar þeirra á lífrænum sýrum kannaðir. Jafnframt var leitað eftir breytingum og sárum í maga gyltnanna.
Niðurstöður
Malað fóður hafði í för með sér samanborið við kögglað fóður:
- Betur samhangandi meltingarmassa í maga (m.a. hærra hlutfall þurrefnis)
- Lægra sýrustig í mjógirni, botnlanga og víðgirni
- Aukið magn mjólkursýrugerla í mjógirni, botnlanga og víðgirni
- Hærri styrk mjólkursýru í mjógirni ásamt hærri styrk edik- própíon- og smjörsýru í víðgirni
- Meiri framleiðslu af edik- própíon- og smjörsýru í víðgirni
- Færri (og síður alvarlegri) breytingar í magaslímhimnu
- Mikil áhrif á gerjun í víðgirni
Ályktun
Tilraun þessi sýnir fram á að gróft malað ókögglað fóður handa gyltum hefur áhrif á vistkerfi gerlaflórunnar í meltingarvegi þeirra. Út frá þeim mismun sem kom í ljós á milli gyltuhópanna má gera ráð fyrir því að gróft malað fóður dragi úr vaxtarmöguleikum Salmonella samanborið við fóðrun með köggluðu hitameðhöndluðu fóðri.
KK dró saman og þýddi.
(Meddelelse nr. 668, Landsudvalget for Svin, DK)